Fara í efni

Á hvaða vegferð er Morgunblaðið?

Birtist í Morgunblaðinu 14.07.04.
Í leiðara í dag, mánudag, fjallar Morgunblaðið m.a. um skoðanakannanir og þjóðmálaumræður. Það er reyndar heiti leiðarans. Tilefni er skoðanakönnun Fréttablaðsins um síðastliðna helgi og þá ekki síður umfjöllun Ríkisútvarpsins og annrra fjölmiðla um könnunina. Leiðarahöfundur segir að yfirleitt leiti "fylgi stjórnmálaflokkanna hefðbundins jafnvægis í kosningum." Skoðanakannanir á milli kosninga segi enga sögu "nema í mesta lagi þá, hver staðan er þá stundina en þær gefa litla vísbendingu um hvað gerast muni í næstu kosningum. Alveg sérstaklega á það við um skoðanakannanir snemma á kjörtímabili".

Umhyggja Morgunblaðsins fyrir Framsókn

Leiðarahöfundi Morgunblaðsins svíður greinilega slæm útreið Framsóknarflokksins í umræddri könnun og svo er að skilja að honum finnist óeðlilegt að niðurstöðurnar séu teknar alvarlega, jafnvel ræddar: "Í ljósi þessarar reynslu má furðu gegna að hver skoðanakönnunin á fætur annarri virðist valda einhverju uppnámi meðal fjölmiðla og stjórnmálamanna. Það segir ákaflega litla sögu um stöðu Framsóknarflokksins í íslenzkum stjórnmálum, þótt skoðanakönnun Fréttablaðsins sem byggist á svörum innan við 500 einstaklinga gefi til kynna, að flokkurinn njóti minnsts fylgis íslenzkra stjórnmálaflokka. Framsóknarflokkurinn vann verulegan sigur í síðustu þingkosningum eftir að skoðanakannanir fram á síðustu vikur höfðu spáð flokknum miklum óförum."

Ekki marktækt að dæma menn af verkum þeirra?

Það er rétt hjá Morgunblaðinu, að endanlega eru það kosningar sem skipta máli fyrir gengi stjórnmálaflokka. Í aðdraganda kosninga er hins vegar háð kosningabarátta þar sem fjármunir ráða miklu og er frægt að endemum þegar auglýsingastofan sem hafði Framsóknarflokkinn til meðferðar fyrir síðustu kosningar fékk sérstök verðlaun fyrir það afrek að pranga flokknum inn á kjósendur. Auglýsingahönnuðir þóttu hafa unnið sérstakt afrek og sýnt ótrúlega hugmyndaauðgi við að skapa flokknum ímynd sem gengi í kjósendur. Spyrja má hvort það hafi verið ímynd Framsóknar sem var kosin eða sjálfur flokkurinn af holdi og blóði Halldórs Ásgrímssonar og félaga. Það má til sanns vegar færa að nú sé hins vegar verið að dæma flokkinn af verkum hans. Er það ómerkilegri niðurstaða en sú sem fæst eftir allan fjárausturinn í auglýsingaprang?
Menn eiga vissulega ekki að láta stjórnast af skoðanakönnunum. Það er hins vegar ekki rétt að virða rödd þjóðarinnar að vettugi eins og ríkisstjórnarmeirihlutinn leyfir sér að gera. Ef til vill treystir Framsóknarflokkurinn sér að ganga þvert á vilja kjósenda í ljósi þess að hann telur kosningar langt undan og að ímyndarsérfræðingarnir eigi eftir að búa til nýja, söluvæna útgáfu af flokknum í tæka tíð fyrir næstu kosningar.

Agi vegi þyngra en sannfæring?

Tónarnir úr Stjórnarráðinu eru orðnir ískyggilega hrokafullir og óábyrgir. Forsætisráðherrann, Davíð Oddsson, hreytir ónotum í alla sem leyfa sér að gagnrýna hann og fæ ég ekki betur séð en Morgunblaðið taki undir bæði í leiðaraskrifum og Staksteinum sem að nýju hafa vaknað til lífsins sem pólitískur harðlínudálkur. Þar segir m.a. í dag: "Þingmenn þurfa líka að vera tilbúnir að styðja erfið mál. Stundum eru þeir í hjarta sínu ósammála en krafan um aga er sterk".  Agavald virðist vera mönnum ofarlega í huga á ritstjórn Morgunblaðsins þessa dagana og með refsivöndinn á lofti hirtir leiðarahöfundur Ríkisútvarpið fyrir að gera könnun Fréttablaðsins að umræðuefni! Eða hvernig á að skilja eftirfarandi:" Það er auðvitað sjálfsagt að gera reglulegar skoðanakannanir um afstöðu fólks til þjóðmála en það er ekki sjálfsagt að gefa þeim meira vægi en margfengin reynsla sýnir að þær hafa. Ríkisútvarpið hefur leitað til margra aðila til þess að fá umsögn þeirra um þessa tilteknu skoðanakönnun. Svör þeirra, sem leitað er til eru ljós fyrirfram. Stjórnmálamennirnir túlka þær eins og þeir telja sér hagstætt… Fjölmiðlar sem hafa meiri áhuga á áróðursstarfsemi en fréttaþjónustu nota þær í áróðursskyni. Löngu er orðið ljóst hvar þekktustu álitsgjafar landsins hver um sig standa í deilum líðandi stundar og þess vegna vita menn fyrirfram hvað þeir segja, hvort sem um stjórnmálafræðinga eða lögfræðinga er að ræða".

Eru allir sem hafa skoðanir ómarktækir?

Skyldi þurfa að bæta einhverjum starfsstéttum við þennan lista um ómarktæka álitsgjafa? Hvað með leiðarahöfunda dagblaða, eru þeir marktækir? Eru menn ekki komnir út á hálar brautir þegar fjallað er um þjóðmálaumræðuna á þennan hátt? Ég fæ ekki betur séð en að kallað sé eftir því að þingmenn verði agaðir til að hlíta vilja "foringja" sinna í stað þess að fara að sannfæringu sinni; að fjölmiðlar fjalli ekki um gengi stjórnmálaflokka fyrr en auglýsingastofur hafa farið um þá höndum  og að fólk með gagnrýnar skoðanir á stjórnvöld verði útilokað frá þjóðmálaumræðunni. Hvað er Morgunblaðið að fara?