Fara í efni

EINN TALAR ÚT, ANNAR Í SUÐUR

Sem kunnugt er varð ekki samkomulag um sameiginlegt R-listaframboð í Reykjavík. Eins og við mátti búast eru menn ekki á einu máli um hvað varð þess valdandi að samkomulag náðist ekki. Í VG telja menn að Samfylkingin hafi sýnt óbilgirni. Á þeim bænum eru menn hins vegar á öðru máli. Björgvin G. Guðmundsson alþingismaður Samfylkingarinnar á Suðurlandi fullyrðir á heimasíðu sinni að VG sé um að kenna hvernig fór: "Með því að sprengja Reykjavíkurlistann færðu vinstri grænir íhaldinu í borginni gullið tækifæri til að ná aftur völdum í Reykjavík. Það er engin spurning en öflugt framboð Samfylkingarinnar mun líklega koma í veg fyrir það. VG mun uppskera einsog þeir sá. Það munu þeir reyna á næstu mánuðum."

Óvenjulegar bölbænir

Þetta held ég að hljóti að flokkast undir fremur óvenjulegar bölbænir til handa stjórnmálaflokki sem látið hefur verið í veðri vaka að Samfylkingin leggi mikið upp úr að starfa með. Svo er nefnilega á Björgvin G. Guðmundssyni að skilja, að allt sé til vinnandi að halda Íhaldinu frá stjórn ríkis og borgar, nokkuð sem "öflugt framboð Samfylkingarinnar mun líklega koma í veg fyrir.."
Hvað skyldi Björgvin G. Guðmundsson nú segja um flokksfélaga sinn Stefán J. Hafstein og yfirlýsingar hans um hugsanlegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn en í viðtali við Blaðið viðraði hann sjónarmið sín nýlega undir fyrirsögninni, "Sé samstarfsmöguleika við Sjálfstæðismenn". Þar er Stefán Jón, sem gjarnan vill verða borgarstjóri, spurður hvort hann sjái fyrir sér samstarf við "sjálfstæðismenn, jafnvel minnihlutastjórn?".  Stefán Jón kveður vera flöt á slíku og að "alveg eins"  segir hann "engan veginn fráleitt að minnihlutastjórn færi fyrir borginni og þyrfti þá að leita samkomulags um einstök mál í sátt og samlyndi".
 Um slíkt samstarf fæ ég ekki annað ráðið af ummælum Stefáns Jóns, en að hann horfi fyrst og fremst til Sjálfstæðisflokksins. Hann er nefnilega sérstaklega spurður um framtíðaráformin í þessu viðtali og svarar afdráttarlaust: "En pólitíkin? Hvað á Samfylkingin óunnið, sem ekki hefur áorkast á 12 árum í R-listanum?" Svarið er eftirfarandi: "Ég sé fyrir mér sífellt fleiri verkefni, sem hið opinbera hefur sinnt til þessa, verði unnin í samstarfi við einkaaðila og félagasamtaka. Það hefur kannski verið eitt best geymda leyndarmál R-listans, hvað við höfum gert mikið af þessu, en það er er nóg af sóknarfærum eftir."

Stefán Jón Hafstein horfir til hægri

Hér er talað skýrt. Þegar horft er til næsta kjörtímabils sér hann fyrst og fremst fyrir sér aukna einkavæðingu, framhald á "best geymda leyndarmálinu". Hann telur, að jafnvel í minnihlutastjórn verði hægt að ná slíku fram í "sátt og samlyndi". Stefán Jón Hafstein veit að svo verður ekki í samstarfi við VG. Sá flokkur hefur einmitt viljað efla samfélagsþjónustuna og hamlað gegn einkavæðingafárinu, sem sannað er að bitnar illa á skattgreiðendum. Þá er Sjálfstæðisflokkurinn eftir. Ekki væru það góðar fréttir fyrir borgarbúa ef þessir flokkar færu saman "í sátt og samlyndi" að gaumgæfa öll þau "sóknarfæri" sem bjóðast fjárfestum, sem við vitum að ólmir vilja maka krókinn í Reykjavíkurborg.

VG stendur fyrir öfluga samfélagsþjónustu

Mér sýnist hið pólitíska landakort vera að teiknast nokkuð skýrt upp. Mér sýnist margt benda til þess að valkostir kjósenda muni verða nokkuð skýrir í komandi borgarstjórnarkosningum. Þar þarf enginn að velkjast í vafa um vilja VG til að efla samfélagsþjónustuna, einvörðungu  með hagsmuni borgarbúa í huga.
En ég er hræddur um að Björgvin G. Guðmundsson, alþingismaður, verði að kynna sér málin betur áður en hann næst drepur niður penna um pólitíkina í borginni.