Fara í efni

AÐ SKOÐA HEIMINN ÚR HINNI ÁTTINNI


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 4/5.06.22.
Það má vel vera að ég hafi sagt þessa sögu áður. En þótt svo væri þá er hún svo góð að seint verður hún of oft sögð. Sagan er reyndar ekki mín heldur hugmyndaríkra þáttagerðarmanna í bresku sjónvarpi fyrir nokkrum áratugum.

Markmið þáttagerðarmannanna var að sýna Bretum hverjir þeir væru, láta þá horfast í augu við sjálfa sig. Og út frá því var gengið að Bretar þættust vita það um sjálfa sig að þeir hefðu farið um allar álfur, kannað þær í þaula, komið heim sigursælir með herfang og vitneskju um frumstæðar þjóðir á fjarlægum slóðum. Í eigin fari sæju Bretar fátt athugavert hvað þá frumstætt enda væru þeir hvorki meira né minna en sjálf skilgreiningin á hinum siðmenntaða yfirvegaða nútímamanni.

Þá datt hinum hugmyndaríku sjónvarpsmönnum það í hug að skipta um hlutverk. Útbúinn var fljótabátur á Thames ánni með afríska landkönnuði um borð. Þeim var ætlað að eiga viðdvöl í byggðum nærri árbakkanum, hitta innfædda og þá helst foringja þeirra og talsmenn. Ferð afrísku landkönnuðanna hafði verið vel undirbúin og hvarvetna sem þeir komu var tekið með viðhöfn á móti þessum aðkomumönnum sem vildu fræðast um siði og lifnaðrhætti við ána Thames í Englandi.

Þeir skráðu hjá sér það sem fyrir augu bar og þeim þótti athyglisvert; virðingartákn höfðingjanna sem kallaðir voru bæjarstjórar, miklar málmfestar sem þeir báru og náðu vel niður á bringu, karlmennirnir hefðu allir  bundið um hálsinn taustrimil með hnút við barkakýlið og væri vandséð hvaða tilgangi þessi bindi ættu að þjóna. Konurnar hefðu verið berleggjaðar en kjóll hulið líkamann að mestu. Allar hefðu þær verið á skóm sem virtust mjög þrengja að fótunum, sérstaklega tánum því skótáin var  sem spjótsoddur. Merkilegast væri þó pinni sem festur var undir skóinn aftanverðan til að lifta hælnum frá jörðu.  Í eyrnasneplum kvennanna  hékk glingur og sumar voru með hatt á höfði og hékk net úr honum sem slútti yfir andlitið. Allar voru þær málaðar í framan, varirnar með rauðum lit og augabrúnir dekktar, sumar með langar málaðar neglur sem líktust klóm. Allt hafi þetta komið undarlega fyrir sjónir því engan veginn varð séð að þessi klæðnaður væri þægilegur.

Þegar þátturinn var sýndur brá mörgum í brún við að sjá siðvenjur við ána Thames settar í samhengi mannfræðilegrar athugunar á háttum innfæddra.

Höldum okkur nú við þessa aðferðafræði og spyrjum hvort endurskoða mætti það sem við teldum okkur vita um veitendur og þiggjendur á heimsvísu.

Við erum vön því að heyra talað um góðverk ríka heimsins gagnvart fátækari hlutum hans; hjálparsendingar á mat og fatnaði, safnanir á þágu hungraðra og framlengingu lána þegar útséð er  um að ekki verði hægt að borga á gjalddaga.

Snúum nú dæminu við og spyrjum frá sjónarhóli þeirra snauðu, hvað komi frá fátækum þjóðum til þeirra ríku í auðlindum sem teknar eru eignarnámi, hagnaði af þrældómsvinnuafli, vöxtum af lánum og arði af fjárfestingum.
Ég hef séð þessu dæmi stillt upp þannig að sýnir á sannfærandi hátt að þegar allt kemur til alls eru það hinir fátæku sem eru veitendur en hinir ríku þiggjendur.

Vandinn er hins vegar sá að heima fyrir í flestum fátækum ríkjum er spillingin hjá valdastéttum engu minni en í ríka heiminum sem þýðir að svo miklu er stolið að myndin skekkist fyrir bragðið.

Svo verður þar til tekst að útrýma spillingunni. Þess vegna verður bið á því að gripið verði til hins augljósa ráðs: Að hinir fátæku í heiminum setji hinum ríku stólinn fyrir dyrnar til að tryggja jafnari skipti.
Og ef ekki yrði að því gengið þá væri  ekki um annað að ræða en að setja ríka heiminn í viðskiptabann. Það gæti reynst honum dýrkeyptara en hann sjálfur trúir að óreyndu.
En væri það ekki svoldið gott á okkur?