Fara í efni

Er Fréttablaðið ósátt við tyggigúmmíkenninguna?

Í dag birtist grein eftir mig í Fréttablaðinu. Að mér forspurðum var greinin stytt, bæði fyrirsögn og sjálfur textinn. Greinin var vel innan þeirra lengdarmarka sem yfirleitt er á greinum af þessu tagi. Það vakti athygli mína að sá hluti textans sem var fjarlægður lýtur að Framsóknarflokknum og vilja hans til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Hef ég sett fram þá kenningu að Sjálfstæðisflokkurinn gæti ekki losnað úr samstarfinu við Framsókn jafnvel þótt vilji stæði til þess. Þessi kenning hefur verið kennd við tyggigúmmií. Hún kann að vera röng að mati Fréttablaðsins. En jafnvel þótt svo sé er óþarfi að fjarlægja hana úr skrifum mínum. Til upplýsingar birtist greinin hér óstytt eins og hún var send Fréttablaðinu til birtingar:

Hrikalegur áfellisdómur yfir stjórnarmeirihlutanum

Elsa B. Friðfinnsdóttir skrifar mjög harða ádeilu á oddvita ríkisstjórnarflokkanna í sunnudagsútgáfu Fréttablaðsins og er ekki síður harðorð í garð Halldórs Ásgrímssonar formanns Framsóknarflokksins en Davíðs Oddssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, en Elsa er sem kunngt er fyrrverandi aðstoðarmaður Jóns Krsitjánssonar Framsóknarráðherra. Gagnrýni Elsu er reyndar fyrst og fremst gagnrýni á Halldór Ásgrímsson fyrir að sýna Davíð Oddssyni undirgefni. Hún segir m.a.: "Formaður Sjálfstæðisflokksins ákveður hlutina og formaður Framsóknarflokksins tekur síðan undir, því ekki má styggja þann fyrrnefnda, það er stór stóll í veði." Hér er að sjálfsögðu vísað til þess að Halldóri er ætlað að setjast í stól forsætisráðherra 15. september í haust.
Elsa segir aumkunarvert að horfa upp á ungliða Sjálfstæðisflokksins koðna niður undan skipunarvaldi flokksforingjans: "Það örlar ekki á sjálfstæðri skoðun, á gagnrýnni hugsun, á virðingu fyrir þeim sem kusu viðkomandi vegna orðræðu í kosningabaráttunni. ... Í Framsóknarflokknum er staðan sú að formaðurinn heldur öllum ráðherrunum í heljargreipum vegna stólaskiptanna í haust. ... Hver og einn ráðherra á því stól sinn undir því að styggja ekki formanninn ... Auk þess ganga einhverjir hinna óbreyttu með ráðherrann í maganum og þeir gera sér jafnvel vonir um að hausthrókeringarnar færi þeim stól. Ekki geta þeir tekið áhættuna að styggja formanninn!"

Tyggigúmmíkenningin

Ég hef reyndar þá trú að Sjálfstæðisflokkurinn sé orðinn þreyttur á samstarfinu við Framsókn og gæti alveg hugsað sér að slíta því, hvort sem það væri á grundvelli fjölmiðlafrumvarps eða annars. Þetta veit Halldór og þess vegna er staðhæfing Elsu rétt. Halldór Ásgrímsson er reiðubúinn að borða hvað sem er úr lófa Davíðs Oddssonar af ótta við að ella kynni hann að missa af því að verða forsætisráðherra. Vilji Davið Oddsson slíta stjórnarsamstarfinu má hann því vita að það mun aldrei ganga upp svo lengi sem Halldór getur farið sínu fram innan Framsóknarflokksins.
Kemur þar til sögunnar svokölluð tyggjókenning. Hún er á þá lund að Framsóknarflokknum megi líkja við vel tuggða tyggigúmmíplötu sem spýtt er niður í gangstétt; gengst þaðan upp í skósóla og festir sig þar eftir því sem meira á henni er gengið. Tyggigúmmíið er sem sagt Framsókn og því er líkt varið með þann flokk í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og tyggjóplötuna á skósólanum að ekki er auðvelt að losa sig við fyrirbærið.
Mér fannst hressandi og að sumu leyti frelsandi að lesa grein Elsu B. Friðfinnsdóttur. Hún afsannaði nefnilega að allt stjórnarliðið væri viljalaust verkfæri í höndum formanna ríkisstjórnarflokkanna.

Glúmur segir

Glúmur Baldvinsson, sem skrifaði grein í DV fyrir fáeinum dögum, hefur nokkuð til síns máls þegar hann hafnar því að Ísland sé orðið að einhverju einræðisríki þótt við búum við yfirgangssama stjórnarherra. Glúmur tekur þann pól í hæðina að beina spjótum sínum að já-mönnum og viðhlæjendum meintra einræðisherra. Ef við búum við einræðisstjórnarfar, þá sé þeim um að kenna.
Í grein Glúms Baldvinssonar segir m.a.: "Í hvert sinn sem geðvonska Davíðs er lögbundin á Íslandi tala sumir um að hér ríki einræði eða jafnvel ógnarstjórn. Það er fjarri sanni. Á Íslandi ríkir lýðræði þar sem einn stjórnmálamaður drottnar yfir öðrum kjarklitlum og sannfæringarsnauðum stjórnmálamönnum með hugann fullan af hetjudraumum en hjartað lamað af ótta."

Ekki verður annað sagt en þetta sé hrikalegur áfellisdómur yfir stjórnarmeirihlutanum á Alþingi. Sjálfum finnst mér þetta vera mjög umhugsunarverð kenning hjá Glúmi Baldvinssyni. Prýðilegt og óvenju beinskeytt innlegg Elsu B. Friðfinnsdóttur væri þá undantekningin sem sannar þessa reglu.