AÐFERÐ SIGURÐAR NORDALS


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 18/19.07.20.
Skrif hafa verið í blöðum að undanförnu um að nú ríði á að laða “afburðafólk” utan úr heimi hingað til lands, einn vill leggja íslensku af sem þjóðtungu svo við sköpum slíku fólki engin óþarfa vandræði, annar vill sérstakar skattaívilnanir afburðafólkinu til handa, sem reyndar hefur ratað inn í skattapakka Bjarna fjármálaráðherra “vegna Covid” eins og sumt annað sem nú er brallað í skjóli þeirrar veiru.

Ekki vil ég gera lítið úr því hve mikilvægt það hefur reynst íslensku samfélagi að fá hingað til lands framúrskarandi einstaklinga til starfa á ýmsum sviðum, til dæmis á sviði lista. Hér eru dæmin ófá allar götur frá miðri öldinni sem leið ekki síst í tónlistinni.

Þetta fólk varð okkur öllum lyftistöng, dýpkaði tilveruna, blés kappi í kinn, efldi sjálfstraust okkar sem samfélags og gerði það fyrir vikið djarfara og kröftugra en ella.

Þetta var sú hugsun sem einkenndi framfarasókn aldamótakynslóðarinnar sem svo hefur verið nefnd – þeirrar kynslóðar sem endurskóp Ísland á öndverðri öldinni sem leið. Þar var viðkvæðið að allir yrðu að vera með, saman héldum við framfarakyndlinum á lofti. Menningin væri allra sagði Stefán Ögmundsson, forystumaður prentara og stofnandi Menningar og fræðslusambands alþýðu, og Ragnar í Smára færði öreigum Íslands dýrmætustu listaverk sem völ var á og til varð Listasafn alþýðu.

Þetta var fyrir þá tíð að menntastofnanir ættu að verða bestar í heimi eða í hópi hundrað bestu eins og um skeið var í tísku, heldur áttu þær einfaldlega að verða samfélaginu að sem mestu og bestu gagni.

Viljanum til framfara er ekki hægt að ganga að sem vísum. En framfaraviljann er hægt að glæða. Sigurður Nordal, heimspekingur, fræðimaður og kennari, án efa einn fremsti hugsuður Íslands fyrr og síðar, flutti merka fyrirlestra í útvarpinu árið 1940. Efni þeirra átti eftir að seytla inn í þjóðarvitundina á komandi árum og áratugum. Um það get ég borið vitni því móðir mín sá til þess að öll hennar börn læsu hina stórkostlegu dæmisögu Sigurðar um ferðina sem aldrei var farin. Ætla ég að svo hafi verið á fleiri heimilum.

Í dæmisögunni segir frá ungum manni á annarri öld í Rómaveldi sem lifað hafði gjálífi en fékk nú það verkefni frá Marcusi Árelíusi keisara að undirbúa ferð sem krefðist allra hans mannkosta, alls þess sem hann hefði fram að bjóða, ætti hann að rísa undir ætlunarverki sínu.

Hinn ungi maður, Lucius, venti nú sínu kvæði í kross, sagði skilið við fyrri lifnað og tók að rækta sjálfan sig til hugar og handa. Ferðin var svo aldrei farin. En Lucius hafði hins vegar fundið allt hið besta sem með honum bjó. Þetta vildi Sigurður Nordal kenna samferðarmönnum sínum til eftirbreytni; hann vildi vekja hvern og einn til lífsins ekki til að þjóna sínum sérþörfum einvörðungu heldur fyrst og fremst til að efla samfélagið.   

Á fæðingardegi Sigurðar Nordals, 14. september árið 2010, flutti Pétur Gunnarsson, rithöfundur, frábæra hugvekju um þennan mikla andans jöfur. Gerði Pétur að sínum lokaorðum í þessari minningarræðu orð Sigurðar sjálfs sem hann hafði flutt á Rafnseyri við Arnarfjörð á lýðveldisdaginn 17. júní árið 1944:

“Hvert býli, hver uppblásinn og vanræktur blettur biður um betri aðhlynningu eftir þúsund ára arðrán. Jafnvel sjórinn biður um vernd og ræktun, ef hann á að halda áfram að vera bjargargjafi og auðsuppspretta. ... Hvert barn, sem fæðist og oss er falið til forsjár, biður um tækifæri til þess að þroskast samkvæmt hæfileikum sínum og fá að neyta krafta sinna í réttlátu og samstilltu þjóðfélagi, þar sem enginn smælingi er fyrir borð borinn, hver óbreyttur liðsmaður gerir skyldu sína eftir bestu vitund og hver sá, sem þykist kallaður eða kvaddur er til forystu telur það eitt frama sinn og gæfu að vinna Íslandi því dyggilegar sem honum er meira veitt...”.

Ef íslenskan væri horfin þyrfti flinkan þýðanda til að snara texta á borð við þennan og fortíðinni yfirleitt yfir á ensku.
Til þess þyrfti afburðamenn. Spurningin er hvernig þeir verði best búnir til, innfluttir á sérreglum eða samkvæmt aðferð Sigurðar Nordals; að notast við það sem í okkur býr – hverju og einu, rækta mannkostina og samkenndina.

Ég aðhyllist aðferð Sigurðar.

Fréttabréf