Fara í efni

LEIKSÝNING FRAMSÓKNAR


Framsókn átti helgina. Í rauninni var það ekkert undarlegt því flokkurinn hélt landsþing og blés í lúðra af því tilefni með mikilli opnunarhátíð í Borgarleikhúsinu.
Það er sem við manninn mælt að þegar kosningar nálgast umpólast Framsókn. Stjórnmálaflokkur sem setið hefur að völdum í tólf ár, haldið sig þétt upp að kjötkötlunum og nýtt sér aðstöðu sína til hins ítrasta, er skyndilega orðinn róttækur stjórnarandstöðuflokkur sem má ekki vamm sitt vita hvorki í stóru né smáu, heima eða heiman.
Kárahnjúkaflokkurinn, Íraksflokkurinn, einkavinavæðingarflokkurinn, flokkurinn sem hrakti framkvæmdastýru Jafnréttisstofu úr embætti, flokkurinn sem kom á kvótakerfinu, flokkurinn sem sveik samninginn við Öryrkjabandalagið; Framsóknarflokkurinn má nú ekki hugsa til þess að svo mikið sem agnarsmár blettur falli á alhreint mannorðið.
Að eigin sögn er Framsókn nú svo misboðið að ef Sjálfstæðisflokkurinn ekki samþykkir að setja ákvæði í stjórnarskrá um sameign á auðlindum sjávarins, þá megi búast við stjórnarslitum. Góðir hálsar, það eru tveir mánuðir eftir af kjörtímabilinu! Eftir tólf ára spillta valdasetu er Framsóknarflokkurinn skyndilega farinn að tala um að ekki megi svíkja gefin loforð! En hvað með barnabótaloforðin, loforðin til aldraðra, sjúklinga, öryrkja og öll hin loforðin sem voru svikin?
Nei, flokkurinn sem falboðið hefur öll stórfljót landsins fjölþjóðlegum auðhringum, flokkurinn sem gert hefur innstu koppa í fjármálabúri Framsóknar að milljarðamæringum með einkavæðingu ríkiseigna, flokkurinn sem sveik Ríkisútvarpið, flokkurinn sem auðsveipur hefur gengið erinda auðmanna og erlendra hervelda, sá flokkur getur ekki slegið ryki í augu þjóðarinnar með þessum hætti. Að einu leyti kann þó Framsóknarflokkurinn sig. Uppákoman var í leikhúsi. Það var við hæfi.