Fara í efni

EF VIÐ VÆRUM Á VENJULEGUM STAÐ

Ég held ég verði að taka smá tilhlaup áður en ég segi hug minn til bókar Juans Villalobos(ar) sem Angustúra gefur út. Bókin heitir Ef við værum á venjulegum stað, sem náttúrlega er ekki neinn venjulegur bókartitill.   

En aftur að tilhlaupinu. Það hefst í samtali um veggjakrot sem ég átti fyrir nokkrum árum við argentínska baráttukonu fyrir mannréttindum.

Ég sagði að fátt réði ég eins illa við og að halda yfirvegaðri ró frammi fyrir veggjakroti. Hvort sem væri á nýmáluðum bílskúr eða sjúkrahúsbyggingu þá væri veggjakrot ljótt en kannski væri það aðallega dapurlegt að til skuli vera fólk sem finnur þörf hjá sér að eyðileggja það sem fallegt er.

Mannréttindakonan sagði að einnig mætti líta á þetta sem listræna tilraun veggjakrotara til að staðfesta að þeir væru yfirleitt til í óvinveittum heimi.
Já, en hinir óvinveittu eru þá væntanlega í fínu villunum fjarri skólunum, sjúkrahúsunum og þjónustustöðvunum sem verst yrðu úti í krassi krotarans, skaut ég inn. Væri ekki einmitt verið að eyðileggja það sem væri okkur kært, það sem við ættum sem samfélag? Ég fengi ekki skilið hvers vegna almannarýmið þyrfti að verða fyrir eyðileggingu af hálfu nokkurs manns og fyrir listræna þáttinn svokallaða gæfi ég ekkert.

En þótt andúð mín á veggjakroti væri óhögguð þá sótti nú á mig sú hugsun að ég gæti verið að misskilja eitthvað eða að ég kæmi ekki auga á eitthvað sem væri mér hulið.

Og viti menn í bók Villalobos(ar) sá ég það sem ég ekki hafði áður séð, alla vega ekki skilið eins vel; nefnilega hina fullkomnu firringu; fólk sem eigendur samfélagsins gætu ekki gert neinar kröfur til!

Getur verið að maður þurfi að fara alla leið til Rómönsku Ameríku til að kynnast slíkum heimi, þar sem engan veginn væri augljóst hvað væri almannarými, eða yfirleitt hvað átt sé við með fyrirbærinu samfélag?

Í sögu Villalobos(ar) kynnumst við hvernig hinn efnaði níðist á hinum fátæka og beitir til þess valdbeitingartólum samfélagsins. Verkið er fullkomnað með því að hinn snauði undirgengst arðrán á sjálfum sér og reisir að lokum eigin fangelsismúra. Þannig lýkur bókinni í kafla sem er talsvert surrealískur en við því var að búast á stað sem engan veginn er venjulegur, alla vega í huga okkar venjulega fólksins.

Við erum hins vegar vel undirbúin að taka súrrealískt flug eftir að fylgjast með framvindu mannlífsins á Rassgatsfjalli og fjölskyldunni sem þar bjó við lítil efni en einhverjar hugmyndir um að til væri eftirsóknarvert líf eins og nafngiftir barnanna báru vitnisburð um, þeirra Aristótelesar, Elektru, Óreós og fleiri systkina sem báru nöfn grískra heimspekinga og guðlegra vera. Tvíburarnir Kastor og Polloux fengu þannig eflaust sín nöfn frá tvíburunum sem báru þessi nöfn í grísk-rómverskri goðafræði.

En Rassgatsfjall hét það engu að síður þar til fjallið hafði verið hreinsað af fátækt og hét eftir það Olympusfjall að öllum líkindum til að geirnegla inn í vitund lesandans hið vonlausa hlutskipti hins fátæka manns í viðureign hans við braskara sem birtust frá einskismannslandi en eignuðust samt allt. Þá dugði lítið að heita Aristótels.   

Það er gott að minna okkur á heim arðráns og misréttis; heim þar sem þorri samfélagsins finnur sig ekki heima í og þar sem það er fullkomið aukaatriði hvort einhver krassar á vegg sem kemur honum ekkert við að öðru leyti en því að hann er bara þarna.  

Það er ekki heiglum hent að höndla stílbrögðin við að þýða þessa bók.

Þýðandinn, Jón Hallur Stefánsson, veltir því fyrir sér í epilóg hvernig til hafi tekist, greinilega ekki viss.

Án þess að geta fullyrt um það, því ekki þekki ég frumtextann, þá býður mér engu að síður í grun að bókinni hafi verið snarað af fullkomnun!
Alla vega tókst vel að miðla til lesandans skilaboðum höfundar um óþolandi ranglátan heim –  boðskapurinn hitti í mark hjá þeim sem þetta skrifar.

Takk fyrir Angústúra, takk Jón Hallur og bestu kveðjur til Juans Villalobos(ar).