Annað
14. Apríl 2018
HVAÐ VEIST ÞÚ UM ATKVÆÐAGREIÐSLU ÖRYGGISRÁÐSINS?

Fyrir nokkrum dögum fór fram atkvæðagreiðsla í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um meinta efnavopnaárás í Sýrlandi.
Heimurinn stóð á öndinni enda vita menn að þarna var tekist á um forsendur sem síðan er stuðst við til að réttlæta frekari árásir og blóðsúthellingar. Forystumenn bandalagsríkja Íslands tala nú um hefndaraðgerðir.
Atkvæði voru greidd og síðan komu fréttirnar. Á síðum dagblaða, í útvarpi og sjónvarpi stóð það upp úr að Rússar hafi beitt neitunarvaldi til að koma í veg fyrir rannsókn á meintri eiturefnaáras sýrlenska stjórnarhersins. Þetta er okkur þá ætlað að vita.
Hitt er okkur síður ætlað að vita að alls voru greidd atkvæði um þrjár tillögur, tillögu Bandaríkjanna þar sem Rússar beittu neitunarvaldi og síðan tvær tillögur Rússa sem Bandaríkjamenn greiddu atkvæði gegn.
Hver var munurinn á þessum tillögum? Við fyrstu sýn virðast þær svipaðar. En þegar betur er að gáð má sjá að tekist er á um ferli rannsóknanna sem fram skuli fara og þá einnig hverjir skuli rannsakaðir, stjórnarherinn einn eða aðrir aðiljar að stríðsátökunum.
Tekist hefur verið á um svipaðar ásakanir áður og er á meðal annars komin út bók í íslenskri þýðingu, Stríðið gegn Sýrlandi eftir ástralska fræðimanninn Tim Anderson þar sem fram kemur hörð gagnrýni á vinnuferli sem Sameinuðu þjóðirnar hafa stuðst við í rannsóknum á átökunum í Sýrlandi. Þar er því einnig haldið fram að hjálparsamtök sem fréttamenn iðulega vitna í séu í sumum tilvikum verkfæri stórvelda í áróðursstríði.
Ekkert af þessu þarf að koma á óvart. Á tíunda áratug síðustu aldar og fyrstu árum þessarar aldar hvíldu augu heimsins á Írak og viðskiptabanninu sem það land bjó við með skelfilegum afleiðingum. Gagnrýnir starfsmenn SÞ hafa síðar sagt frá þrýstingi sem þeir urðu fyrir við rannsóknarstörf sín.
Ósannindin, sem heimurinn sat uppi með á endanum, þekkjum við öll. Í því tilviki var ekki Sameinuðu þjónunum um að kenna heldur sömu aðilum og nú reyna að mata okkur á upplýsingum um Sýrland. Þeir fá nú sem fyrr dygga aðstoð fjölmiðlamanna margra. Einnig hér á landi. Einn slíkur sagði að vandinn við „furðufugla" á borð við Tim „þennan" Anderson og Vanessu Beeley, „bloggara", sem komið hefði til Íslands í boði undirritaðs, væri sá að til yrði „upplýsingaóreiða" sem svo aftur hefði það í för með sér að fólk hætti að trúa nokkru sem fjölmiðlar og virtar stofnanir reiddu fram.
Um aldamótin síðustu birtist viðtal í Le Nouvel Observateur við Zbigniew Brzezinski, öryggismálafulltrúa Carters Bandaríkjaforseta á tímum Afganistanstríðsins. Þar viðurkennir hann að stuðningur Bandaríkjastjórnar við uppreisnarmenn sem börðust gegn þáverandi valdhöfum í Afganistan hafi hafist áður en Sovétmenn réðust inn í landið, Kabúlstjórninni til stuðnings. Á þessum tíma staðhæfðu Bandaríkjamenn að hernaðarstuðningur af þeirra hálfu hafi hafist eftir íhlutun Sovétmanna. Í viðtalinu segir Brzezinski að hann hafi sama dag og sovéski herinn fór yfir landamærin sent Carter minnisskjal þar sem hann hrósaði sigri yfir því að Sovétríkin hefðu „gengið í gildruna" og fengju nú sitt „Vietnamstríð".
Brzezinski er síðan spurður hvort vestræn ríki séu ekki að fá í bakið veittan stuðning við harðlínu-íslamista á þessum tíma og einnig síðar. Brzezinski segist ekki sjá eftir neinu, tekist hafi að veikja áhrifamátt Sovétríkanna: „Og hvort skyldi vera mikilvægara, talibanar eða hrun Sovétríkjanna?"
Þarna má greina þráð sem enn er spunninn í dag. Hernaðarstórveldi metur stuðning við stríðandi fylkingar á grundvelli heildarhagsmuna á heimsvísu. Kabúlstjórnin reyndi á þessum tíma að innleiða menntun kvenna og frelsa þær undan ánauð. Talibanar vildu hið gagnstæða. „Við" studdum þá!
