Fara í efni

Vinstri stefna

Birtist í Mbl
Eins og fram kom í fjölmiðlum á sínum tíma var stjórnmálafélagið Stefna, félag vinstrimanna, stofnað um miðjan maímánuð. Enda þótt félagið hafi lítið verið kynnt enn sem komið er hefur fjöldi fólks engu að síður þegar látið skrá sig í það og enn fleiri hafa óskað eftir upplýsingum. Þeir sem að félaginu standa eru staðráðnir í að rasa ekki um ráð fram, vinna alla undirbúningsvinnu vel, enda ekki í ráði að tjalda til einnar nætur.

En hvers vegna Stefna? Fæstir deila um það að tíðarandinn í þjóðfélaginu einkennist mjög af pólitískum doða. Markaðshyggja hefur náð að grafa um sig í stjórnmálalífi þjóðarinnar og á öll gagnrýnin hugsun erfitt uppdráttar nú um stundir. Á félagshyggjuvæng stjórnmálanna er stofnanahyggja ráðandi og telja margir allra meina bót ef tekst að ná meirihlutafylgi og er engu líkara en menn séu reiðubúnir að fórna hugsjónum sínum og baráttumarkmiðum til að ná völdum. Þessarar þróunar gætir nú víða um lönd.

Reyndar er það svo að félagshyggjuflokkar svonefndir á Vesturlöndum hafa færst mjög til hægri á liðnum árum og nægir þar að nefna Verkamannaflokkinn breska sem siglir hraðbyri upp að bandarískum demókrötum sem seint verða kenndir við jöfnuð og vinstrisinnaða félagshyggju. Einnig má nefna jafnaðarmannaflokka Norðurlanda sem fylgja mun hægrisinnaðri stefnu en þeir gerðu fyrir aðeins áratug eða svo. Þessarar viðhorfsbreytingar verður einnig rækilega vart hér á landi, eins og dæmin sanna varðandi afstöðu til markaðshyggju og fjármálavalds, samfélagsþjónustunnar, kjarasamninga og verkalýðshreyfingar.

Í Bretlandi er gengið svo langt að staðhæfa að hinn „nútímavæddi“ Verkamannaflokkur Tonys Blairs, sem hann sjálfur jafnan skírskotar til sem Nýja Verkamannaflokksins, hafi í raun tekið frjálshyggjuna upp á sína arma og framfylgi hægristefnu á ýmsum sviðum sem jafnvel eindregnustu frjálshyggjumenn hefðu ekki látið sig dreyma um. Á sama hátt setti margan félagshyggjumanninn hljóðan þegar R-listinn í Reykjavík fékk sérstök viðurkenningarorð frá Viðskiptablaðinu fyrir árangur í einkavæðingu og ekki ráku menn síður upp stór augu þegar félagslegt íbúðarhúsnæði í borginni var gert að hlutafélagi og húsaleigan keyrð upp úr öllu valdi. Þannig mætti áfram telja, að ekki sé minnst á afrek Alþýðuflokksins á sviði heilbrigðismála og í skatta- og efnahagsmálum á síðasta kjörtímabil ­ á sama tíma og hann tók upp heitið Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Framsóknarflokkurinn bætir nú gráu ofan á svart í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Stefna verður til

Við erum þeirrar skoðunar að allir þeir sem vilja kenna sig við félagshyggju eigi að starfa saman þrátt fyrir mismunandi áherslur, skoðanir á einstökum málaflokkum og pólitíska fortíð. Hins vegar teljum við forsendu fyrir því að slíkt samstarf skili árangri fyrir almennt launafólk og lýðræðið í landinu að til staðar sé kröftug stjórnmálaumræða sem beinist að því að veita aðhald frá vinstri. Þess vegna varð Stefna til.

Stefna er félag vinstrimanna sem grundvallast m.a. á þeim meginmarkmiðum að efla samfélagsvitund og treysta samfélagsþjónustuna, reka framsækna umhverfisstefnu og tryggja að auðlindir lands og sjávar verði sameign þjóðarinnar.

