Fara í efni

Munum hann Bismarck

Aðstandendur fjölmiðlafrumvarpsins hafa spurt andstæðinga þess hvers vegna þeir leggi mikla áherslu á vinnubrögð og aðferðir en beini ekki þess í stað kröftum sínum eingöngu að efnisþáttum málsins. Því er til að svara að efnisþættir og vinnubrögð verða ekki skilin að. Til þess að varpað verði ljósi á efnisþættina er þörf á vandaðri umræðu. Vinnubrögð skipta máli. Ég hef áður sagt að lýðræði snúist ekki um það eitt að kjósa fólk á þing sem síðan smíði lögin. Lýðræði er einnig umræðan sem fram fer um sjálfa smíðina.

Otto von Bismarck var kallaður járnkanslarinn og var hann allsráðandi í Þýskalandi á síðustu áratugum 19. aldar. Rök má leiða að því að hann hafi komið andstæðingum sínum á kné með því að ganga að kröfum þeirra en á sínum eigin forsendum. Hann varð við kröfum menntamanna og atvinnurekenda um sameiningu þýsku ríkjanna og síðan um uppbyggingu iðnaðar og tollastefnu í þágu fyrirtækjanna. Þegar verkalýðsstéttin gerði sig síðan líklega til að sýna vígtennurnar var hafist handa á sviði almannatrygginga og varð þýska almannatryggingakerfið að mörgu leyti hið þróaðasta sinnar tegundar í víðri veröld á þessum tíma.

Þrátt fyrir þetta voru brotalamir í þýsku samfélagi jafnvel meiri en í sambærilegum löndum gömlu Evrópu. Þar vegur þyngst allt það sem lýtur að frelsi og lýðræði. Otto von Bismarck hafði nefnilega aðeins eitt að leiðarljósi. Völd sín og sinna. Þess vegna kom Þýskaland aldrei til með að búa yfir raunverulegum innri styrk og varð það ríkinu endanlega að falli. Það skiptir máli hvernig við meðhöndlum lýðræðið.