Fara í efni

Stóll mikilvægari stjórnarskrá?

Birtist í Morgunblaðinu 17.07.04.
Margir urðu agndofa við fréttir útvarps- og sjónvarpsstöðvanna á fimmtudag. Ekki endilega að formenn stjórnarflokkanna kæmu á óvart. Miklu fremur þingmenn stjórnarmeirihlutans, sem sumir hverjir hafa verið með sverar yfirlýsingar í fjölmiðlum undanfarna daga. Þannig hafði Jónína Bjartmarz frá Framsóknarflokki lýst því yfir að hún væri á þeirri skoðun að það eitt stæðist stjórnarskrá að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðlu undanbragðalaust. Þingið gæti ekki tekið málið út úr því ferli. Við þessar yfirlýsingar vöknuðum við upp einn morguninn þegar útvarpað var bút úr ræðu hennar á fundi með framsóknarmönnum í Reykjavík. Nú segir Jónína Bjartmarz okkur í fréttum að í Allsherjarnefnd sé enginn ágreiningur í liði stjórnarmeirihlutans! Ber að skilja þetta svo að sjálfstæðismenn séu komnir á þessa skoðun líka? Það er ekkert við það að athuga að fólk skipti um skoðun en ekki hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar, sem sæti eiga í nefndinni orðið varir við slík sinnaskipti. Alla vega bólar ekkert á tillögum frá þeim að boðað skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar í stað. Nærtækari skýring væri að Jónína Bjartmarz hafi umpólast. Guðlaugur Þór, Sjálfstæðisflokki sagði síðan í Kastljósi Sjónvarps þetta kvöld að ekkert lægi á að klára þetta mál! Sú yfirlýsing kemur óneitanlega spánskt fyrir sjónir. Í stjórnarskrá lýðveldisins segir að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla "svo fljótt sem kostur er". Skiptir þetta ákvæði stjórnarskrárinnar engu máli? Skiptir stjórnarskráin í heild sinni ef til vill engu máli?  Oddvitar stjórnarflokkanna, núverandi og tilvonandi stólhafi, sátu lengi dags á fundi og kváðust myndu leysa málin. Hvaða mál þarf að leysa? Okkur var jú sagt að enginn ágreiningur væri fyrir hendi. Hver yfirlýsingin toppar aðra. Halldór Ásgrímsson átti þó metið í fréttatímum kvöldsins. Hann sagði að málið væri ekki nógu stórt til að valda stjórnarslitum. Hvað meinar maðurinn? Standa deilurnar ekki um stjórnarskrá Íslands? Er ekki meirihluti lögfræðinga á því máli að stjórnarfrumvarpið brjóti í bága við stjórnarskrána? Er það ekki nógu stórt mál fyrir Halldór Ásgrímsson til að setja ríkisstjórnarsamstarf í uppnám? Hvaða mál skyldi í hans huga vera stærra en stóll forsætisráðherra?