Fara í efni

HVERS KONAR UPPBYGGINGU Á HÚSAVÍK?


Í dag var haldinn ágætur fundur á Húsavík um vistvæna atvinnusköpun. Yfirskrift fundarins var Sjálfbært samfélag – Nýting auðlinda – Endurheimt landgæða. Þrjú erindi voru á dagskrá: Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra átti að fjalla um byggðastefnu í sjálfbæru samfélagi, Andrés Arnalds, starfsmaður Landgræðslunnar um landgræðslu gegn loftlagsbreytingum og eflingu byggða og landsgæða. Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumsaður Gunnarstofu, spurði leitaðist við að svara því hvort þjóðgarðar væru í þágu byggða.
Að þessum erindum loknun var fulltrúum stjórnmálaflokkanna gefið tækifæri til að segja nokkur orð.
Erindi þeirra Andrésar og Skúla Björns voru fróðleg. Nokkuð tognaði úr erindi utanríkisráðherra og notaði hún fjórðungs ætlaðs fundartíma. Ráðherra var nokkur vorkunn því á daginn kom að henni var umhugað um að koma því á framfæri við fundarmenn að Vinstrihreyfinigin grænt framboð hefði lagt það af mörkum til atvinnusköpunar í landinu á undanförnum árum að setja fram uppástungu um nýtingu fjallagrasa og að Norðurljósin mætti  nýta ferðaþjónustunni til framdráttar. Utanríkisráherrann vildi einnig upplýsa fundarmenn að Framsóknarflokkurinn liti svo á að stjórnmálamenn ættu ekki að skipta sér af atvinnuuppbyggingu! Mér sýndist einhverjir verða svolítið sljóir til augnanna þegar sjálfur ál- ráðherrann lét þessi orð falla; ráðherra sem hefur beitt sér meira en sennilega nokkur annar Íslendingur fyrir því að ríkið – og þar með stjórnmálamenn - greiddu götu stóriðjunnar!

Eftir að fyrirlesarar höfðu lokið máli sínu komum við fulltrúar flokkanna (Valgerður Sverrisdóttir virtist eiga að vera eitthvað allt annað en Framsóknarkona á fundinum þótt það skuli viðurekennt að afar erfitt reyndist að sjá hvað annað hún væri). Birkir Jón Jónsson, Framsóknarfokki vildi álver á Húsavík, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sjálfstæðisflokki einnig, fulltrúi Frjálslyndra (en nafn hans veit ég því miður ekki) vildi álver á Húsavík og Kristján Möller, fulltrúi Samfylkingar vildi einnig álver á Húsavík. Aðeins sá sem þetta ritar, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs vildi aðra atvinnukosti en stóriðju.
Á Húsavík hefur verið að þróast mjög framsækin atvinnustarfsemi í verslun og þjónustu og þá einnig í matvælaframleiðslu, ferðaiðnaði og hitti ég að máli menn sem voru fullir bjartsýni á framtíðina. Nýsköpunarmöguleikar væru miklir og bentu á fjölmörg dæmi þar um. Þessir menn kváðust vilja fjöbreytni í atvinnulífi í stað einhæfrar stóriðju. Þetta  tvennt færi einfaldlega ekki saman. Undir það tek ég. Reynslan kennir að stóriðjan ryður annarri atvinnustarfemi burt með þennslu og ofurháum vöxtum auk þess sem virðisaukinn af henni væri minni en í flestum öðrum atvinnugreinum.