Í greinargerð með stofnskrá félagsins segir: „Á undanförnum árum hefur samfélagsþjónustan verið skert ár frá ári og leynt og ljóst grafið undan þeim meginmarkmiðum sem hingað til hafa verið hornsteinar samfélagsins. Áhersla hefur verið aukin á einkavæðingu og markaðsvæðingu, áhrif fjármagns og peningaafla. Þannig hefur fjármagn verið flutt frá fólki til fyrirtækja. Þannig hefur völdum verið safnað á fárra manna hendur og þaggað niður í þeim sem hafa leyft sér að gera athugasemdir eða efast um ágæti slíkra vinnubragða. Þannig hefur verið grafið undan samningsrétti stéttarfélaga og launagreiðslur gerðar að leyndarmáli. Þessar áherslur eru sagðar gera samfélagið nútímalegra og að það sé íhaldssamt og gamaldags að tala fyrir öðrum gildum.

Ef félagsleg umbótaöfl spyrna ekki við fótum og hefja gagnsókn hið bráðasta er sýnt að stjórnmálaþróun hér á landi mun sveigjast til hægri með tilheyrandi áhrifum peninga- og markaðsafla.“

Pólitískt átaksverkefni

Stefna er þannig hugsuð sem eins konar pólitískt átaksverkefni til að stuðla að samfélagslega ábyrgri stefnu, ekki síður þegar flokkar sem kenna sig við félagshyggju og afla sér fylgis í nafni hennar fara með völdin en hinir sem standa til hægri og hafa sér það eitt til ágætis að reyna ekki að villa á sér heimildir.

Innan félagsins er það ríkjandi viðhorf að stuðla að samstarfi á félagshyggjuvæng stjórnmálanna. Við teljum hins vegar ekki sama hvernig að því samstarfi er staðið. Tvennt viljum við að hér sé haft að leiðarljósi: Í fyrsta lagi að efla vinstriviðhorf og stuðla að kraftmikilli og gagnrýninni stjórnmálaumræðu og í öðru lagi, og með hliðsjón af hinu fyrra, viljum við leita skynsamlegra leiða og þeirra sem líklegastar eru til að færa félagshyggjumönnum meirihluta í stjórn landsmála. Við teljum lausbeislað bandalag vel til þessa fallið ­ þar sem einstökum flokkum og fylkingum gefst kostur á að treysta fylgi sitt og kjósendum að sama skapi að hafa áhrif á styrkleikahlutföll innan væntanlegrar ríkisstjórnar. Það eitt á að vera tryggt fyrir kosningar að viðkomandi flokkar ætli að starfa saman á grundvelli meginsjónarmiða sem hafi verið fastmælum bundin. Sé hins vegar allt niðurnjörvað fyrir kosningar er eitt deginum ljósara, baráttan verður máttlaus og sneydd pólitískri hugsjón.

Og hvort skyldi vera líklegra til árangurs, að einblína á samstarf Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista eins og nú er gert eða bjóða Framsókn, eða þeim flokkum öðrum sem vilja hafa það á stefnuskrá sinni að rækta félagslega þætti, til samstarfs? Eðlilegt væri að sá flokkur sem mest fylgi fengi í kosningum af þessum væng stjórnmálanna hefði verkstjórnina á hendi.

Við viljum með öðrum orðum tryggja framgang vinstristefnu og tryggja félagshyggjufólki meirihlutavald í landsstjórninni. Í samræmi við þetta segir í niðurlagi stofnplaggs Stefnu sem áður er vitnað til:

­ Í stjórnmálum þurfa mismunandi skoðanahópar að hafa svigrúm til að vinna málstað sínum fylgi.

­Þegar efnt er til samvinnu eiga málamiðlanir að vera skýrar og sýnilegar... og í framhaldinu segir: „Við viljum kraftmikla og lýðræðislega stjórnmálabaráttu sem grundvallast á virðingu fyrir mismunandi skoðunum.“

Höfundar eru félagar í stýrihópi sem nefnir sig Stefnu.
Drífa Snædal, Svanhildur Kaaber, Tryggvi Friðjónsson og Ögmundur Jónasson