Fara í efni

Söguskýring Halldórs Ásgrímssonar: "Það vildu allir fara á þingvöll 17. júní."

Formaður Framsóknarflokksins hlýtur að hafa slegið einhver met í söguskýringum í fréttaviðtölum í gær. Fernt  stendur upp úr. Í fyrsta lagi sú stórfenglega söguskýring að ekki hafi gefist tóm til að ganga frá stjórnarskrá því mönnum hafi legið svo á að komast á Þingvöll árið 1944! Þetta eru makalaus ummæli. Stjórnarskrárdrögin höfðu verið til ítarlegrar umfjöllunar í milliþinganefndum og á Alþingi áður en frá þeim var gengið. Í öðru lagi segir að vegna þess að enginn þingmaður hafi flutt tillögu um framkvæmd kosninga "sannar það" samkvæmt fullyrðingu Halldórs Ásgrímssonar, "að þingmenn almennt hafa aldrei reiknað með því að á þetta reyndi". Þetta eru ósannindi. Halldór Ásgrímsson getur talað fyrir sjálfan sig en ekki alla aðra. Ég hef til dæmis reiknað með því að á þetta kynni að reyna og veit að það á við um fjölmarga aðra þingmenn sem til dæmis beittu sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um EES samninginn á sínum tíma, Öryrkjadeiluna  og Kárahnjúkaframkvæmdina. Er formaður Framsóknarflokksins að gera því skóna að menn hafi verið að tala út í loftið og ekki meint neitt með neinu? Og hvað með allar tugþúsundirnar sem settu nöfn sín undir áskoranir um þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrrnefnd mál? Í þriðja lagi segir Halldór Ásgrímsson að það hljóti "allir að geta verið sammála um það að það  er eðlilegt út frá pólitísku mati að einhver ákveðin skilyrði séu fyrir því að lög sem eru samþykkt af Alþingi með venjubundnum hætti, Alþingi sem er kosið með tæplega 88% atkvæða, að þau séu ekki felld úr gildi af einhverjum tiltölulega litlum minnihluta þjóðarinnar." Hér er Halldór Ásgrímsson væntanlega að vísa í kjörsókn í síðustu þingkosningum! Ef út í það er farið og beitt sömu hundalógík og ríkisstjórnin væri útkoman sú að langt innan við helmingur þjóðarinnar hafi staðið að baki frumvarpi ríkisstjórnarinnar, enda var það samþykkt með naumum meirihluta á þinginu. Að fullyrða  að "allir hljóti að geta verið sammála um ... að einhver ákveðin skilyrði" séu sett, er óskammfeilin yfirlýsing af hálfu Halldórs. Þjóðfélagið bókstaflega logar í deilum um einmitt þetta mál, nánast allir lögfræðingar, líka álitsgjafar ríkisstjórnarinnar efast um að slík skilyrði stæðust stjórnarskrá og samkvæmt nýlegri Gallup könnun er meirihluti þjóðarinnar andvígur slíkum skilyrðum! Í fjórða lagi segir Halldór Ásgrímsson "ekki hægt að lesa það út úr stjórnarskránni hvernig þetta eigi að vera". Um þetta er vissulega deilt og stendur hér skoðun gegn skoðun. Sjálfum finnst mér málið einfalt og sýnist mér aðeins þeir sem vilja reyna að draga úr vægi þjóðaratkvæðagreiðslunnar þykja stjórnarskrártextinn torskilinn. Það deilir enginn um að einfaldur meirihluti stangast ekki á við stjórnarskrána. Aðeins er deilt um hvort takmarkanir standist stjórnarskrá Íslands. Um þá leið er ágreiningur. Óskiljanlegt er að formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks velji enn eina ferðina leið sundrungar og ósættis.

Úr fréttatíma RÚV kl. 18:00 frá í gær:

Pólitískt mat hlýtur að ráða því hvaða skilyrði verða sett um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem framundan er segir Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, úr því að lögfræðinefnd ríkisstjórnarinnar hefur ekki tekið af skarið um hvernig haga skuli málum. Skilyrðin verði þó að vera hófleg.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra tekur undir það með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra að unnt sé að setja almennar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslu, án þess að stjórnarskránni sé breytt. Engu að síður sé brýnt að huga sem fyrst að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ríkisstjórnin mun ræða um þjóðaratkvæðagreiðsluna á fundi sínum á morgun. Úr því að lögin eru ekki nægilega skýr verða stjórnmálamenn að taka af skarið að dómi Halldórs.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra: Það hljóta allir að geta verið sammála um það að það er eðlilegt út frá pólitísku mati að einhver ákveðin skilyrði séu fyrir því að lög sem eru samþykkt af Alþingi með venjubundnum hætti, Alþingi sem er kosið með tæplega 88% atkvæða, að þau séu ekki felld úr gildi af einhverjum tiltölulega litlum minnihluta þjóðarinnar. En við stöndum bara í þeim sporum að þetta mál hefur lítið sem ekkert verið hugsað því það hefur enginn gert ráð fyrir því að á þetta reyndi.

