HEILBRIGÐISYFIRVÖLD BREGÐAST EN EKKI VÍSIR

visirspil.JPGSamtök áhugafólks um spilafíkn hafa af krafti beitt sér í þágu spilafíkla og viljað vernda þá í veirufárinu. Bæði vegna smithættu en ekki síður gegn fíkn sinni.

Skoðanakönnun var gerð í vor sem sýndi að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er sama sinnis og samtökin og vilja láta loka spilavítum og spilakössum til frambúðar.

Þegar bannað var tímabundið að reka spilakassa síðastliðið vor steig atvinnurekandi fram og lýsti því hvernig þetta hefði bjargað mörgum manninum sem ekki réði við fíkn sína.  

Þeir aðilar sem maka krókinn á þessu veika fólki, Háskóli Íslands, Rauði krossinn, SÁÁ og Landsbjörg láta sig hins vegar engu varða þá óhamingju sem þessir aðilar kalla yfir þetta fólk og fjölskyldur þeirra.

Nú bítur heilbrigðsisráðuneytið og sóttvarnarlæknir höfuðið af skömminni með því að láta taka út úr reglugerð tilvísun í spilakassa þegar ákveðið er að loka spilasölum.

Vefmiðillinn Vísir bregst við – þökk sé miðlinum – og vill vita hver hafi látið undanskilja spilakassa banninu og hverju það sæti.

Í svari heilbrigðisráðuneytisins í dag kemur fram að það eru heilbrigðisyfirvöldin sjálf sem að þessu standa !!!

 Þetta sé „í samræmi við minnisblöð sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra um sóttvarnaráðstafanir … Þá sé það mat ráðuneytisins að smithætta af stökum spilakössum sé ekki meiri en eigi við um margar aðrar aðstæður og starfsemi þar sem snertifletir eru sameiginlegir, t.d. hraðbanka, bensínsjálfssala, sjálfsafgreiðslukössum í verslunum o.fl….”

Er þetta virkilega svona einfalt? Eru sjálfsafgreiðslukassar í verslunum ekki ill nauðsyn, varla eru spilakassar það. Ég held að málið sé flóknara en yfirvöldin vilja vera láta.

Nema þá að það sé ennþá einfaldara; nefnilega að SÁÁ og Rauði krossinn hafi bankað upp á í ráðuneytinu og beðið þá sem þar ráða lengstra orða að svipta sig ekki tekjulindum sínum; meina þeim ekki aðgnag að fólki sem vonir standi til að spili frá sér aleigunni. Verði spilafíklarnir sem dæla heimilispenigunum í spilakassana teknir frá SÁÁ sé útséð um að ekki verði unnt að veita þeim meðferð gegn fíkn sinni þegar þeir leiti til samtakanna.

Sjá hér upplýsandi frétt á visir.is: https://www.visir.is/g/20202024295d/telja-ekki-meiri-smithaettu-af-stokum-spilakossum-en-hradbonkum  

Fréttabréf