Fara í efni

TÖFRASPROTI ÞORSTEINS


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 24/25.09.22.
Laugardagurinn sautjándi september síðastliðinn var sólríkur dagur í Reykjavík og veður stillt. Ég man að ég hugsaði þegar ég gekk inn í hátíðarsal Háskóla Íslands að það hlyti að teljast til dirfsku að boða til málþings á slíkum degi nú þegar haustrigningarnar væru gengnar í garð. Varla vildu menn láta loka sig lengi inni á meðan sólin skein í heiði og ekki hreyfði vind.

En svo hófst Þorsteinsþing. Það var arfleifð Þorsteins frá Hamri sem var til umfjöllunar á heilsdagsráðstefnu þarna í hátíðarsalnum. Tíu fræðimenn og skáld og flestir hvort tveggja, lögðu sitt til málanna um arfleifð skáldsins. Og Silja Aðalsteinsdóttir, sem bæði er fræðimaður og skáld, las úr verkum Þorsteins. Þannig byrjaði reyndar dagskráin, allir keyrðir rakleiðis upp í efstu andans hæðir. Silja sýndi að þetta kynni hún flestum öðrum betur. Og þegar Anton Helgi Jónsson ljóðskáld rak endahnútinn á daginn um fimmleytið með sannkölluðu snilldarerindi, blöndu af sagnfræði, heimspeki og ljóðrænu, allt listilega samofið, þá hefði ég bara viljað meira, endurnærður eftir inngjöfina undangengna sjö klukkutíma. Og nú bíð ég eftir því að út komi bókin með öllum erindum dagsins og fleirum til. Það stendur til að gera og er það tilhlökkunarefni, svo mikið get ég sagt.

Já, út komi á bók. Það er nú það. Vilja menn lengur bækur? Er ekki sagt að bókin sé á útleið? Ég held ekki, en það kann að vera óskhyggja. Það hefur komið fyrir að mín skoðun sé ekki meirihlutaskoðun.

Guðrún Nordal, sem ásamt Ástráði Eysteinssyni stóð í stafni við undirbúning málþingsins, fjallaði í skemmtilegum fyrirlestri sínum um sambandið á milli forms og innihalds í skáldskap og tók sem dæmi einserindisljóðið sem birtist eitt á síðu vegna þess að þannig hafði skáldið hugsað það. Og einhvern veginn er það svo að sumt þarf að vera til á bók. 

Þegar ég hlustaði á erindin sem voru flutt á málþinginu um Þorstein frá Hamri, hvert öðru betra, leitaði það á huga minn hve mikið við ættum öllum þeim að þakka sem kynnu að lyfta andanum. Þegar við erum beygð yfir raunum heimsins og stundum yfir því hve tíðarandinn virðist leita niður á við þá gerist það stundum að við erum minnt á hvers andans menn eru megnugir.

Ein lítil saga um það. Eitt sinn las ég fyrir dótturson minn ungan ævintýri sem gerðist  fyrir löngu síðan  "lengst inni í Rússlandi" og fjallaði um malara og syni hans, töfrahestinn Glófaxa og ævintýri í konungshöllinni.

Báðir vorum við syfjaðir en athygli okkar þó vel vakandi og því meir sem leið á söguna. Hún var ekki í löngu máli en ágætlega myndskreytt, sem eflaust átti sinn þátt í að halda athygli okkar, svo og náttúrlega söguþráðurinn.

En fyrst og fremst var það þó frásagnarmátinn, orð og stílbrögð, allt eins einfalt og látlaust og hugsast gat en samt svo vel sagt og svo mikið lifandi að hugurinn varð fanginn.

Þegar afi hafði lesið bókina í þriðja sinn í einni lotu að áeggjan síns unga vinar, var flett upp til að sjá hver hefði þýtt. Þýðandinn var Þorsteinn frá Hamri.

Það hlaut eiginlega að vera. Svona geta bara þeir sem búa yfir töfrasprota og kunna að vekja okkur hin til lífsins.  

Eftir þetta vissi ég af kynjahestinum Glófaxa uppi í hillu að grípa til ef þyrfti að keppa við spjaldtölvu um athygli ungviðis. Þetta umrædda kvöld var samkeppnin einmitt hörð við tölvuna, en Þorsteinn frá Hamri hafði vinninginn.

Og það hafði hann líka þennan laugardag í hátíðarsal Háskólans. Þar skein innandyra sól í heiði ekki síður vermandi en sú sem tók á móti okkur þegar út var komið.