Fara í efni

Þyrftu póltíkusar að vera betur að sér í hagfræði?

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, brást fremur önuglega við þeim ummælum Tryggva Þórs Herbertssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að skera þurfi niður ríkisútgjöld til að mæta boðuðum skattalækkunum og að rétt væri að líta þar sérstaklega til utanríkisþjónustunnar. Þetta er fullkomlega réttmætt sjónarmið hjá Tryggva Þór og ekkert við það að athuga að hann viðri þessa skoðun sína. En af þessu tilefni sagði Halldór Ásgrímsson (sjá Mbl. 11.sept): "Ég ætla að biðja hagfræðinga um eitt: að vera frekar í hagfræði en pólitík". Og utanríkisráðherra sagði að stöðugt væri verið að spara í utanríkisráðuneytinu, "segja upp bílstjórum sendiherra, jafnvel selja ákveðið húsnæði og fleira". Hvaða húsnæði skyldi það vera, varla sendiráðið í Tokyo sem kostaði tæpan milljarð? Og varla á að fara að skera niður framlagið til NATÓ, nokkuð sem Halldór Ásgrímsson hefur stóraukið og kallar "þróunaraðstoð".

En látum þetta liggja á milli hluta og víkjum að hagfræðinni, það er að segja hagfræði Halldórs Ásgrímssonar: "Það vill svo til að langstærsti hluti útgjalda utanríkisþjónustunnar er erlendis – þróunaraðstoð og kostnaður við sendiráð. Og sparnaðar á þessu sviði hefur engin hagfræðileg áhrif hér innanlands". Og síðan klykkir utanríkisráðherra út með því að beina orðum sínum til hagfræðinga sem telja að mæta þurfi skattalækkunum með niðurskurði og leyfa sér að benda á hans ráðuneyti,..."og verið ekki með þetta rugl." Já, hmm. Hvað skal segja? Hvaðan skyldi Halldór Ásgrímsson halda að fjármuna sé aflað til utanríkisþjónustunnar annars staðar en hjá íslenskum skattborgurum, þeim hinum sömu og greiða fyrir velferðarþjónustuna? Þessar skattkrónur eru meira að segja nákvæmlega eins á meðan þær eru að fara upp úr vösum skattborgarans.

Gæti það verið til gagns að pólitíkusar gerðust örlítið meiri hagspekingar – alla vega í bland, ekki síst þeir sem ætla að setjast í stól forsætisráðherra þjóðarinnar?