HIN ÓSÝNILEGU VIÐBRÖGÐ Í SPILAKASSAUMRÆÐU

Sorg.JPG
Á tíunda áratug síðustu aldar tók ég upp baráttu-kefli Guðrúnar Helgadóttur, alþingismanns, gegn rekstri spilakassa og spilavíta. Þegar ég tók málið upp á þingi tæmdist þingsalurinn því enginn vildi styggja Háskóla Íslands, Rauða kross Íslands, Slysavarnafélagið og hjálparsveitirnar.

En síðan voru það aðrir sem brugðust við en það var í kyrrþey. Þau sem hringdu eða höfðu samband við mig með öðrum hætti voru spilafíklar og aðstandendur þeirra.

Ég fór að efna til vikulegra funda, á hverjum laugardagsmorgni, um all langt skeið. Þá kynntist ég því hve hópurinn er breiður, þroskaheftir, atvinnulausir, óhamingjusamir og takið nú eftir, fólk í fullu starfi, öflugir og sérlega vel gerðir einstaklingar, jafnvel afburðafólk, það fullyrði ég, nema með þessa brotalöm að taka agnið sem færustu sérfræðingar í hönnun ágengra spilakassa egna fyrir fólk. Þessir sérfræðingar í veikleikum mannshugans starfa fyrir Háskóla Íslands, (sem svo aftur lætur sérfræðinga sína í dyggðafræðum réttlæta siðleysið), Rauða kross Íslands og Slysavarnarfélagið Landsbjörg.

Ég kynntist mörgum spilafíklum sem margir urðu góðir vinir mínir. Ég fór líka að sjá minningargreinar í blöðum um fólk sem sótt hafði þessa laugardagsfundi sem ég stóð fyrir. Ég strengdi þess heit að halda áfram baráttu fyrir þeirra hönd.

Ég reyndi það sem ráðherra dómsmála. Tókst ætlunarverk mitt hins vegar ekki vegna andstöðu þeirra sem fénýta sér spilasjúka og þingmanna sem vildiu verja “frelsið”; frelsi til að níðast á fólki.

Er ég þá kominn að erindi þessa litla pistils. Og það er að segja frá því hve margir hafa haft samband síðustu daga - ekki opinberlega heldur í fullkominni kyrrþey -  til að segja frá illum afleiðingum spilafíknarinnar og í sumum tilvikum ættingjum eða mökum sem svipt hafa sig lífi eftir að spila frá sér og sínum öllum eignum sínum – og að því er þau töldu mannorði sínu.

Í mínum huga eru það allt aðrir sem eru á góðri leið að spila frá sér mannorðinu, það eru framangreindir rekendur spilakassanna, Alþingi og ríkisstjórn sem neita að axla ábyrgð sína. 

Nýleg skrif:

Á Vísi: http://ogmundur.is/greinar/2021/02/ekki-eg  

Grein í Fréttablaðinu:

https://www.frettabladid.is/skodun/opid-bref-til-formanns-slysavarnafelagsins-landsbjargar/

Frétt Fréttablaðsins í framhaldi af grein:

https://www.frettabladid.is/frettir/sendir-formanni-landsbjargar-pillu-thetta-er-ovaera-a-okkar-samfelagi/

Greinar í Morgunblaðinu: http://ogmundur.is/greinar/2021/03/bjorgum-theim

http://ogmundur.is/greinar/2021/02/alma-reiknar-stefan-skrifar-og-egill-spyr  

(mynd tekin af vef Grafavogskirkju - þakkir til ljómyndara)

Fréttabréf