ÞARF ÞETTA EKKI AÐ RÆÐAST Á VETTVANGI LAUNAFÓLKS?

Lífeyrissjóðir voru stofnaðir með stuðningi verkalýðshreyfingar
til að tryggja launafólki öruggt ævikvöld. Ríki og
sveitatrfélög fengu lengi vel fjármuni að láni frá lífeyrissjóðunum
til uppbyggingar á velferðarkerfinu, ekki síst húsnæðiskerfi - sem
svo aftur gagnaðist launaþjóðinni.
Vilja hagnast á velferðinni
Síðan gerist það að sú hugmyndafræði verður ráðandi undir síðustu
aldamót að ríkið eigi að halda að sér höndum hvað varðar
velferðarþjónustuna, hana eigi helst að einkavæða. Eftir sem áður
verða lífeyrissjóðirnir að koma peningunum sem streyma inn án
afláts í formi iðgjalda frá launafólkinu, fyrir í
fjárfestingum.
Ástæðan fyrir því að hægri sinnaðir stjónmálamenn vilja að hið
opinbera haldi að sér höndum er sú að þeir vilja greiða götu
fjármálafólks sem vill hagnast á velferðinni.
Hin mótsagnakennda tilvera
Um leið og þessu vindur fram eru stofnuð fyrirtæki til að
halda út á þessa braut. Mörg þeirra stæra sig af því að vera í
höndum kvenna, enda vilji konur fjárfesta í
velferðarmálum!
Reyndin er sú að með því móti eru þær að greiða götu
einkavæðingarinnar. Og lífeyrissjóðirnir - þeir taka að beina
fjármagninu í þessa átt.
Þegar upp er staðið er helstu hvata að einkvæðingu
velferðarkerfisins að finna í lífeyrissjóðunum og
fjárfestingarfyrirtækjum í eigu kvenfjárfesta.
Var einhver að tala um mótsagnakennda tilveru? Um þetta hef ég oft
fjallað hér á heimasíðunin (sjá t.d. http://ogmundur.is/annad/nr/3535/
)
Lífeyrissjóðirnir og Eva
Allt þetta kom upp í hugann þegar ég las frétt í Morgunblaðinu í
dag um að Kjölfesta, fyrirtæki í eigu 12 lífeyrissjóða o.fl.,
hefðu keypt 30% hlut í "velferðarfyrirtækinu EVU,"
sem að sögn forstjóranna, Ásdísar Höllu Bragadóttur og Ástu
Þórarinsdóttur hefði skilað hagnaði af starfsemi sinni. Í blaðinu
er síðan haft eftir Kolbrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Kjölfestu
(fyrirtækis lífeyrissjóðanna) "að mjög áhugavert sé
fyrir fjárfestingarfélagið að taka þátt í uppbyggingu á þjónustu
við aldraða, fatlaða, sjúka og aðra þá sem þurfa á
velferðarþjónustu að halda."
Slæm blanda í aldingarðinum
Þarf þetta ekki að ræðast innan verkalýðshreyfingarinnar?
Frjálshyggjufólk á ráðherrastólum, lífeyrissjóðir án félagslegrar
jarðtengingar og gróðaleitandi Evur eru ekki góður kokteill í
neinum aldingarði.
Margoft hefur komið fram að Íslendingar vilja heilbrigðisþjóðnustu
fjármagnaða úr sameiginlegum sjóðum. Sjá t.d.:
http://ogmundur.is/samfelagsmal/nr/3140/