Fara í efni

EF LISTANUM Í KRAGANUM VÆRI SNÚIÐ VIÐ VÆRU ÞAU EFST


Í vikunni var gengið frá uppröðun lista VG á suðvesturhorninu, svokölluðum Kraga og Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Ég kem til með að vera í framboði í Kraganum og er ég mjög stoltur af því að fá að vera þar í hópi sérlega öflugrar og skemmtilegrar sveitar. Þar vil ég nefna sagnfræðinginn, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, forseta Skáksambands Íslands, Gest Svavarsson, hugbúnaðarráðgjafa í Hafnarfirði, Andreu Ólafsdóttur, háskólanema í uppeldis- og menntunarfræði og Mireyu Samper, myndlistarkonu úr Kópavogi. Þetta fólk á það allt sammerkt að vera brennandi í andanum, reiðubúið að takast á við þau viðfangsefni sem við er að glíma. Helst vildi ég sjá allt þetta fólk á Alþingi! Þá væri gaman að lifa.

Stundum hefur verið haft á orði að mælikvarði á styrkleika framboðslista sé sá, að skipta megi út einum í annars stað, stokka listann upp, án þess að draga úr styrkleika framboðsins, jafnvel eigi að vera hægt að snúa listanum við!
Hvað Kragann áhrærir væri þetta óhætt. Þá væri kominn í fyrsta sætið Benedikt Davíðsson, fyrrverandi forseti Alþýðusambands Íslands, einn kröftugasti baráttumaður verkalýðsins á Íslandi um áratugaskeið og í seinni tíð einnig forsvarsmaður í samtökum aldraðra. Sem kunnugt er var Benedikt um skeið formaður Landssambands eldri borgara. Annað sætið myndi skipa Kristín Halldórsdóttir, fyrrverandi alþingiskona Kvennalistans og síðar framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Ég get ljóstrað því upp, að þegar ég hugði mér til hreyfings í stjórnmálum um miðjan tíunda áratuginn og horfði til þeirra sem þá skipuðu framvarðarsveitina í pólitíkinni, að þá horfði ég mjög til Kristínar, vildi gjarnan standa sem næst henni, vildi eiga samleið með þessari baráttukonu fyrir jafnrétti, náttúruvernd og merkisbera félagslegra gilda. Síðar varð mér að þessari ósk minni. Þriðja sætið á viðsnúnum lista VG í Kraganum myndi skipa Höskuldur Þráinsson, prófessor. Höskuldur er þjóðkunnur maður en fyrir þá sem ekki vita þá er hann Mývetningur að uppruna og á að baki nám í íslensku, sagnfræði og málvísindum en doktorsgráðu í þeirri grein fékk hann við Harvard-háskóla árið 1979. Höskuldur hefur fengist við kennslu, rannsóknir og ritstörf og er hann aðalhöfundur eins þriggja binda Íslenskrar tungu sem út kom árið 2005. Hann sýnir okkur mikinn sóma að skipa eitt af heiðurssætum listans í Kraganum. Fjórða sætið myndi síðan skipa Anna Þorsteinsdóttir, húsmóðir og kennari, róttæk baráttukona allt sitt líf. Til gaman má geta þess að Anna er elsti nemandi sem sest hefur í Skákskóla Íslands!