SIGURÐUR INGI FRAMMI FYRIR SPILLINGU HEIMSINS


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 09/10.04.22.
Fyrir mína kynslóð ætti það að vera algerlega óásættanegt að skila veröldinni verri en hún var þegar við fæddumst í þennan heim. Það er þó að gerast. En er of seint í rassinn gripið að bæta úr? Kynslóð fædd um miðja síðustu öld á ekki svo langt eftir. Ég er samt sannfærður um að ekki sé öll von úti enn því eins mótsagnakennt og það kann að hljóma leynist sprengikraftur í tímaleysinu. Nokkur orð um þetta: 

Það er útbreiddur misskilningur að almennt sé ungt fólk ákafara til róttækra breytinga en þau sem eldri eru. Eflaust eru þess dæmi að fólk sem er baráttuglatt á unga aldri verði værukært með aldrinum; hætti þá að trúa því að bæta megi heiminn svo um muni. Í þeim tilvikum stenst kenningin um baráttuglatt ungviðið og raunsæju gamalmennin sem hafi hlaupið af sér hornin og komist að þeirri niðurstöðu að best sé að una glöð við sitt. Heimurinn sé eins góður og hann geti orðið.

En svo er það hin hliðin, þau sem ekki sætta sig við óumbreytanleika heimsins og liggur á að breyta honum. Það á við um margt tekjulítið fólk, ekki síst það sem komið er á aldur og sér fram á að geta að öllu óbreyttu aldrei veitt sér neitt út lífið, ferðast, gefið gjafir og orðið veitendur barnabörnum sínum. Raddir þessa fólks heyrast í umræðu um tekjuskiptingu í samfélaginu og hvað gera þurfi til að útrýma - ekki draga úr - heldur útrýma fátækt.
Sem allra flestir þurfa að taka undir þessar raddir nú þegar auðmenn Íslands eru hættir að vera feimnir við sjálfa sig og auð sinn eins og þeir voru fyrstu árin eftir hrun. Nú er að nýju allt komið á fulla ferð með bankasölum og bónusum og milljóna króna fólkið að baða sig í veraldlegum gæðum sínum. Ranglætið ekki lengur felumál heldur til að stæra sig af. 

Það sem þjóðfélagið og reyndar heimurinn allur þarf á að halda er að læra á ný að reiðast yfir ranglætinu. Einu sinni kunni heimurinn það betur en hann gerir nú. Eða öllu heldur, reiðin fann sér farveg sem hreyfiafl til framfara.
Það er gott að ráðherrar kenni hver öðrum kurteisi í orðum og að biðjast afsökunar á niðrandi ummælum sínum ef því er að skipta. En heimurinn er svakalegri en svo að þetta eitt nægi sem inntak í stjórnmálalíf heillar kynslóðar.

Við horfum upp á stríð, fjöldamorð og aðra viðbjóðslega stríðsglæpi, fáum fréttir af undirokun þjóða, fangelsun fyrir að segja skoðun sína, ofsóknum fyrir að vilja tala tungumál sitt og njóta lýðræðislegra réttinda. Allt er þetta að versna, fasistar víða við stjórnvölinn, hernaðar- og ofbeldisöfl að festa sig í sessi, ekki bara á vígvellinum heldur líka í hugum fólks. Þar er hernaðarhyggjan að grafa um sig og engu líkara en heimurinn sé að gleyma ranglætinu sem hann býr við, stórfelldum þjófnaði á auðlindum, vaxandi yfirgangi auðjöfra sem öllu ætla að ráða í heiminum og svo gegndarlausu ríkidæmi annars vegar og hungri og örbirgð hins vegar.

Ábyrgðin á ranglætinu er okkar allra og verður svo lengi sem við látum berast með straumnum. Nákvæmlega það gerir Ísland í dag. Berst með straumnum og virðist þykja það eitt eftirsóknarvert að fá að fljóta með.

Ég er nýkominn af ráðstefnu um málefni samviskufanga í Tyrklandi. Þar var talað máli fólks sem setið hefur nær öll sín fullorðinsár á bak við fangelsisrimla og frelsið fjarlægur draumur. Okkur ber að hugleiða hvað það í raun þýðir þegar lífinu er stolið af fólki því það er nákvæmlega það sem hefur verið gert. Við heyrðum af hlutskipti fólks sem setið hefur í fangelsi í rúm tuttugu ár. Munið eftir sumarfríinu fyrir fimm árum, páskum fyrir tólf árum og þegar litla frænka fæddist, sú sem gifti sig í vor? Margs að minnast á aldarfjórðungi fyrir okkur sem verið höfum frjáls og getað safnað minningum um liðna daga. En tilveran er önnur hjá þeim lokuð eru inni, dag eftir dag, ár eftir ár og síðan áratugi. Og enginn réttir hjálparhönd sem hald er í.

Losum okkur við værukærð. Hún er varasöm því hún viðheldur ranglætinu og festir það í sessi. En það er þarna sem ég bind helst vonir við eldra fólkið, þau sem eru að renna út á tíma og vilja ekki skilja við heiminn eins og hann er að þróast. Hjá þessu fólki er óþreyjan. Óskandi að sem flestir finni fyrir henni.

Ég minnist þess þegar ég einhverju sinni varð vitni að samræðum föður míns við ráðamenn um úrbætur sem hann taldi að væru nauðsynlegar á tilteknu sviði. Viðmælendur tóku málaleitan hans ekki illa en sögðu að af framkvæmd gæti ekki orðið fyrr en að nokkrum árum liðnum. Það gengur ekki sagði sá gamli, ég hef ekki tíma til að bíða. Hann var kominn vel á tíræðisaldur og vildi sjá breytinarnar í sínu lífi.

Þetta er lóðið. Við þurfum alvöru breytingar. Og okkur verður að liggja á.

Fréttabréf