Fara í efni

AÐGERÐAÁÆTLUN GEGN FÁTÆKT

Brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála er að útrýma fátækt í landinu. Íslendingar stæra sig af því að vera ein ríkasta þjóð heimsins. Á sama tíma er það viðurkennd staðreynd að þúsundir landsmanna búa undir fátækramörkum. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur unnið áætlun um hvernig megi markvisst jafna kjörin í landinu með það fyrir augum að bæta stöðu lágtekjuhópanna. Lágar tekjur samfara aukinni gjaldtöku er þegar orðin þess valdandi að fólk hefur ekki jafnan aðgang að velferðarþjónustu landsmanna. Þetta er ólíðandi og krefst úrbóta þegar í stað!
Ljóst er að tvennt þarf að gerast í senn, bæta þarf tekjur lágtekjuhópa og draga úr gjaldtöku í velferðarkerfinu.Vinstrihreyfingin grænt framboð boðar til fundar með fréttamönnum þriðjudaginn 10. apríl klukkan 16 í Kragakaffi en svo nefnum við kosningamiðstöð okkar í  Hamraborg í Kópavogi. Þar verður kynnt aðgerðaáætlun VG um hvernig flokkurinn hyggst standa að því að bæta kjör lágtekjufólks og útrýma fátækt í landinu. Að lokinni kynningunni sem fram fer undir yfirskriftinni, BÆTUM KJÖRIN – BURT MEÐ FÁTÆKT , verður kosningaskrifstofa VG í Suðvestur-kjördæmi, Kraganum opnuð.