20 ÁRA ÓSLITIN VALDASETA – ÞAÐ MÁ EKKI VERÐA


Þau Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tóku sig prýðilega út í iðagrænni fjallsbrekkunni á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hönnuðir og leikstjórnendur landsfundarins höfðu greinilega unnið sína vinnu. Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins birtust okkur sem einlægir náttúruverndarsinnar, fólk sem hafði verið vakið og sofið til verndar öllum þeim djásnum sem náttúru landsins prýðir. Auðvitað hefði það gefið raunsannari mynd af Sjálfstæðisflokknum og stefnu hans að hafa leikmyndina allt aðra. Til dæmis hefði hinn mikli stíflumúr Kárahnjúkavirkjunar sómt sér vel. Þar hefðum við verið minnt á unnin afrek og einnig hitt sem koma skal ef Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram við stjórnvölinn. Geir og Þorgerður hefðu þá sennilega þurft að skipta út grárri dragt og gráum jakkafötum, ella hefðu þau horfið inn í múrinn sem hefði þó verið viðeigandi. Þau hefðu til dæmis getað snúið myndinni við og klætt sig aðeins út í grænt. Þó ekki væri nema til að sýna náttúruverndinni örlítinn virðingarvott. Það hefði verið heiðarlegra- eða hvað?

Það er hreint makalaust og með miklum ólíkindum hve vel Sjálfstæðisflokknum tekst að gefa af sér allt aðra mynd en þá sem á sér stoð í veruleikanum. Og ekki hjálpa fjölmiðlarnir mikið upp á - allt of margir láta gott heita að vera  mataðir á tilbúnum réttum. Hvernig stendur á því að við fáum til dæmis ekki gagnrýna umfjöllun um einkavæðingaráform flokksins í raforkugeiranum og þá í ljósi reynslunnar erlendis frá. Þykir mönnum það spennandi tilhugsun að Alcan eða Alcoa ættu Landsvirkjun og Hitaveitu Suðurnesja og versluðu síðan við sjálfa sig? Sjálfstæðisflokkurinn vill opna á þetta. Þetta er stórmál sem þarf að ræða.

Sjálfstæðisflokkurinn hótar því að einkavæða heilbrigðiskerfið. Lesandi þessarar síðu hefur farið betur í það mál en flestir ef ekki allir fjölmiðlar, sbr. HÉR. Sjálfstæðisflokkurinn segist vilja láta skattborgarann greiða fyrir hina einkavæddu heilbrigðisþjónustu. En ef það reynist miklu dýrara og er óhagkvæmara - á samt að einkavæða heilbrigðisþjónustuna? Þetta er stórmál sem þarf að ræða.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú setið að völdum í 16 ár samfleytt. Framsóknarflokkurinn hefur setið við kjötkatlana - þannig er stjórnarsetu þess flokks best lýst - í 12 ár. Vill þjóðin meira? Vilja menn enn eitt kjörtímabilið? Vilja menn 20 ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins? Væri það hollt fyrir lýðræðið í landinu? Væri það hollt fyrir íslenskt samfélag? Skoðanakannanir að undanförnu gefa þær hrikalegu vísbendingar að ríkisstjórnin kunni að halda velli. Með enn sterkari Sjálfstæðisflokki en veikari Framsókn - nánast komin í göngugrindina svo gripið sé til orðfæris lesenda hér á síðunni. Hvers konar ríkisstjórn yrði þetta? Enn grimmara Íhald, Framsókn með enn slakari sjálfsmynd. Þetta er stórmál sem þarf að ræða.

Getur verið að kjósendur hafi ekki fengið nóg af Íraksstríðum, öryrkjadómum, svikum við fatlaða og aldraða, misrétti og misskiptingu að ógleymdri einkavinaspillingunni? Ég held að meirihluti þjóðarinnar sé búinn að fá nóg. Búinn að fá sig fullsaddan af stjórn þessara flokka - alla vega að sinni. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur talað mjög skýrt um stjórnarmynstur á komandi kjörtímabili. Hún hefur beint því til þjóðarinnar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn út úr Stjórnarráðinu og opna dyrnar fyrir stjórnarandstöðunni. Ég er sannfærður um að það yrði okkar samfélagi fyrir bestu. Okkur tækist betur að jafna kjörin, tryggja jafnrétti, stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu, þyrma náttúrunni og færa okkur reisn á alþjóðavettvangi.

Þetta er hægt. Það er hins vegar ekki hægt - það gengur ekki - að Sjálfstæðisflokkurinn stjórni landinu í samfleytt 20 ár. Hversu hlýjar taugar sem menn kunna að hafa til Sjálfstæðisflokksinsþá hljóta menn að íhuga hvort tveggja áratuga valdaseta - þar sem flokkurinn hefur verið nánast einráður - sé heillavænleg fyrir þjóðina og þess vegna einnig Sjálfstæðisflokkinn. Nú stefnir í að flokkurinn sitji enn lengur og verði enn einráðari en nokkru sinni fyrr. Það má ekki verða!

Fréttabréf