Fara í efni

HAUKUR HELGASON: EFTIRMINNILEGUR SAMFERÐARMAÐUR



Í dag fór fram útför Hauks Helgasonar, kennara og skólastjóra. Við kynntust vel þegar ég kom inn í stjórn BSRB í byrjun níunda áratugarins. Þar var Haukur einnig. Fór vel á með okkur.

Haukur hafði skýra samfélagssýn, hafði trú á ágæti hennar og bjó auk þess yfir prýðilegu sjálfstrausti. Þess vegna var auðvelt að skiptast á skoðunum við hann og þá einnig að vera honum ósammála ef því var að skipta. Hann gat tekið öllu, fullviss um ágæti eigin skoðana og eigin sýnar á lífið.
En það var ekki bara það. Hann bjó yfir fágætu umburðarlyndi sem ég fékk að kynnast vel sem honum  yngri maður að stíga inn á vettvang verklýðsbaráttunnar í BSRB upp úr 1980.
Haukur var fulltrúi kennara í stjórn BSRB, talaði máli þeirra af festu og rökvísi en missti þó aldrei sjónar á samfélaginu í heild sinni. Þetta var líka andinn í BSRB og í verkalýðshreyfingunni almennt á níunda áratugnum og er enn sem betur fer á flestum bæjum.

Í samstarfi okkar innan BSRB mynduðust góð tengsl okkar í milli og þá ekki síst í verkfalli BSRB árið 1984 en harðvítug og langvinn verkföll kalla á náin samskipti, þrýsta mönnum saman en einnig sundur eftir atvikum. Verkfallið færði okkur Hauk saman þótt ekki værum við sammála um allt því báðir vissum við að við værum sammála um flest.

Myndin hér að ofan er úr bók Baldurs Kistjánssonar og Jóns Guðna Kristjánssonar, Verkfallsátök og fjölmiðlafár.  Bókarhöfundar vissu að undir lok verkfallsins vildi samningsrefurinn Haukur semja en ég ekki á þeirri stundu og var fyrir vikið sakaður um að vilja halda öllu sem lengst í háalofti á fundum stóru samninganefndar BSRB þegar hyllti undir lok verkfallsins.
Jón Guðni sagði mér að í samræmi við þennan almannaróm hefði hann hugsað að hafa texta myndarinnar hér að ofan sem tekin er úr bók þeirra félaga, úlfur og refur, en vildi hins vegar ekki vera meiðandi í okkar garð og því látið liggja. Það get ég þó staðhæft að hvorugur okkar Hauks hefði tekið þennan myndatexta illa upp! Á endanum fundu bókarhöfundar þó þá einu sönnu skýringu á brosmildi okkar Hauks en það var mynd úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins af Hauki sem kætti okkur svo mjög.

Annars átti sjálfstraust Hauks sér sögulegar rætur. Hann var nefnilega verkalýðssinni samkvæmt forskrift litninganna og taldi sig hafa umboð til skoðana á þeim vettvangi. Faðir hans, Helgi Hannesson, hafði verið forseti ASÍ á sínum tíma og eðalkrati eins og sonurinn síðar varð. Þetta var Haukur með í sínu farteski og lét því engan slá sig út af laginu, hvorki hasarmenn né skríbenta Reykjavíkurbréfa Moggans!

Haukur var stundum orðaður við formennsku í BSRB en allt slíkt var úr sögunni þegar kennarar yfirgáfu samtökin upp úr miðjum níunda áratugnum.

Ég átti samræðu í dag við einn ágætan vin minn sem einnig hafði kynnst Hauki Helgasyni. Hann sagðist minnast sérstaklega handabandsins. Þegar Haukur hafi heilsað hafi það verið bæði hlý hönd og þétt sem tók um hönd manns. Upp á þetta skrifa ég. Þessu man ég einmitt vel eftir nú þegar á það er minnst.

Ég sá eftir Hauki úr okkar röðum í BSRB. Manna eins og hans er saknað þegar þeir hverfa frá borði.
Nú þegar hann fellur frá á það að sjálfsögðu sárast við hjá fjölskyldu hans og votta ég börnum hans og öðrum afkomendum og fjölskyldu samúð.