Ólöf Rún Skúladóttir: Hvað myndir þú sætta þig við? Nú er það ljóst að þetta er erfið ákvörðun sem þið þurfið að taka en hvað væri ásættanlegt að þínum dómi?

Halldór Ásgrímsson: Ég ætla ekki að svara því hér og nú. Við munum fjalla um þetta mál á ríkisstjórnarfundi á morgun.

Ólöf: Þú segir að þú sért sammála því að það þurfi að setja almennar reglur en er hægt að gera það án þess að fara í endurskoðun á stjórnarskrá að þínum dómi?

Halldór Ásgrímsson: Já það eru ýmis rök fyrir því. Stjórnarskráin segir lítið til um þetta mál. Það er ekki hægt að lesa það út

Eftirfarandi er viðtal við Halldór Ásgrímsson í Spegli Ríkisútvarpsains frá í gær:

Við byrjum með þjóðaratkvæðagreiðslum og þröskuldum sem hafa verið hitamál í umræðunni síðustu daga. Á að setja mörk og hvar skulu þau liggja. Ólöf Rún Skúladóttir ræddi við Halldór Ásgrímsson fyrr í dag um skýrslu starfshópsins sem oft hefur verið nefnd og verkefni ríkisstjórnarinnar í næstu viku þegar þingið kemur saman. Halldór segir að í niðurstöðu lögfræðinganefndarinnar kristallist hversu brýnt sé að ganga kirfilega frá því hvernig að þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi skuli standa.

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins: Það er ekki hægt að lesa það út úr stjórnarskránni hvernig þetta á að vera og það kemur fram í þessari skýrslu að með því sé heldur ekki hægt að segja að það sé ekki hægt vegna þess að stjórnarskráin bannar það ekki heldur. En að mínu mati að þá sannar þessi skýrsla það afskaplega vel að við verðum að fara í endurskoðun á stjórnarskránni að því er þetta mál varðar og ljúka því starfi sem að hófst 1944. Það virðist vera að þeir hafi ekki getað lokið því, það var ágreiningur um málið. Það vildu allir fara á Þingvöll 17. júní, það ... að ljúka þessu og það var skilið eftir og Alþingi hefur aldrei klárað það. Og það hefur enginn þingmaður flutt tillögu um það á undanförnum áratugum að setja slík lög sem að sannar það að þingmenn almennt hafa aldrei reiknað með því að á þetta reyndi.

Ólöf Rún Skúladóttir: En telurðu hægt að gera þetta án þess að fara í þessa endurskoðun stjórnarskrár eins og Davíð hefur þó nefnt?

Halldór Ásgrímsson: Já, ég tel að það sé hægt að setja tiltekin skilyrði en eins og ég sagði áðan að þá er það pólitískt mat vegna þess að við fáum ekki endanlega lögfræðilega niðurstöðu í því hver þessi skilyrði skulu vera og eins og fram kemur í þessu áliti að þá þurfa þau að vera hófleg. En hvað er hóflegt í þessu sambandi það er það mat sem að við stöndum núna frammi fyrir því miður. Við hefðum gjarnan viljað fá alveg ákveðna niðurstöðu. En það getur enginn lögfræðingur svarað því nákvæmlega hvernig það á að vera.

Ólöf: Eruð þið Davíð komnir niður á hver þessi hóflega tala á að vera?

Halldór Ásgrímsson: Þetta er ekkert spurningin um mig og Davíð, það er mikill misskilningur. Þetta er spurningin um Alþingi og spurningin um það hvers konar frumvarp ríkisstjórnin leggur fyrir þingflokkana til þess að taka afstöðu til og það er það sem við erum að vinna í þessa dagana.

Ólöf: En það hlýtur þó að verða að liggja fyrir einhver sátt, einhver tala sem þið miðið við í ykkar frumvarpi. Er hún komin fram í dagsljósið?

Halldór Ásgrímsson: Nei, hún er ekki komin.

Ólöf: Hefur þetta mál verið erfiðara heldur en ykkur óraði fyrir þegar af stað var farið?

Halldór Ásgrímsson: Já, það hefur verið mjög erfitt og þessi ákvörðun forsetans hefur að sjálfsögðu sett þetta mál í mjög erfiða stöðu í því ljósi að það hefur enginn reiknað með því að þessu synjunarvaldi verði beitt. Og það er alveg ljóst að það verður að fara mjög vandlega yfir það. En það gerist ekki endanlega á því þingi sem nú er framundan.