OLÍS LOKAR SPILAKÖSSUM OG Á LOF SKILIÐ!


olís.JPG
Olís hefur ákveðið að fjarlægja spilakassa af þjónustustöðvum sínum. Ég tek ofan fyrir OLÍS. Af þessu er manndómsbragur og í þessu felst virðing fyrir fólkinu sem fyllir raðir Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem kallað hefur eftir því að spilakössum og spilasölum verði lokað. Reyndar er það þjóðin öll, eða yfirgnæfandi meirihluti hennar, sem kallar eftir þessu samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Gallup.

Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn skrifar:
“Olís hefur ákveðið að opna ekki aftur spilakassa á sölustöðum sínum og verða þeir fjarlægðir til frambúðar. Vel gert Olís! Takk þið öll sem tókuð þátt í þessu átaki - þetta virkaði. Olís hlustaði á ykkur.”

Og hún bætir við: “Til hamingju nú eru bara 893 spilakassar eftir sem á eftir að loka - þetta er allt að koma.”
Og ég vil bæta við: Til hamingju Samtök áhugafólks um spilafíkn. Staðfesta ykkar mun á endanum leiða til þess að á ykkur verður hlustað og spilavítisvélunum lokað. Þær eru svartur blettur á íslensku þjóðfélagi.

Fréttabréf