Fara í efni

Í FIMMTA LAGI

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar skrifar hnitmiðaða grein í Fréttablaðið sl. miðvikudag um verkefnin framundan og hvernig beri að forgangsraða. Hann telur upp fimm þætti. Það beri að horfa til þriggja hinna fyrstu næstu árin „ þó að vissulega séu hinir möguleikarnir áhugaverðir í framtíðinni.“
Fyrstu þrír þættirnir snúa að almennri raforkunotkun, síðan m.a. raforku til gagnavera og matvælaframleiðslu og í þriðja lagi að stuðla að „framþróun núverandi stórnotenda“. Í fjórða lagi, og erum við þá komin að hinni áhugaverðu framtíð, sem þó verði að bíða um sinn, það er að sinna nýjum stórnotendum og svo í fimmta lagi sjálf rúsínan í pylsuendanum, „útflutningur á orku með rafeldsneyti eða sæstreng.“

Áður en að sæstreng kemur, segir forstjóri Landsvirkjunar, þarf „meiri umræðu innanlands áður en lengra er haldið“ og slíkt krefst „sterkrar pólitískrar leiðsagnar, líkt og verið hefur í Noregi.“
Ég efast ekki um að ég er ekki einn um að frábiðja hina norsku „pólitísku leiðsögn“. Hún hefur gengið út á að tengja norskan raforkumarkað hinum evrópska og þar með verðlagningu, en eins og okkur ætti að vera orðið kunnugt um, þá er það svo samkvæmt ritningu ESB að ekki má mismuna á markaði sem þýðir að sjálfsögðu stórhækkað verð fyrir þá notendur sem hafa verið á ódýrum svæðum eins og Noregur var og Ísland er.

orkusala2.PNG

Það er virðingarvert að tala beint út eins og forstjóri Landsvirkjunar gerir. Þó skal ég játa að sá grunur læðist að mér að enn á ný eigi í skrefum að venja okkur við nýja hugsun. Það þurfi að gerast í skrefum því ekki er hún vinsæl og í Noregi höfum við afleiðingarnar fyrir augunum og þær ekki eftirsóknarverðar.
En með þessu vekur forstjóri Landsvirkjunar upp gamlan draug sem oft hefur verið á ferli og var svo sannarlega fyrir nokkrum árum áður en orkupakki þrjú kom til umræðu og samþykktar. Þá þurfti að kveða drauginn niður tímabundið og kannaðist lengi vel enginn við að sæstrengur fyrir rafmagn hefði yfirleitt verið nefndur hvað þá ræddur af alvöru. Og við sem minntum á þennan möguleika í umræðunni um orkupakka þrjú og vísuðum auk þess í umræðu sem sannanlega hafði farið fram, vorum sögð fara með rangt mál, blöndu af vanþekkingu, fordómum og jafnvel samsæriskenningum.

Samt var það nú svo að í röðum gagnrýnenda var þau að finna sem mest köfuðu í þessi mál, lásu öll gögn og lögðu út af þeim að lokinni ítarlegri skoðun.

Gestapenni hér á síðunni, Kári, skrifaði til að mynda fjölda greina sem byggðu á ítarlegri athugun hans á regluverki orkupakkanna og síðan lagaumgjörðinni í Evrópurétti.
Og í nýrri grein eftir hann hér á síðunni vísar hann einmitt í þessa umræðu:

„Hinu skal þó vel til haga haldið að viðvaranir til stjórnmálamanna komu úr ýmsum áttum þegar orkupakki þrjú var til umræðu. Þar höfðu uppi varnaðarorð m.a. prýðilega færir verkfræðingar, s.s. Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur, sem og lögmenn sem létu sig málið varða. Það er því ljóst að upplýsingar skorti ekki. Flest bendir til þess að þingmenn sem studdu innleiðinguna hafi einfaldlega ekki hlustað. Það er líkleg skýring, þegar allt kemur til alls. Afleiðingin er sú að þjóðin er bundin á klafa evrópsks regluverks, í fullkominni andstöðu við íslenska hagsmuni (þ.e. almannahagsmuni og hagsmuni íslenskra fyrirtækja) þar sem bröskurum er gefinn laus taumurinn. Ef hægt er að klína „grænni slikju“ á málaflokka helgast meðalið. Þá virðist margt leyfilegt sem annars kæmi aldrei til greina.”

Og Kári heldur áfram:

“Í Morgunblaðinu þann 1. júní er fyrirsögn: „EFTA ógildir ákvörðun ESA í máli Sýnar“.[vi] Málið snýst um ógildingu EFTA-dómstólsins á ákvörðun eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og sæstreng (gagnastreng) Farice ehf.[vii] og lögmæti ríkisaðstoðar samkvæmt EES-samningnum (Evrópurétti). Málið er illur fyrirboði um það sem koma skal og snertir raforkukerfið. Þarna sjá menn svart á hvítu hvernig Evrópurétturinn virkar gagnvart innlendum rétti og innlendum ákvörðunum.”

http://ogmundur.is/frjalsir-pennar/2022/06/kari-skrifar-fimmti-orkupakki-esb-kominn-a-faeribandid