Fara í efni

Fjöreggið og framtíðin

Birtist í Mbl
Margir myndu án efa skrifa upp á eftirfarandi skilgreiningu á þeim þáttum sem mikilvægast er að við leggjum alúð við, einfaldlega vegna þess að lífshamingja okkar og framtíð byggist á þeim: Að við ræktum mannauðinn, stuðlum að efnahagslegu og félagslegu réttlæti sem er jafnframt forsenda jafnvægis og stöðugleika í þjóðfélaginu, stöndum vörð um nátttúru landsins og sjálfstæði þjóðarinnar. Allt þetta þarf að treysta og efla. Þetta er í reynd fjöregg þjóðarinnar og í sameiningu þurfum við að varðveita það og standa um það vörð.

Því miður höfum við á þessum áratug ekki búið við landsstjórn sem haldið hefur þessum gildum á loft. Þvert á móti höfum við orðið vitni að aukinni misskiptingu í landinu, virðingarleysi fyrir náttúrverðmætum og sofandahætti gagnvart sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar. Um alla þessa þætti mætti hafa mörg orð en látum sitja við það eitt að sinni að benda á að helmingur þeirra sem þarf að leita til hjálparstofnana um nauðþurftir, fæði og klæði, eru öryrkjar og aldraðir sem reiða sig á almannatryggingakerfið um kjör sín og er svo komið fyrir þeim vegna niðurskurðar á félagslegri þjónustu og skerðingar á kjörum þeirra allan þennan áratug. Jafnvel í góðæri allra síðustu ára hafa þeir ekki notið kjarabóta á við aðra hópa.

Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem birtast okkur nú nær daglega í fjölmiðlum og loforð ráðherra um yfirbót eru átakanleg á að hlýða. Upp úr sömu mönnum og stýrt hafa landinu undanfarin ár án þess að nokkuð hafi á þeim hrinið stendur nú loforðaflaumur og lofa þeir nú án afláts upp í báðar ermar. Þetta er hvorki vitnisburður um ábyrga afstöðu né trúverðugleika. Vonandi ber þjóðin gæfu til að láta ekki glepjast af auglýsingaskrumi af þessu tagi.

Að rækta garðinn sinn

Ef niðurstaða manna er að sú stjórnarstefna sem fylgt hefur verið á þessum áratug þurfi róttækrar endurskoðunar við er eðlilegt og nauðsynlegt að spurt sé hver sé vænlegust leið til að tryggja breytingar til bóta. Ég bið fólk um að íhuga eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er engum betur treystandi fyrir fjöreggi þjóðarinnar en þjóðinni sjálfri. Ef hún ekki gætir sín sjálf, ræktar garðinn sinn og hlúir að sjálfstæði sínu og sjálfsvirðingu þá er illt í efni. Þess vegna ber að efla lýðræði í landinu og koma í veg fyrir að okkur verði gert að afsala því með inngöngu í Evrópusambandið. Og þótt EES hafi vissulega fært okkur ýmsar félagslegar úrbætur í tilskipanaformi þá verðum við að hafa burði til að breyta af eigin hvötum. Sá sem gleðst yfir því að vera barinn til hlýðni endar sem þræll. Hvað snertir sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi Íslands hefur Vinstrihreyfingin-grænt framboð afdráttarlausa afstöðu.

Í öðru lagi er það staðreynd að ef stuðla á að jafnvægi í byggð landsins og koma á réttlátari skiptingu þjóðarauðsins þá verður að setja fram heildstæða og yfirvegaða stefnu. Þetta hefur Vinstrihreyfingin ­ grænt framboð gert varðandi efnahags- og atvinnumál, og má í því sambandi nefna áherslu á uppstokkun á fiskveiðistjórnkerfinu til að efla vistvænar smábátaveiðar og koma á byggðakvóta fyrir ákveðnar tegundir veiða. Við viljum efla fjölbreytni í verðmætasköpun og treysta almnannþjónustuna. Allt þetta samfara róttækum uppskurði á almannatryggingum og skattkerfi mun skjóta styrkari stoðum undir atvinnulíf og mannlíf í landinu.

Í þriðja lagi verður að safna liði til varnar náttúru Íslands. Almannasamtök hafa gengið fram fyrir skjöldu á undanförnum misserum á aðdáunarverðan hátt. Það hafa og margir bestu listamenn þjóðarinnar gert. Á Alþingi verður að vera til staðar öflug sveit sem af þekkingu og yfirvegun tekur á umhverfismálum en lætur ekki reka undan vindi í samskiptum við heimtufreka stóriðjurisa.

Vinstrihreyfingin ­ grænt framboð

Í komandi kosningum er mikilvægt að styðja þá sem byggja stefnu sína á ígrundaðri málefnavinnu og bjóða fram heildstæða stefnu sem færir þeim þjóðfélagshópum sem hafa verið hlunnfarnir raunverulegar kjarabætur. En framar öllu þarf að styðja þá til áhrifa í íslensku þjóðfélagi sem eru traustsins verðir, beita sér fyrir baráttumarkmiðum sínum og hugsjónum að loknum kosningum ekki síður en í aðdraganda þeirra: sem fylgja áherslum sínum eftir hvort sem þeir standa innan ríkisstjórnar eða eru í stjórnarandstöðu. Hve mikil áhrif Vinstrihreyfingin-grænt framboð getur haft á þróun mála mun ráðast af því brautargengi sem hún fær í komandi kosningum.