Fara í efni

EINAR ANDRÉSSON: MINNING UM MILDAN MANN

Í dag fer fram útför Einars Andréssonar, fangavarðar, góðs félaga og vinar. Eftirfarandi minningaorð mín birtust í Morgunblaðinu í dag:

Guðrún í Eyjum í Kjós og Ögmundur í Hólabrekku á Grímsstaðaholti í Reykjavík voru systkin, börn hjónanna á Hurðarbaki í Kjós, þeirra Guðrúnar Ögmundsdóttur frá Hlemmiskeiði á Skeiðum og Hans Stefánssonar Sephensen frá Reynivöllum í Kjós. Guðrún var amma Einars og Ögmundur var afi minn. Þannig að við Einar Andrésson vorum þremenningar að skyldleika, báðir mjög meðvitaðir um að svo væri. Ávörpuðum við hvor annan oftar en ekki sem frænda og þótti okkur vænt um það.
En við vorum líka vinir og einnig félagar í verkalýðsbaráttu og pólitík nánast öll okkar fullorðinsár. Einar var í forystu fyrir fangaverði, lengi formaður Fangavarðafélags Íslands. Mér er sagt að föngum hafi verið hlýtt til fangavarðarins Einars Andréssonar. Það kemur mér ekki á óvart.
Á vettvangi BSRB lét Einar að sér kveða. Þar áttum við samleið og samstarf um áratuga skeið og var alltaf gott að leita til hans.
Í pólitíkinni gátu menn gengið að því sem vísu að í öllum málum tæki Einar afstöðu út frá félagshyggju og sósíalisma. Hann vildi jöfnuð í samfélaginu og beitti sér mjög í þágu þeirra sem hann taldi að samfélagið þyrfti að rétta hjálparhönd. Marga fundi sat ég með Einari þar sem hann talaði máli slíkra einstaklinga auk þess sem hann var óþreytandi að berjast fyrir réttlátu þjóðfélagi almennt.
Mér er minnisstætt af hve mikilli væntumþykju Einar talaði um börnin sín öll. Missir þeirra er mikill við fráfall hans, slíkur bakhjarl trúi ég að hann hafi verið þeim.
En missir okkar allra, vina hans og samstarfsmanna, er einnig mikill því Einar Andrésson hafði mannbætandi áhrif á allt umhverfi sitt. Hann lagði gott til mála, var málefnalegur, jákvæður og vinsamlegur, einnig gagnvart þeim sem hann átti ekki samleið með í skoðunum. Við sem fengum að kynnast því hve traustur Einar var vinum sínum, munum ávalt minnast hans af hlýhug. Megi sú væntumþykja sem hann naut umvefja fjölskyldu hans alla.
Innilegar samúðarkveðjur sendi ég börnum Einars og fjölskyldu hans allri. Megi minning hans lifa og ylja ykkur um ókomna daga.