Fara í efni

ÞAR SEM ÓLÍKLEGT ER AÐ Á ALÞINGI VILJI NOKKUR …

Þegar risavaxin framlög hafa verið kynnt til samgöngumála á undanförnum vikum og mánuðum - fyrst vegna Kóvid-veirunnar og nú umferðaröryggis og atvinnusköpunar – þá hefur sú ein gagnrýni komið fram á Alþingi að þetta sé helst til lítið og allt of seint.

Og þegar ríkisstjórnin kynnti að hún ætlaði að fara út á braut einkaframkvæmdar í samgöngumálum - nokkuð sem VG mátti ekki heyra á minnst á meðan flokkurinn tók sig alvarlega sem vinstri flokk – þá var aðeins ein andófsrödd til staðar á þingi, aðeins eitt atvæði Oddnýjar Harðardóttur, Samfylkingu, á móti því að heimila einkaaðilum arðtöku af umferð  á vegum landsins!

Og til að botna fyrirsögnina, ÞAR SEM ÓLÍKLEGT ER AÐ Á ALÞINGI VILJI NOKKUR fá útskýrt sitt hvað sem hljómar mótsagnakennt í meira lagi úr ranni ríkisstjórnarinnar, þá leyfi ég mér að setja fram eftirfarandi vangaveltur:

Samgönguráðherra upplýsir í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi að til standi að setja, að því er mér skildist, um 1200 milljarða(!) í samgöngumál á næstu 15 árum og gera þannig átak sem dugi til þess að koma samgöngumálum í gott lag.  Hann er spurður hvers vegna þetta hafi ekki verið gert fyrr og hann svarar að  því miður sé ekki hægt að fara ennþá hraðar vegna þess að verktakarnir komist ekki hraðar og hvað fyrri ár varðar þá hafi einfaldlega ekki verið til fjármagn í kjölfar bankahrunsins.

Getur virkilega verið að stjórnvöld sjái ekki hætturnar framundan þegar þurfi að reka heilbrigðis- og menntakerfi og allt stoðkerfi samfélagsins með tóman ríkissjóð. Þessar hættur eru mjög raunverulegar. Ekkert síður en eftir bankahrunið.

Varðandi allar vegaframkvæmdir þá eigum við, að mínu mati, nú sem endranær reyndar, en sérstaklega nú, að fara hægt í sakirnar - en jafnt og þétt – þannig höldum við stöðugri vinnu í þessum geira en það ætti ekki að vera neitt umfram það. Þá mun það nefnilega henda sem gerðist fyrir bankahrun, offjárfesting varð í jarðýtum og gröfum og þensla í fyritækjum sem urðu síðan óseðjandi og kröfuhörð eftir því, vildu meira og meira út í hið óendanlega, umfram það sem æskilegt og skynsamlegt var.

Miklu mannfleiri úrræði eru í velferðarþjónustunni en í vegagerð og ef ekki eru peningar þar til reksturs þá skapast fljótt atvinnuleysi í fjölmennum kvennastéttum. Samdrárttur í velferðarþjónustunni kemur auk þess niður á veikustu hópunum í samfélaginu.   

Síðan ætla ég ekki að ganga eftir svari við þeirri óskiljanlegu staðhæfingu frá í vor að flýti-milljarða þurfi í vegaframvæmdir vegna Kovíd- veirunnar!

Hitt má gjarnan fá svar við varðandi þær flýtiaðgerðir sem vegfarendur á Suðurlandi fóru að verða vitni að í sumar þegar mógrafarskurðirnir allir opnuðust sjónum okkar, suðurlandsundirlendið á stórum svæðum bókstaflega tætt upp, hvort gæti verið einhver mótsögn í því að boða til fréttamannafundar á sama tíma til að lýsa því yfir að loftslagsmál væru mál málanna og nú yrði allt gert til að vera innan gefinna fyrirheita á alþjóðavettvangi. Slíkan fréttamannafund hélt ríkisstjórnin í sumar mitt í öllum uppgreftrinum. Á þessum fréttamannafundi um áform ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum var farið sérstaklega yfir áform um að draga úr iðrakvefi í búfénaði á komandi árum.

Ef einhver alvara er í þessum loftslagsskuldbindingum þá þýðir það gerbreyttan lífsstíl. Það þarf að takast á við þensluhvetjandi kapítalismann, það þarf að ganga gegn honum. Breyttur lífsstíll tekur líka til samgangna, að keyra hægar á vegum sem hægt er að laga án þess að fara alla leið til Houston.

En fyrst og fremst þarf fólk að vera sjálfu sér samkvæmt.

Hvorki er að sjá né heyra að svo  sé.

Mig grunar að á Alþingi verði oddvitar ríkisstjórnarinnar spurðir hvers vegna ekki eigi að setja nema eitt þúsund og tvö hundruð milljarða í samgöngumál á næstu fimmtán árum og hvort ekki verði örugglega plantað vegna koltvisýringsins sem komi upp úr skurðunum. Og því verður svarað að bætt verði í eins og kostur er til að ná hagkerfinu almennilega á flug og svo megi ekki gleyma því að einkaframkvæmdin bjóði upp á frekari aukningu því enn séu ónýttar krónur í vösum okkar vegfarenda.  

Á móti komi að vindgangur í kúm og sauðfé komi til með að minnka og að við það séu bundnar miklar vonir um að bjarga megi jörðinni.
vegaframkv. 1.JPG