Fara í efni

ÉG HEF EINFALDAN SMEKK, ÉG VEL AÐEINS ÞAÐ BESTA


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 27/28.08.22
Ég held það hafi verið árið 2015, um það leyti sem Íslendingar voru að losa sig við hrægammana sem fjárfest höfðu í föllnu bönkunum og ýmsu öðru bitastæðu í bankahruninu og í kjölfar þess, að frétt birtist í blöðum sem ég í það minnsta staldraði við.

Fréttin fjallaði um það hve ákaft borgarstjórn Reykjavíkur fagnaði þeim “tímamótum” - þannig var það orðað - að erlendur aðili ætlaði að reisa hótel í hjarta Reykjavíkur. Þetta þótti mikill heiður fyrir höfuðborgina og bera þess vott að orðspor Íslands væri orðið gott að nýju í kauphöllum heimsins. Einnig á þessa leið var þetta orðað við hátíðahöldin þegar hótelkeðjunni Marriott var tekið opnum örmum í sjálfri Hörpu Reykjavíkur. Forsvarsmenn þessarar hótelkeðju áttu reyndar eftir að sýna að þeir létu sig fleira varða en uppábúin rúm þegar þeir kröfðust þess að borgin félli frá því að reisa skorður við verslun við Ísrael á meðan Palestínumenn sættu ofsóknum af hálfu þess ríkis. En látum það mál liggja á milli hluta, sem ætti náttúrlega ekki að gera því þetta er ágæt dæmisaga um fjárfestingar, lýðræði, mannréttindi og völd – og kannski líka undirlægjuhátt.

En það sem ég tel ástæðu til að ræða nú snýr ekki að neinni einni fjárfestingu erlendra peningamanna heldur fjárfestingum peningamanna almennt og hvað það er sem verið er að fagna eða harma þegar orðspor okkar er sagt vera í húfi. Þessi umræða blómstrar þessa dagana eftir að það spurðist út að franskur auðrisi kunni að heykjast á því að kaupa innviðafyrirtæki í fjarskiptum vegna þvermóðsku íslenska Samkeppniseftirlitsins.

Og nú er aftur talað um orðspor Íslands eins og gert var í aðdraganda bankahrunsins. Þá var gagnrýni og málaferli á hendur fjármálamönnum sögð skaða orðstír Íslands. Þetta kom ítrekað fram í viðtölum bæði í innlendum og erlendum fjölmiðlum. Þannig lýstu til dæmis forstjórar Baugur Group, Fl Group og fleiri Grúppa þungum áhyggjum af orðspori Íslands í viðtölum í Financial Times undir lok ársins 2005. Menn yrðu að gera sér grein fyrir því, sögðu þeir, að mikið væri í húfi að Ísland þætti trúverðugt. Varla þarf að útskýra hvað þar var átt við, nefnilega að hægt væri að ganga út frá því að Ísland væri fjárfestum vinsamlegt og með opinn faðminn.

Og þá er komið að spurningum mínum sem eru tvær.

Sú fyrri er hvort yfirleitt vanti fjárfestingarfjármagn á Íslandi? Er ekki allt fljótandi hér í peningum? Það flýtur að vísu um að hætti áranna í aðdraganda hrunsins, svipað og þá, síst betra, misskipt og misnotað. En fyrir hendi er það. Hvar nákvæmlega vantar peninga? Til að stofna fleiri flugfélög, reisa fleiri hótel eða sem mig grunar, kaupa upp innviði Íslands, taka þátt í einkavæðingu þeirra, og það sem er ekki síður til umhugsunar, kaupa upp hin smærri fyrirtæki og flýta þannig þróun í átt til fáræðis á markaði. Ef okkur væri umhugað um smærri fyrirtækin þá horfðum við til þeirra rekstrarskilyrða sem þeim væru búin fremur en að greiða götu risaeðlanna. 

Þá er það seinni spurningin sem er nátengd. Ef fer sem horfir að innviðirnir verði settir á markað, allt er það að gerast jafnt og þétt, á okkur þá að þykja gott og eftirsóknarvert að bjóða erlendum fjárfestum að eignast grunnnet fjarskipta, samgöngukerfið, heilbrigðiskerfið, vatnsveitur, sorphirðuna, rafveitur, Landsvirkjun? Og nú stendur til að selja íslensk fjöll til útlanda. Og við sem héldum að þetta væri bara málsháttur, að trúin flytti fjöll. En þetta er þá trúin og um hana er bærileg sátt á Alþingi. Aðeins einn þingmaður greiddi atkvæði gegn endurskoðaðri samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins að heimila fjárfestum að næla sér í arð upp úr vösum okkar sem ferðumst um vegakerfi landsins.

Að þessu sögðu er eins gott fyrir almenning að byrja að reisa sig og spyrja hvort við virkilega viljum færa fjárfestum eignarhald á öllu því sem við höfum sameiginlega byggt upp og vitað er að verður alltaf að vera til staðar að þjónusta samfélagið. Varla er það eftirsóknarvert markmið að búa svo um hnúta að handhafar fjármagns geti gert sér slíka þjónustu að féþúfu að ógleymdum völdunum sem slíku fylgir eins og við vorum minnt á eftir að Marriott-keðjunni hafði verið svo innilega fagnað í Reykjavík.

Almenningur, við öll, þurfum að segja hátt og skýrt að við viljum halda völdunum sem næst okkur, innanlands og á okkar eigin hendi, það sé heillavænlegast og það sé það besta.
Er þetta ekki eins einfalt og verða má?
Og má ekki taka undir með því sem sagt var í frægri sjónvarpsauglýsingu: “Ég hef einfaldan smekk, ég vel aðeins það besta”?