Fara í efni

KAPÍTALISMI SEM KNÚNINGSVÉL


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 21/22.11.20.
Ef allir eiga í samkeppni við alla á opnum markaði þá mun hulin hönd sjá til þess að heildin hagnist, ekki allir, en samanlagt. Þetta er grunnhugsun kapítalismans.
Svo fundu menn það út að þótt samanreiknaður ávinningur af samkeppninni kynni að vera mikill þá skiptist hann ekki sem skyldi.
Það vantar réttlætið sögðu kommúnistar og vildu skipuleggja svo ávinningur framfara gagnaðist okkur sem samfélagi.
Og svo fóru menn að skiptast í fylkingar sem rifust um samkeppni og skipulag, hvort ætti að vega þyngra.
Eitthvað rjátlaði af mönnum eftir því sem á leið og sáu menn annars vegar ókosti þess að láta hina huldu hönd um hituna, reynslan sýndi að sennilega væri hún ekki til, og hins vegar óaði mönnum við ofurskipulagi, sérstaklega þegar það var án lýðræðis, bara sálarlaus reglustrikan.
Í togstreitu samkeppni  og skipulags hefur pendúllinn færst til í tímans rás. Síðustu áratugina hefur hann verið samkeppninni í hag; hún eigi að tryggja eilífan vöxt – hagvöxt sem sé allra meina bót.
Ein er sú sem kveinkar sér undan þessari stefnu og það er sú sem við eigum allt okkar undir, sjálf Móðir jörð.
Hún segir að þenslustefna kapítalismans gangi ekki upp.
Og hvað er þá til bragðs að taka? Snúast þarf til varnar fyrir Móður jörð. Verja þarf náttúruna fyrir ágengni mannsins.
Boðað er til ráðstefna á heimsvísu, í Kyoto og París, þar sem ákveðið er að draga úr mengun jarðar.
Stórkostlegt segir Móðir jörð eða þar til það rennur upp fyrir henni að meðalið sem á að gefa henni til heilsubótar sé gamla mixtúran sem er að ganga af henni dauðri.
Það á nefnilega að gera náttúruvernd að bisniss. Og nú er hafist handa, öllum stærðum er snúið upp í mælanlegar einingar svo þær megi ganga kaupum og sölum. Til verða loftslagskvótar og alls konar kvótar sem má kaupa og selja. Þannig kom það til að Íslendingar urðu kjarnorkuþjóð. Við seljum nefnilega orkuna úr Þjórsá og Blöndu til Evrópu þar sem framleitt er með kolabrennslu og kjarnorku. Við fáum pening en sóðastimpil í kladdann.
En Evrópusambandið gengur lengra í umhverfisstefnu í þessum anda. Fyrst var raforkukerfið markaðsvætt. Íslensk stjórnvöld vildu náttúrlega vera með á þeim vagni. Hver hefur ekki fylgst með átakanlegri augýsingaherferð nú í haust um að við eigum öll að vera “í stuði”, vakin kvölds og morgna til að velja ódýrasta rafmagnið þann daginn! Nokkuð sem enginn maður hefur áhuga á að verja dögum sínum til.
En ekki nóg með þetta. Að sjálfsögðu þarf að gera markaðskerfi orkunnar umhverfisvænt. Nú er það þannig að vilji menn tengja virkjun miðlægu dreifikerfi verður að gera það á markaðslega sjálfbærum forsendum, sem getur reynst smávirkjunum erfiður hjalli. En í því skyni að búa til umhverfisvænt raforkuumhverfi er unnið að gerð styrkjakerfis fyrir slíkar smávirkjanirnar að ógleymdum grænum vindmyllugörðum svo eigendurnir geti komið “vöru” sinni óhindrað á framfæri. Þarna ná samkeppni og skipulagning saman en vel að merkja á forsendum hinnar eilífu þenslu.
Enn eitt atriði sem mætti nefna áður en niðurstaða þessa pistils er lögð fram.
Til að vega upp á móti eitt þúsund og tvö hundruð milljörðum sem ríkisstjórnin boðar í vegaframkvæmdir og aðrar samgöngufjárfestingar á næstu fimmtán árum með tilheyrandi margföldun koltvísýrings í andrúmsloftinu þegar öll kurl verða komin til grafar, þá þarf vitaskuld að gróðursetja sem mest af trjám sem eyði þessari nýju mengun loftsins.
En hvernig trjám? Okkur er sagt að okkar gamla góða birki dugi illa, það sé of seinvaxta, langbest sé öspin, hún sé það tré sem veiti þenslustefnu kapítalismans mestu aflausnina.
Niðurstaðan er þá sú að við getum bætt þjóðarhaginn mest með því að gera okkur sem best samkeppnishæf á markaðstorgi umhverfisverndarinnar, virkjað hvern læk og hverja lind og fengið til þess styrki, reist sem flesta vindmyllugarða og flutt út “afurðina”, gert landið að asparskógi og selt loftslagskvótana sem þannig fást og síðan koll af kolli.
Allt þetta fáum við með því að gera kapítalismann að knúningsvél í lífróðri jarðarinnar.
En gleymum því ekki sem við lærðum: Það er engin hulin hönd.