Fara í efni

FÍB LEGGST GEGN NÝ-SAMVINNUSTEFNUNNI

Sem kunnugt er hefur Sigurður Ingi, samgönguráðherra, lagt fram frumvarp um vegaframkvæmdir í umboði ríkisstjórnarinnar. Er frumvarpið kennt við samvinnustefnuna og heitir "frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir."

Gamlir framsóknarmenn, sem unnu samvinnustefnunni á öldinni sem leið, eru sagðir bylta sér ákaft í gröfum sínum við þessi tíðindi því ný-samvinnustefnan byggir á því að hleypa fjárfestum að vösum vegfarenda en samkvæmt stjórnarfrumvarpinu er þeim ætlaður arður af vegaframkvæmdum. Í áradaga samvinnuhreyfingarinnar var slíkt fjarri hugsun manna enda vildu forkólfar samvinnuhugsjónarinnar umfram allt virkja samtakamáttinn umfram gróðahyggju. Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hefdu-bb-og-sij-nad-profi-i-husmaedraskolanum
og https://www.ogmundur.is/is/greinar/samvinnufrumvarpid-i-kastjosi

Félag íslenskra bifreiðaeigenda stendur dyggilega vörð um hagsmuni félagsmanna sinna og spyr á málefnalegum nótum, nú sem endranær, hvað komi þeim best.

Niðurstaðan er þessi:

“Samkvæmt útreikningum FÍB er 33% dýrara að fela fjárfestum að sjá um vegaframkvæmdir heldur en ríkinu. Munurinn felst í hærri fjármagnskostnaði einkafjárfesta og kostnaði við innheimtu vegtolla. Vegna þessa hærri kostnaðar hefur FÍB lýst sig andsnúið frumvarpi samgönguráðherra um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum.”
Sjá nánar hér: https://www.fib.is/is/um-fib/frettir/vegagerd-fjarfesta-33-dyrari-en-hja-rikissjodi