Fara í efni

Um hvað er deilt?

Birtist í Mbl
Það er óhætt að segja að nú hrikti í á félagshyggjuvæng stjórnmálanna og stefnir allt í meiriháttar uppstokkun. Sú uppstokkun er erfið og fyrir marga er hún sársaukafull. En vonandi verða þessar hræringar til góðs þegar upp verður staðið. Þegar bendir margt til þess að svo verði. Hins vegar hef ég orðið var við að mörgum er hulið um hvað deilurnar snúast í reynd. Í stuttu máli deila menn um þær forsendur sem reisa skuli samstarf félagshyggjufólks á og eftir hve víðtæku samstarfi skuli leitað. Sitt sýnist hverjum um hvaða leiðir séu vænlegastar, annars vegar til að örva menn til dáða í pólitískri baráttu og hins vegar til að tryggja félagshyggjuflokkum aðgang að Stjórnarráðinu. Bæði þessi markmið ber að mínum dómi að hafa að leiðarljósi.

Tvö sjónarmið

Í einum hópi eru þeir sem telja að freista beri að mynda hér það sem menn kalla breiðan jafnaðarmannaflokk áþekkan því sem við þekkjum frá Skandinavíu, Bretlandi og víðar. Oft fylgir það sögunni að þótt slíkum flokki auðnaðist ekki að ná meirihlutafylgi í komandi alþingiskosningum þá þyrfti að hugsa lengra fram í tímann og mætti ætla að slíkur flokkur hefði lykilstöðu þegar fram líða stundir, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það hefur vakið athygli að sumir talsmenn þessarar hugsunar hafa ljáð máls á því að slíkur flokkur kynni jafnvel að mynda meirihlutastjórn með Sjálfstæðisflokki en ekki Framsóknarflokki ef slíkt stæði til boða. Þetta sjónarmið byggist á þröngu samstarfi þar sem ofuráhersla er á það lögð að mynda stjórnmálaflokk af tiltekinni gerð.

Hins vegar hefur verið uppi það sjónarmið að þess beri að freista að ná stjórnarmeirihluta félagshyggjuflokka að loknum næstu alþingiskosningum. Málsvarar þessa viðhorfs telja það vera raunsætt mat að framsóknarmenn þyrftu hér að koma til sögunnar auk stjórnarandstöðuflokkanna. Mjög ólíklegt má hins vegar heita að Framsókn tæki endanlega og opinbera afstöðu til þessa áður en kjörtímabilið er úti og yrði stjórnarandstaðan því að halda dyrum opnum fyrir þann flokk fram yfir þingkosningar. Þetta síðara sjónarmið - um víðtækt samstarf - hefur undirritaður aðhyllst og fært fyrir því rök m.a. á síðum þessa blaðs.

Leið til árangurs

Sú tillaga sem ég setti fram er á þá leið að stjórnarandstöðuflokkarnir bindi fastmælum að þeir hyggist starfa saman að loknum næstu kosningum og geri með sér sáttmála þar að lútandi varðandi helstu áhersluatriði. Endanlega yrði sáttmálinn hins vegar ekki njörvaður niður fyrr en sýnt væri hvert hugur Framsóknar stæði. Framsóknarflokknum yrði hins vegar gert ljóst að þeim flokki á þessum væng stjórnmálanna sem kæmi sterkastur út úr kosningum yrði að öllum líkindum falið að gera tilraun til stjórnarmyndunar, þ.e. að Sjálfstæðisflokknum frágengnum.

Að mínum dómi er þetta skynsamleg leið og sameinar tvennt: hún er líkleg til árangurs til stjórnarmyndunar og tryggir jafnframt kjósendum valkosti. Með þessu móti yrði stjórnmálabaráttunni gefið kröftugt líf. Þetta er að sjálfsögðu enn hægt að gera. Þeir flokkar sem koma til með að bjóða fram geta sammælst um áherslur og bundið samstarf að kosningum loknum fastmælum.

Varðandi þá uppstokkun sem nú er að eiga sér stað finnst mér óþarfi að gráta hana sérstaklega. Ég held að þegar grannt er skoðað hafi forysta Alþýðubandalags ekki átt annarra kosta völ en að fara þá leið sem hún lagði til einfaldlega vegna þess að innan stofnana flokksins var fyrir þessu eindreginn meirihlutavilji. Afleiðingarnar verða hins vegar fólksflutningar, enda hefur komið á daginn að ýmsir eru þegar farnir að leita á ný mið. Hér liggur straumurinn engan veginn á einn veg. Þannig hefur verið skýrt frá því að á sama tíma og einstaklingar og hópar ganga út úr Alþýðubandalaginu koma nýir félagar þar til sögunnar. Allt virðist vera að komast á flot og sennilega kominn tími til. En því fer fjarri að þessar hrærirngar muni einskorðast við Alþýðubandalagið heldur taka til annarra flokka einng.

Mun snerta alla flokka

Ég spái því að sú uppstokkun sem nú fer í hönd muni snerta alla stjórnmálaflokka og mér segir svo hugur að þessar hræringar muni ekki einskorðast við svokallaðan félagshyggjuvæng stjórnmálanna einan heldur einnig taka til Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hangir saman á því einu að skoðanaskiptum er haldið í lágmarki og málefnalegur ágreiningur kæfður niður. Slíkt kann að vera til þess fallið að búa til stóran flokk og slíkt kann að vera vel til þess fallið að þjóna þeim fjármagnshagsmunum sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um. En fyrir lýðræðið í landinu er flokkurinn fyrir bragðið gagnslaus og reyndar verra en það, því hann kæfir og deyfir alla lifandi umræðu.