GERÐUR H. HELGADÓTTIR

Gerður H. Helgadóttir.JPG
Minningargreinarnar um hana Gerði í Morgunblaðinu í dag eru hlýjar og fullar af söknuði. Þær lýsa afbragðsvel konunni sem við starfsmenn Sjónvarpsins bárum svo góðan og hlýjan hug til. Ég hef trú á því að það hafi allir gert.
Um nokkurra áratuga skeið - nánast alla starfsævi Gerðar - var hún eins konar móttökustjóri Sjónvarpsins. Ekki svo að skilja að hún hafi heilsað öllum gestum með handabandi og boðið velkomna. Nei, hún var á símanum, í móttökunni þar sem gesti bar fyrst að garði og beindi jafnframt símatrafíkkinni inn á allar hæðir, í króka og kima, þar sem viðmælendur væri að finna.
Í rauninni er það engin ein minning sem ég á um hana Gerði, heldur ótal minningarbrot þegar við áttum spjall saman, yfirleitt í byrjun dags. Alltaf var glimt í auga, glettið bros og stutt niður á húmorinn sem hún bjó yfir ómældum og ríkulegri en flestir aðrir. Þetta var góð byrjun á hverjum vinnudegi.  
Ég minnist Gerðar sem góðs félaga í Starfsmannafélagi Sjónvarpsins sem var stórveldi á staðnum. Alltaf mátti ganga að því vísu að Gerður yrði styðjandi í því sem félagið tók sér fyrir hendur til að tryggja að jafnræði væri með öllu starfsfólkinu innanborðs.
Hugheilar samúðarkveðjur sendi ég Gunnari og fjölskyldu.  

Fréttabréf