Fara í efni

Stuðningsmönnum Framsóknar vottuð samúð

Á undanförnum dögum hafa margir orðið til að gera því skóna að upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks kynni að slitna vegna ágreinings um Fjölmiðlafrumvarpið. Þeir sem þannig hugsuðu gleymdu tveimur lykilatriðum: Í fyrsta lagi hve ákaft Halldór Ásgrímsson, formann Framsóknarflokksins langar til að setjast í stól forsætisráðherra og í öðru lagi hve undirgefnir og leiðitamir þingmenn Framsóknarflokksins eru þegar til kastanna kemur. Eftir að Davíð Oddsson, var búinn að fá Halldór til að knékrjúpa sér eina ferðina enn voru fjölmiðlar boðaðir á fund þeirra beggja til reka smiðshöggið á niðurlæginguna. Davíð lýsti því yfir, að aldrei hafði samstarf þeirra beggja verið betra en nú! Atburðir síðustu daga hefðu treyst þeirra góða samband!! Halldór játti þessu.

Mín skoðun er sú að Davíð Oddsson hafi vel getað hugsað sér að slíta stjórnarsamstarfinu við Framsókn nú í vor og ganga jafnvel til þingkosninga á þeirri forsendu að góði Sjálfstæðisflokkurinn hafi viljað standa við kosningaloforð sín um stórfelldar skattalækkanir en vonda Framsókn hafi ekki viljað efna þessi fyrirheit fyrr en síðar. Á grundvelli þessarar deilu hefðu menn haldið upp í kosningaslag. En hér var einn hængur á. Í Framsókn var aldrei nein fyrirstaða. Nú bendir margt til þess að skattafrumvarp Sjálfstæðisflokksins verði lagt fram þvert á vilja Framsóknar. Aftur sannast því kenningin, að Framsókn kokgleypir allt til að Halldór fái að setjast í stólinn góða. Sjálfstæðisflokkurinn getur með öðrum orðum ekki losnað úr stjórnarsamstarfi við Framsókn þótt hann feginn vildi. Hugsjónalausum stjórnmálaflokki er nefnilega hægt að bjóða hvað sem er. Við þessa atburði er ástæða til að votta kjósendum Framsóknarflokksins samúð. Ég hef grun um að mörgum þeirra sé nú ekki hlátur í huga.