Fara í efni

PRÓFLAUS FRAMSÓKNARMAÐUR OG GERÐI ÞETTA ÞVÍ BARA SJÁLFUR!

Sem betur fer birtist okkur oft efni í blöðum sem lyftir andanum, kætir og gleður. Það átti svo sannarlega við um viðtal sem Björk Eiðsdóttir átti við Guðmund Fylkisson, lögreglumann, í Fréttablaðinu um helgina. Guðmundur hefur undanfarin ár haft það verkefni með höndum að finna týnd börn og unglinga og bjarga þeim í örugga höfn eftir því sem kostur er.
Með svo miklum árangri og ágætum hefur honum tekist upp í þessu starfi að á hann hlaðast viðureknningar, nú síðast frá Barnaheillum. En sú viðurkenning sem mestu máli skiptir er eflaust sú, að börnin treysta honum og sækja til hans aðstoð. Það er ekki lítið afrek.
Viðtalið er afbragðsgott og dregur þetta allt saman fram og þá ekki síst góðviljaðan húmorinn hjá Guðmundi.
Þannig var að lögreglustjórinn í Reykjavík, Sigríður Björk, hafði beðið Guðmund um að búa til verklag sem best kæmi að gagni við leit að börnum yngri en 18 ára og síðan í eftirfylgni.
Guðmundur var vissulega til í þetta enda sinnt verkefnum á þessu sviði um nokkurt skeið en þar sem hann væri “ekki með stúdentspróf og … Framsóknarmaður”, ákvað hann að gera þetta bara sjálfur!
Þetta er maður að mínu skapi!
Frá því ég las viðtalið á laugardag er ég búinn að kætast innra með mér yfir húmor Guðmundar.
Ekki svo að skilja að sérstaklega eftirsóknarvert sé að vera án stúdentsprófs og framsóknamennskuna læt ég líka liggja á milli hluta. En þessi afstaða að gera hlutina sjálfur í stað þess að setja þau í nefnd og ferli er til eftirbreytni.  
Það er afstaða sem allir mættu hafa, alla vega í bland við nefndirnar og ferlana sem að sjálfsögðu þurfa líka að vera til staðar. Að sjálfsögðu. En líka viðhorf Guðmundar Fylkissonar, þau þurfa að vera þarna líka svo ferlarnir skili sínu.
Húrra fyrir honum!