HVER SAGÐI UGLUNNI FRÁ MÚSINNI?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 09.10.21.

Svona myndi náttúrufræðingur aldrei spyrja. Hann vissi að svo flókið er viðfangsefnið að það sé ekki á færi nokkurs manns að finna við því fullnægjandi svar. Mér finnst spurningin samt áhugaverð. Og hennar hef ég spurt áður. Það gerði ég þegar ég ítrekað fór að verða var við uglu austur í sveitum þar sem ég stundum kem.

Einfalda svarið var mér sagt að væri músin. Gott músaár væri gott ugluár. Uglan æti nefnilega mýs. Og mýs væru margar í góðu árferði. Þá væri allt krökkt af músum. Þá yrði veisla hjú uglunni. En hver segir uglunni frá …? Það er þarna sem náttúrfræðingurinn hefði stoppað mig af. Ég væri nefnilega kominn inn á brautir sem lægju í allar áttir. Ég væri farinn að spyrja út í samhengið í lífríkinu, hvorki meira né minna, þar sem eitt leiðir af að öðru og allt er öllu háð.

Þannig er þetta náttúrlega líka í mannheimum. Þar eru líka uglur á sveimi sem þurfa sínar mýs til að nærast á. Uglurnar í mannheimum eru auðjöfrarnir. Þeirra vandi er að þeir eru óseðjandi. Og nú eru þeir búnir að finna það út að ef færi sem horfði gæti orðið músalaust í heiminum. Það væri nefnilega verið að eyðileggja skilyrði til lífs þar. Og það sem verra væri, þeir sjálfir bæru þar höfuðsök. Áfergja þeirra í hagnað kallaði á stöðugan og helst vaxandi  hagvöxt. Þegar slíkt markmið yfirskyggði allt annað, væri sett í forgang, þá sæjust menn ekki fyrir; færu að ganga á þær uppsprettur sem gera okkur kleift að lifa. Hvorki meira né minna. Og í líflausum heimi væri ekkert æti að hafa. Það segði sig sjálft.

Nú voru góð ráð dýr. Við svo búið blésu auðjöfrar heimsins til funda með sínum líkum, sá frægasti er haldinn í Davos í Sviss á hverju ári. Þar ræða menn hvernig eigi að fara að því að tryggja góð músaár. Og niðurstaðan liggur fyrir. Ekki að draga eigi úr gróðanum. Að sjálfsögðu ekki. Þvert á móti verði að tryggja eilífan hagvöxt og þar með áframhaldandi dúndrandi gróða. Viðfangsefnið er þá þetta: Hvernig má græða á umhverfisvænan hátt?

Ekki er ástæða til að lasta þetta út af fyrir sig. Betra er að menn græði á grænan og vistvænan hátt en kolakyntan og svartan. Eftir stendur engu að síður spurningin hvort dæmið yfirleitt gangi upp, hvort þensluhvetjandi hagkerfi ráði við að leysa umhverfisvandann. Ég leyfi mér að efast um það.

Í vikunni gerðist tvennt. Fjölmiðlar rifjuðu upp heitstrengingar stjórnmálaflokkanna fyrir nýafstaðnar kosningar. Flestir ætluðu að draga úr mengun svo um munaði – minnka koltvísýring í loftinu um þrjátíu,  fimmtíu, sextíu prósent, jafnvel meira, hver býður best? Það var tilfinningin. Þetta var rifjað upp þegar upplýst var að þrátt fyrir allar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um glæsta sigra á þessu sviði hefði ekki miðað í rétta átt að heitið gæti. Þá er komið að hinu atriðinu sem gerðist í vikunni. Náttúruverndarsamtökin birtu skýrslu um nákvæmlega þetta, hve illa horfði. Eitt vakti sérstaklega athygli mína og það var mikilvægi þess að draga úr umferð á vegunum.

Varð mér nú hugsað til orðanna annars vegar og efndanna hins vegar. Þingflokkarnir sem lofuðu betrumbótum upp á fimmtíu, sextíu prósent samþykktu á þingárinu risavaxin áform um vegabætur til að greiða enn betur fyrir bílaumferð – ekki fyrir minni umferð, nei meiri umferð. Í Ölfusi má nú sjá, svo dæmi sé tekið, allt sundurgrafið til að undirbúa nýjar margra akgreina brautir sem tryggi að aldrei þurfi nokkur maður að hægja á sér eitt andartak.

En er það ekki einmitt það sem þarf að gera, þurfum við ekki  að hægja á okkur? Það er náttúrlega það þriðja markverða sem gerðist í vikunni. Gamli landgræðslustjórinn Sveinn Runólfsson og Andrés Arnalds, einn helsti sérfræðingur á því sviði um áratugaskeið, skrifuðu grein í Morgunblaðið í vikunni þar sem þeir guldu varhug við óyfirvegaðri skógrækt. Þessir menn vita að verið er að hanna Ísland til framtíðar. Þeir vita líka að hættan sem að Íslandi steðjar er ekki bara mengunarvandinn heldur stafar hætta af kerfi sem ætlar að halda áfram að þenjast út svo áfram megi græða sem mest en nú með yfirbótum, hola niður tré fyrir hverja drýgða synd. Þar með eru víðerni Íslands horfin.

Uglan veit af músinni. En veit músin af uglunni?

Fréttabréf