Fara í efni

BJÖRGVIN MAGNÚSSON KVADDUR

Björgvin Magnússon var kvaddur frá Gafarvogskirkju miðvikudaginn 22. desember síðastliðinn. Skólastjórinn, æskulýðsfrömuðurinn og ættfaðirinn hafði undirbúið jarðarför sína í minnstu smáatriðum. Engin minningarorð áttu að vera um hann sjálfan heldur skyldi lesin hugvekja, eins konar ákall til okkar allra að leggja rækt við hið góða í tilverunni. Ekki héldu skipuleggjendur útfararinnar sig að öllu leyti við forskrift gamla skátaforingjans en þó að uppistöðu til.
Úr jarðarförinni komum við tvíefld og bjartsýnni en þegar við stigum inn í kirkjuna. Þannig átti æskulýðs- og uppeldisstarf líka að vera að mati Björgvins Magnússonar, til eflingar líkama og sálar.

Í tilefni 95 ára afmælis Björgvins hafði fjölskylda foreldra minna sem verið hafði í miklu vinfengi við Björgvin Magnússon fært honum hlyn að gjöf sem góðursetja skyldi á Úlfljótsvatni honum til heiðurs. Að þessari gjöf vék ég í minningarorðum mínum um hann í Morgunblaðinu:

„Ef allir þeir sem hugsa hlýlega og með eftirsjá til Björgvins Magnússonar á þessum degi settu orð sín á blað myndu allar síður Morgunblaðsins varla duga til. Þannig má ætla að hver minningargrein sé eins konar regnhlíf yfir hugrenningar margra. Svo er því alla vega varið með þessi orð mín til minningar um Björgvin. Þar mæli ég fyrir munn fjölskyldu foreldra minna en alla tíð voru vinatengsl við Björgvin og Grétu konu hans og Sigrúnu sem síðar varð lífsförunautur hans.
Björgvin Magnússon var nánast af öðrum heimi, aldurslaus unglingur jafnvel eftir að hann var kominn hátt á tíræðisaldurinn. Hann bjó yfir þeirri náttúru að geta gert minnstu athöfn stóra og eftirminnilega. Síðasta sameiginlega samverustund okkar Björgvins sem flokka má undir athöfn var afhending hlyns sem gróðursettur var honum til heiðurs og minningar að Úlfljótsvatni í Grafningi þar sem skátar hafa höfuðstöðvar sínar. Athöfnin var í framhaldi af níutíu og fimm ára afmæli höfðingjans. Undir tréð settu skátar ríkulegan áburð en svo hart börðu veðurguðirnir hins vegar á trénu unga að það kól illa. Ekki verður þó gefist upp í viðureigninni við náttúruöflin og hlúð af alúð að hlyninum sem stendur við Gilwell skálann gamla á Úlfljótsvatni.
Það er staðsetning við hæfi því þar undi Björgvin sér vel og þar miðlaði hann um margra áratuga skeið af reynslu sinni og góðvild.
Hlynurinn mun einnig minna á lífsstarf Björgvins Magnússonar sem kennara, skólastjóra og æskulýðsleiðtoga.
Í lífsbaráttu sinni mun hlynurinn verða eins konar vitnisburður um þann barning sem sumir eiga við að stríða í lífsins veðraham. Út á það gekk lífsstarf Björgvins Magnússonar að rétta þeim hjálparhönd sem hennar þurftu við.  Þeir voru ófáir.
Blessuð sé minning hans.“
björgvin 2.PNG (1)

Frá Úlfljótsvatni á samkomu til heiðurs Björgvin Magnússyni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/bjorgvin-heidradur