Fara í efni

Um greiðslur til formanna stjórnarandstöðuflokkanna

Birtist í Morgunblaðinu 19.12.2003
Talsvert hefur verið fjallað um nýsamþykkt lög um lífeyrisréttindi alþingismanna, ráðherra, hæstaréttardómara og forseta Íslands. Enda þótt í lögunum sé sitthvað sem horfir til bóta hafa þau verið gagnrýnd harðlega fyrir að búa ofangreindum hópum réttindi umfram það sem aðrir þjóðfélagsþegnar njóta. Sérstaklega hafa menn staðnæmst við réttindi ráðherra sem nú hafa verulegan umframrétt til að láta af störfum fyrr en gerist hjá þingmönnum almennt, að ekki sé minnst á það sem tíðkast hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Þá hefur mörgum þótt sú afstaða sem lögin hvíla á ekki vera til eftirbreytni. Þvert á móti eigi hvers kyns sérréttindahugsun að heyra fortíðinni til. Á þeirri forsendu hef ég barist gegn þessari lagasmíð.
Enda þótt andmæli í þjóðfélaginu hafi fyrst og fremst beinst gegn lífeyrisþætti frumvarpsins hafa margir fjölmiðlar staðnæmst við allt aðra hluti og þá sérstaklega launakjör formanna stjórnarandstöðuflokkanna.
Nú vill svo til að mér er kunnugt um það frá fyrstu hendi að hér var um að ræða launahækkanir af stærðargráðu sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna höfðu efasemdir um þótt þeir væru sammála helstu efnisþáttum frumvarpsins og samþykktu þess vegna að það yrði lagt fram til þinglegrar meðferðar.
Í fjölmiðlum hefur að mínu mati verið vegið ómaklega að þessum mönnum því ekki hefur verið hirt um að skoða málið í réttu samhengi. Hvert er það samhengi? Á Alþingi fá menn greitt fast þingfararkaup. Ofan á þetta kaup er síðan 15% álag fyrir þá sem gegna formennsku í nefndum, eru í forsætisnefnd eða gegna stöðu þingflokksformanna. Það á til dæmis við um undiritaðan. Þetta eru þó smámunir í samanburði við greiðslur til ráðherra sem fá 80% ofan á þingfararkaupið og eru þannig með næstum helmingi hærri laun en þingmenn almennt.
Er þetta eðlileg skipan? Svar mitt er afdráttarlaust neitandi. Þingmenn sem rækja starf sitt af alúð, og það gera langflestir, fylla upp í allan þann tíma sem eðlilegt er að ætlast til af þeim og er vinnuframlag þeirra ekki minna en gerist hjá ráðherrum. Rök fyrir því að nefndarformenn, þingflokksformenn, hvað þá ráðherrar, séu á miklum umframgreiðslum eru ekki sjáanleg frá mínum sjónarhóli.
Þetta er hins vegar launakerfið í þinginu og í því samhengi ber að skoða hugmyndirnar um greiðslur til flokksformanna stjórnarandstöðunnar. Með öðrum orðum, að þeir fái eitthvert hlutfall af þeim greiðslum sem ráðherrar fá. Ef við lítum á málið frá þessu sjónarhorni þá eru óneitanlega fyrir því ákveðin rök að þeir sem eru í forsvari fyrir flokkana í stjórnarandstöðu og axla ýmsar skyldur sem því tengjast, gangi inn í launakerfið á jafnréttisgrunni á við stjórnarliða sem raða sér á ráðherrabekkinn. Það er athyglisvert að í þeirri umræðu sem stofnað var til í fjölmiðlum, skyldi ekki beint kastljósum að 80% kaupálagi sem ráðherrar fá. Hins vegar voru formenn stjórnarandstöðuflokkanna dregnir upp á forsíður blaða og á sjónvarpsskjái vegna þess að þeim var ætlað 50% álag. Fyrir vikið urðu þeir að blóraböggli í þessu vandræðamáli. Ekki er ég viss um að öllum hafi þótt það með öllu illt.
Ef menn telja að allir þingmenn eigi að vera á sama kaupi, óháð því hvort þeir sitja á ráðherrastól eða eru formenn í nefnd eða þingflokki þá tek ég ofan fyrir því sjónarmiði. Ef menn hins vegar telja að ráðherrar eigi að vera á umframkaupi þá verða menn að svara því heiðarlega hvort það stríði gegn réttlætiskennd þeirra að formenn stjórnarandstöðuflokka fái eitthvert hlutfall af því sem fellur til ráðherra. Fyrir mitt leyti segi ég, að fallist menn á annað borð á þennan launastrúktur, þá hljóta menn að viðurkenna að fyrir því séu rök að hafa þennan hátt á.
Sitt sýnist hverjum í þessu efni og hafa komið fram ýmsar ábendingar í umræðu síðustu daga um þetta mál sem eru íhuganarverðar. Þannig hefur verið bent á að æskilegra væri að þessar greiðslur kæmu í gegnum framlög til flokkanna. Þá hefur verið minnt á að ekki sé það einhlítt að stjórnmálaflokkar kjósi formenn og hefur í því sambandi verið vísað til Kvennalistans.
Allt þetta sýnir hins vegar svart á hvítu að í þessu efni sem öðrum hefði þurft að ræða málin betur. Það lagði þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs til að yrði gert með formlegri tillögu. Hún var felld. Það á einnig við um tillögu þess efnis að fallið yrði frá álagsgreiðslum til  formanna stjórnarandstöðuflokkanna og ákvörðun þar að lútandi vísað til Kjaradóms. Einnig þeirri tillögu var hafnað.