Lærdómur sögunnar er sá að sannleikurinn um hráskinnaleik hernaðarstórvelda kemur sjaldnast fram fyrr en löngu eftir á. Þá fyrst er hægt að sjá í gegnum upplýsingaóreiðuna. Hún er nefnilega staðreynd og það sem verra er, henni er viðhaldið af þeim sem síst skyldi, fólkinu sem á að upplýsa okkur og reyna að ráða í hvað gerist á bak við tjöldin, til dæmis það sem við vitum ekki en þyrftum að vita um atkvæðagreiðslur í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Frá lesendum
15. Apríl 2018
SITT SÝNIST HVERJUM
Ögmundur minn kæri. Ég hefi nú um langt skeið ekki tjáð mig varðandi mál líðandi stundar. Ég get þó ekki orða bundist hversu harkalega öfl innan VG fara gegn Katrínu okkar Jakobsdóttur. Mér finnst helv hart hversu sú er við tók af þér og ég veitti brautargengi á sínum tíma fer grimmilega fram gegn okkar frábæra formanni og kann ég henni litlar þakkir fyrir. Auðvitað stöndum við öll gegn beitingu vopnavalds og ég tala nú ekki um beitingu efnavopna, en mér finnst aðallega vera mesti hávaðinn eftir að Trump og co fóru fram og eyðilögðu efnavopnaverksmiðjurnar, þessi háværu mótmæli voru ekki mjög svo í frammi þegar Rússar og stjórnvöld í Sýrlandi voru að berja á þjóðinni. ...
Óskar K Guðmundsson fisksali
14. Apríl 2018
UTANRÍKIS-NEFND ALÞINGIS TAKI AF SKARIÐ
Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra og núverandi fréttaskýrandi RÚV, segir í fréttum að samkvæmt foringja NATÓ styðji Ísland árásirnar á Sýrland, það standi þar til annað verði sagt. Um þetta hlýtur utanríkismálanefnd Alþingis að greiða atkvæði þegar hún kemur saman eftir helgi - eða hvað?
Jóel A.
14. Apríl 2018
LÍÐUR STRAX BETUR EN SPYR SAMT HVORT ENGIN TAKMÖRK SÉU FYRIR RUGLINU
Mér líður strax betur eftir að hlusta á fréttir RÚV og Stöðvar 2 af árásunum á Sýrland.Trump skýrði fyrir okkur hvers vegna árásirnar voru nauðsynlegar og síðan komu Guðlaugur utanríkisráherra og Katrín forsætisráðherra og sögðust hafa skilning á árásinni, hún hefði verið "víðbúin", sagði forsætisráherra. Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra mætti svo í fréttir til að segja að engin stórhætta væri á ferðum, árásarþjóðirnar ætluðu ekki að fara að blanda sér í átökin í Sýrlandi, það hefði aldrei verið vilji til þess af þeirra hálfu!!! En herskipin halda áfram að safnast við Sýrlandsstrendur og Trump segir að Bandaríkjamenn séu tilbúnir að halda árásum áfram. Hann talar fyrir hönd ríkis sem tekið hefur þátt í stríðinu og ausið milljörðum til stðunings leppherjum sínum ... Eru engin takmörk fyrir ruglinu? ...
Jóhannes Gr. Jónsson
11. Apríl 2018
TIL UPPRIFJUNAR
Var fyrst núna að hlýða á viðtalið á Kjarnanum í kjölfar fundarins við V. Beeley. Verð að segja að ég dáist að þolinmæði þinni, æðruleysi og staðfestu gagnvart þessum blessuðum, að mér finnst ófaglegum frétta-gösprurum. Ég sá að Z.Brzezinski lést í maí síðastliðnum, vissi það ekki. Set þessa þýðingu á viðtali við hann á Le Nouvel Observateur 1998 þar sem hann viðurkennir að stuðningurinn við Mujahiddin hófst 1/2 ári fyrir innrás Sovétríkjanna inn í Afganistan. Við hæfi að ...
Ari Tryggvason
7. Apríl 2018
ÉG ER Í LIÐI GUÐS, ÞÚ SATANS
Árni V.
7. Apríl 2018
EINHVER ÚR NÆR-UMHVERFINU, GEOGRAFÍSKU EÐA ANDLEGU
Ari Tryggvason
6. Apríl 2018
BÆTA KJÖR SÍN UMFRAM ALMENNING
á botninum hinir frjósa
Og líklega er það líka satt
að bráðlega skuli kjósa.
...
Pétur Hraunfjörð
27. Mars 2018
GEGN PÓLITÍSKUM RÉTTTRÚNAÐI
Bjarki Ágústsson
13. Mars 2018
ISS BLÓMSTRAR, VALT GENGI VG, OG UM ÞINGMANNAKÆK
Já víst er lánið ósköp valt
í Vinstri/Grænum hlakkar
En undurfljótt mun anda kalt
og útúr þessu bakkar.
....
Pétur Hraunfjörð.
25. Febrúar 2018
ASSGOTI ...
almenningur grætur
Með pólitíska flokka potið
og langleguafætur!
Pétur Hraunfjörð