Fara í efni

MIKIÐ UM LEIKREGLUR – MINNA UM SIÐFERÐI OG DÓMGREIND

Silfur Egils var á sínum stað í dag og var ég þar mættur að þessu sinni. Tvennt vakti sérstaklega athygli í þættinum. Í fyrsta lagi af hve miklum ákafa Illugi Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki og Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki, töluðu um hið frábæra samstarf flokka sinna á undangengnum hálfum öðrum áratug. Var greinilegt að þeir vilja öllu öðru framar að framhald verði þar á að afloknum næstu kosningum. Illugi virtist jafnvel enn ákafari í bónorðum og ástarjátningum en Hjálmar. Það var þess vegna ekki út í loftið hjá Kristrúnu Heimisdóttur, Samfylkingu að segja að atkvæði greitt Sjálfstæðisflokki væri atkvæði greitt Framsókn! Það er augljóst að nú eru að teiknast upp línurnar fyrir komandi kosningar en þar verða átakafletirnir á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Hitt sem vakti athygli í þættinum voru áherslur flokkanna varðandi einkavæðinguna. Kristrún Heimisdóttir fór skilmerkilega yfir hvernig óeðlilega hefði verið staðið að einkavæðingu Íslenskra Aðalverktaka. Þar hefðu leikreglur verið brotnar að hennar mati. Kristrún sá ástæðu til að taka sérstaklega fram að hún væri ekki á sama báti og  Vinstrihreyfingin grænt framboð varðandi einkavæðinguna. Hún væri ekki andvíg henni heldur sneri gagnrýni hennar að því að ekki hefði verið farið að settum leikreglum. Allt væri þetta spurning um leikreglurnar. Ég nefndi það í þættinum að hugtakanotkunin segði sína sögu. Reglurnar skipta vissulega máli en hvað um sjálfan leikinn? Er hann í lagi? Er í lagi að gera Landssíma Íslands að fjárfestingarfyrirtæki sem þjónustar landsmenn í samræmi við þann arð sem hvert viðvik gefur? Er  í lagi að umbreyta þjóðfélagi okkar og gefa það markaði og græðgi á hönd? Skiptir engu máli að í landinu skuli nú stefna í átt til aukins misréttis, meðal annars vegna einkavæðingarfársins? Skyldu fátækir landsmenn orna sér við þá tilhugsun að milljarðamæringar maka nú krókinn sem aldrei fyrr? Gæti verið að auk þess að tala um leikreglur ættu fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar að fara að dæmi okkar í Vinstrihreyfingunni grænu framboði og tala líka um stefnuna sem slíka og þá einnig um pólitíska dómgreind og siðferði. Er það ekki umhugsunarefni að á sama tíma og menn forðast umræðu um einkavæðingarstefnuna og vilja beina henni einvörðungu að leikreglunum þá skuli æ sjaldnar heyrast minnst á hugtök á borð við siðferði og dómgreind?