Fara í efni

SÁ YÐAR SEM SYNDLAUS ER …


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 07/08.11.20.
Nú keppast menn við að endurskoða fyrri dóma í hvítflibbamálum frá því í aðdraganda hruns. Ekki svo að skilja að allir sakborningar hafi verið karlmenn með flibba. En þessi mál eiga það sameiginlegt að tengjast bankahruninu og meintri misnotkun á peningavaldi.

Hverju málinu á fætur öðru, sem dæmt var í, er nú skotið til Mannréttindadómstólsins í Strassborg sem finnur formgalla á þessum dómsmálum, og það sem meira er, að í ljósi þeirra megi líta svo á að mannréttindi hafi verið brotin á viðkomandi einstaklingum. Þeir birtast svo þjóð sinni í kjölfarið sem hvítþvegið fólk – aldrei komið nálægt neinu misjöfnu.

Hið rétta er að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur, að því er ég fæ best séð, fetað sig inn á braut bandarísks réttarfars þar sem form skiptir meira máli en innihald. Misferli, sem þorra manna þykir vera augljóst og skiljanlegt, sleppur í gegnum nálaraugu réttarkerfisins takist að finna galla á formi. Samherjamálið gegn Seðlabanka þykir mér vera dæmigert um þetta.

Nú ætla ég ekki að halda því fram að form skipti ekki máli, að sjálfsögðu er það svo. Lög eru form. Það er hið agnarsmáa, hnökrar í forminu, utan við innihaldið, sem ég staðnæmist við. Ég ætla ekki heldur að þykjast hafa þekkingu á öllum þeim málum sem um er að ræða, og vissulega hef ég skilning á þeim tilfinningum sem fólk ber í brjósti vegna sakargifta og refsinga sem því finnst það ranglega hafa þurft að axla.

Ég er einvörðungu að horfa til formgallalögfræðinnar, og hvert hún getur leitt okkur. Það er reyndar byrjað að blasa við hvert hún vísar veginn.  

Þannig er nú sagt að dómar skuli gerðir ómerkir vegna þess að þeir sem kváðu upp dómana hafi haft peninga í þeim bankastofnunum sem hinir dæmdu störfuðu við. Þessum peningum sínum hafi dómararnir tapað í hruninu og er þá gengið út frá því sem vísu að þeir telji sig eiga harma að hefna gagnvart starfsmönnum þessara sömu banka.

Nú verður vandratað.

Hæstaréttardómarar eru vel launaðir og búa við betri lífeyrisrétt en annað fólk. Því má ætla að þeir séu aflögufærir og þurfi þar af leiðandi að koma einhverjum aurum fyrir einhvers staðar. Augljósasti geymslustaður er þá væntanlega banki. Fjárfesting í fyrirtæki gæti þótt hagsmunatengd um of. Því var reyndar svo háttað í aðdraganda hrunsins að ráðgjafar innan bankanna voru látnir hvetja fólk til að setja sparnað sinn í fjárfestingarsjóði sem aftur fjárfestu í fyrirtækjum sem síðan fóru í gjaldþrot í hruninu. Líklegt er að þetta hafi hent eitthvað af hinum glötuðu dómarapeningum, og dómurum eflaust ekki skemmt fremur en öðrum.

Er þá niðurstaðan sú að dómarar, sem áttu peninga í bönkum, geti ekki dæmt í máli banka því ætla megi að þeir leiti um of að refsiverðu hátterni? En er það ekki þeirra hlutverk? Og hvar er þann að finna sem aldrei fann fyrir hruninu?

Það er þarna sem málin gerast vandasöm.

Hver er sá maður sem er svo saklaus að hann sé þess umkominn að kasta steini í anda þess sem kennt var forðum?

Við Mannréttindadómstólinn í Strassborg eru dómarar á enn betri kjörum en íslenskir hæstaréttardómarar. Og það sem meira er, þeir eru undanþegnir því að greiða skatta til samfélagsins. Það er náttúrlega kapituli út af fyrir sig að alþjóðastofnanir, hvað þá mannréttindadómstóll, láti sér þetta lynda.
Gæti verið að tengsl dómaranna í Strassborg við samfélag sitt séu engin? Varla. Í fyrsta lagi eru þeir á framfæri samfélagsins, þiggjendur launa sinna og friðinda og þeirrar þjónustu sem samfélagið veitir, án þó framlags úr eigin vasa. Í öðru lagi þurfa þeir einhvers staðar í samfélaginu að koma fjármunum sínum fyrir. Hvar skyldi það vera?

Hvar skyldi sá sem syndlaus er geyma auð sinn?