Fara í efni

AÐ LÆRA AÐ GERA VEL


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 24/25.10.20.
Fyrir ekki ýkja löngu sótti ég tónleika hjá tónlistarskólanum Allegro. Þetta voru fámennir tónleikar, enda ítrustu varúðarreglur viðhafðar á veirutímum. Músíkantarnir voru fáir, allir á leikskóla- og barnaskólaaldri. Áhorfendur voru einnig fáir. Með öðrum orðum, nánast stofutónleikar nema að húsakynnin voru engin smástofa heldur stór salur.

En viti menn, þessi stóri salur varð í vitund okkar gestanna langt frá því að vera tómlegur, svo fullur varð hann af væntumþykju og virðingu fyrir því sem þarna fór fram. “Þið eruð að læra að leika á hljóðfæri til að geta betur notið tónlistar og þar með auðgað líf ykkar,” var börnunum sagt, “en þið eruð líka að læra að gera vel, þjálfa ykkur til hugar og handar.”

Áhorfendur klöppuðu og fannst þarna vel mælt.

Í huga mínum sat boðskapur Allegro eftir, að læra að bera virðingu fyrir verkefnum sínum, að læra að vanda sig.
Mér varð hugsað aftur í tímann, til ýmissa starfa sem ég hef gegnt um dagana, en þau eru ófá, flest á uppvaxtar- og námsárum. Þá var víða komið víð í sumarstörfum. Stundum var maður þreyttur að loknum starfsdegi. Þreytan var þó ekki endilega í réttu hlutfalli við áreynslu. Þreyttastur var maður nefnilega eftir letidaga, þá einmitt oft aðframkominn.

Einhverju sinni ræddi ég þetta við félaga minn og skólabróður í háskólanum í Edinborg þar sem ég stundaði nám. Skotar tíðkuðu það margir að ráða sig í ýmis störf í fríum sumarlangt. Og þessi vinur minn hafði fengið starf í bókabúð. Og hann sagði farir sinar ekki sléttar.

Lengi vel framan af sumri hefði hann verið leiður í vinnunni, latur og hyskinn og síðan örmagna eftir dag sem gengið hefði út á að gera sem minnst.

Þá hefði það borið við einn daginn að verslunarstjórinn hefði komið að máli við sig og spurt sig hreint út hvort væri, sem sér virtist, að hann væri óánægður í vinnunni, leiddist hún. Vinur minn kvðast hafa játt þessu.

“Þá vil ég spyrja þig um eitt”, hefði verslunarstjórinn haldið áfram,”telur þú skipta máli að hafa aðgang að góðum bókabúðum?” Undir það gat félagi minn tekið og það heilshugar, bókabéusinn sem hann var. “Og finnst þer skipta máli að þar sé starfandi fólk sem getur gefið viðskiptavininum góða leiðsögn?” Vinur minn taldi það tvímælalaust vera svo. “Þannig að þú telur starf þitt skipta máli og vera verðugt?” Enn játti vinur minn og gerðist nú forvitinn.

“Þá skulum við gera samnnig”, sagði nú verslunarstjórinn. “Í eina viku frá morgundeginum að telja, skaltu koma til starfa með því hugarfari að í hverju einasta viðviki sem þú þarft að sinna leggir þú þig allan fram um að vinna verkið eins vel og nokkur kostur er. Þegar þú þarft að pakka inn bók þá geri þú það óaðfinnanlega. Getir þú ekki svarað spurningu viðskiptavinar, leitir þú svarsins og gefist ekki upp fyrr en allt er fullreynt. Auðar stundir fyllir þú með verkefnum sem þú telur að gagnist okkur hér í versluninni. Að vikunni liðinni hittumst við aftur og ræðum málin.”

Á þetta féllst vinur minn. Nú brá svo við að viðhorfið til vinnunnar gerbreyttist og samfara því líðan í starfi.

Og viti menn, að loknum starfsdegi vottaði ekki fyrir þreytu og leiða heldur ánægju og endurnýjuðum krafti þegar hann slakaði á til að öðlast verðskuldaða hvíld.

Mér þótti þetta merkileg saga og fyrir mér hefur hún orðið að dæmisögu um það hve miklu máli það skiptir hver afstaða okkar er til þeirra verkefna sem við höfum tekið að okkur að sinna. Með jákvæðu viðhorfi verður allt bjartara og skemmtilegra.

Það gladdi okkur foreldra, afa og ömmur og aðra aðstandendur, að fylgjast með börnunum leika á hljóðfæri á tónleikunum hjá Allegro og skynja af hve milkilli næmni og velvild þau voru leidd áfram.
Það er ekki lítils virði í lífinu að hafa lært að bera virðingu fyrir viðfangsefnum sínum, í stóru og í smáu, að hafa lært að vanda sig og gera vel.