Fara í efni

SNÚAST ÞARF FRÉTTAFRESLI TIL VARNAR

Mér hefur ekki alltaf líkað Stundin, stundum meira að segja langt í frá. Miklu oftar hefur mér þó líkað hún og þótt hún afbragðsgóð.
Mér hefur ekki alltaf líkað Kjarninn, miklu oftar og nánast oftast hefur mér þó líkað hann afbragðsvel.
Helgi Seljan hefur ekki alltaf verið mér að skapi, að minnsta kosti ekki rétt á meðan hann sneri mér einhverju sinni á grillpinna sínum í sjónvarpsþætti. Oftar hefur mér þó líkað hann og nánast alltaf afbragðsvel.
Ég nefni þessa þrenningu vegna þess að hún sætir nú árásum. Að henni er sótt vegna þess að hún hefur reynst umræðu í íslenskum fjölmiðlum og íslensku samfélagi lífakkeri; upplýst um spillingu og fjármálamisferli kvótabraskara.
Ekkert þjóðfélag á sér þá framtíð sem við flest viljum sjá ef það kæfir gagnrýna og upplýsandi fjölmiðla í slíkum verkum.   
Um leið og ég tek ofan fyrir framangreindri þrenningu og mörgum öðrum sem þessum málum tengjast og þakka fyrir mig minni ég sjálfan mig og aðra á það að þrátt fyrir þessi formálsorð skiptir engu máli hvað mér finnst um þessa fjölmiðla og þá sem þar starfa. Það sem skiptir máli er að samfélagið allt snúist til varnar fyrir þeirra hönd og allra þeirra sem á að svipta málfrelsinu eða gera svo tortryggilega að þeir fái ekki þrifist.

Myndina hér að ofan fékk ég af síðunni sem slóðin vísar til safejournalists.net. Síðuna þekki ég ekki neitt nema að mér líkar það sem þar segir: “The suppression of media freedom stifles any other progress in society.”

https://safejournalists.net/the-suppression-of-media-freedom-stifles-any-other-progress-in-society/