Fara í efni

FEMÍNISTINN OG AÐALRITARINN


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 13/14.03.21.
Í vikunni staldraði ég við tvennt sem snýr að réttindum kvenna beint og óbeint. Hvort tveggja birtist í fjölmiðlum á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, mánudaginn 8. mars.

Annað var útvarpsviðtal við talskonu félagsins Femínisk fjármál sem útskýrði hvað átt væri við með kynjuðum fjárlögum, nefnilega að hugað væri að áhrifum sem opinberar fjárveitingar til atvinnusköpunar hefðu á stöðu kynjanna. Þessi nálgun hafi verið innleidd í kjölfar bankahrunsins á árunum upp úr 2009 en fyrst og fremst í orði, síður á borði. Alla tíð hefði hallað á konur, en í stað þess að rétta þeirra hlut, sem eðlilegt hefði verið þegar fjármunum væri ráðstafað til atvinnuuppbyggingar, þá hafi verið bætt í hallann þeim í óhag.
Talskonan sagði að allt væri þetta þekkt innan Stjórnarráðsins, þar hefði verið unnin vönduð greiningarvinna á undanförnum árum, en pólitískar ákvarðanir hefðu hins vegar gengið þvert á niðurstöður þeirrar vinnu.

Þetta held ég að sé hárrétt og ég tel auk þess mikilvægt að taka þessar ábendingar alvarlega, þær snúa nefnilega að sjálfum undirstöðum samfélagsins.

Kynjuð fjárlög þýða á mannamáli að hjá okkur Íslendingum þarf hlutfall fjárfestinga í heilbrigðisþjónustu og umönnunarstörfum að hækka samanborið við fjárfestingu í malbiki. Það er ekki að gerast. Hróðug segist ríkisstjórnin ætla að spýta inn tólf hundruð milljörðum á næstu fimmtán árum í samgöngubætur, þar eru karlastörfin. Ekki hef ég heyrt áþekk loforð fyrir kvennastörf. Naumt skammtað til velferðarþjónustunnar bitnar á kvennastörfum og hefur auk þess í för með sér álag á konur heima við. Enn er reynlsan sú þótt margt hafi breyst.

Þetta er jafnréttisvinkillinn, hann snýr líka að því að jafna byrðarnar við heimilisstörfin og í launakjörum þarf að vera jöfnuður.

Síðan mætti taka alla kyngreiningu út, sleppa jafnréttisvinklinum og tala bara um malbik og umönnun. Niðurstaðan væri hin sama, því veikara velferðarkerfi, þeim mun kraftminna samfélag. Og öfugt, kröftugt velferðarkerfi er forsenda öflugs efnahagslífs. Þetta skildi ég sem kjarnann í boðskap félagsins Femínisk fjármál.

Fyrir hálfri öld, kannski tæplega, þegar kvennahreyfingin var að hefja sig til flugs, trúði ég því að þess væri skammt að bíða að hætt yrði að tala um konur og karla í þessu samhengi, bara um malbik og velferð. Svo langt myndum við hafa náð í jafnréttisbaráttu þegar komið væri fram yfir aldamótin, hvað þá um tvo áratugi inn í tuttugustu og fyrstu öldina.
Á árunum upp úr 1970 var áhersla lögð á að við værum öll sömu gerðar þegar komið væri út í efnahagslífið, konur og karlar, óháð kyni værum við einfaldlega mismunandi einstaklingar. Í öðru samhengi kynnu karlar og konur að vera ólík en ekki þegar kæmi að því að reikna, rökstyðja, finna veirur, lækna fólk, hlynna að sjúkum, kenna börnum, hanna vélbúnað, stjórna flugvél, leggja rafmagn og aka bíl.

En viti menn og er þá komið að framvæmdastjóraþætti þessa pistils.
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna António Guterres, sendi frá sér grein sem birtist meðal annars í Morgunblaðinu á umræddum  baráttudegi kvenna. Hann vakti máls á ýmsum réttindamálum kvenna víðs vegar um heiminn og gerði það prýðilega. Það var þörf áminning og hvatning.

En svo kom hann að getunni til að stjórna okkur hinum. Á honum var svo að skilja að konur væru þar miklu betri en karlar og til marks um það væri viðureignin við Covid. Sú viðureign gengi betur í ríkjum þar sem konur stjórnuðu! Annars staðar í blaðinu voru í tilefni dagsins birtar myndir af konum sem sitja við stjórnvölin bæði í valdastofnunum, ríkjum og ríkjasamböndum; virtist eiga að vera til marks um framfarir að þessar konur sitji á valdastóli.

Ekki höfðuðu þær valdapersónur sem þarna voru taldar upp til mín. Langt í frá. Það gerði heldur ekki þessi málflutningur aðalritarans sem mér þótti byggja á stjórnendahyggju og auk þess vera niðrandi í garð karla og kvenna sem engan áhuga hafa á því að láta stýra sér, hvorki af körlum né konum. Þá má spyrja hvort konum almennt þyki eftirsóknarvert að vera sviptar persónu sinni með því vera dregnar í dilk með þessum hætti.

Eigum við ekki að leyfa okkur að meta forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, framkvæmdastjóra seðlabanka Evrópu, kanslara Þýskalands, varaforseta Bandaríkjanna og aðrar konur sem þarna voru taldar upp, samkvæmt eiginleikum sem þær kunna að búa yfir, jákvæðum eða neikvæðum eftir atvikum, í stað þess að einblína á kynferði þeirra?

En vissulega er þetta leið til að forðast umræðu um pólitískan feril einstaklinganna, afstöðu þeirra til mála, baráttuaðferðir og framkomu gagnvart öðru fólki.

Með því móti verða þessir einstaklingar fyrst og fremst konur og ég sem gagnrýni þær, sem ég vissulega geri, bara karl.

Varla var að þessu stefnt.