Fara í efni

Kannast menn við Berlusconi ástandið?

Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins,  hélt í kvöld andheita ræðu um fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Hjálmar studdi frumvarpið ákaft í máli sínu. Nauðsynlegt væri að setja löggjöf til að koma í veg fyrir samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Um þetta virðast flestir vera sammála. Stjórnarandstaðan á þingi vill hins vegar setja lög að vel yfirveguðu máli. Svo lítið sjálfstraust hefur ríkisstjórnin hins vegar, að hún treystir sér ekki til annars en þröngva málinu fram með offorsi. Athyglivert þótti mér þegar Hjálmar Árnason minnti stjórnarandstöðuna á ástand mála á Ítalíu. Þar væri maður sem hefði heljartak á atvinnulífinu, þar á meðal fjölmiðlum landsins. Munið þið eftir Berlusconi veldinu, spurði Hjálmar og hvessti sig mjög. Samlíkingin átti væntanlega að vera við eigendur Baugs hér á Íslandi. En samlíkingin hlýtur að ganga lengra því Berlusconi er ekki aðeins auðjöfur heldur einnig forsætisráðherra Ítalíu. Á þinginu hefur hann beitt sér fyrir lagasetningu sem tryggir honum margvísleg sérréttindi í ítölsku samfélagi, þar með töldum ítölskum fjölmiðlum þar sem hann kemur reglulega fram í svokölluðum drottningarviðtölum. Nú er spurningin á hvorum vettvangnum Berlusconi beitir vafasamari aðferðum, í efnahagslífinu eða í pólitíkinni. Væri ef til vill ráð að íslenskir stjórnmálamenn, ekki síst ráðherrar, þar með talinn forsætisráðherrann - íslenskur kollegi Berlusconis - líti örlítið í eigin barm og spyrji sjálfa sig hvort þeir kannist við það sem Hjálmar Árnason kallar Berlusconi ástandið?