Fara í efni

ALÞINGI Á HRAÐFERÐ TIL HÆGRI Á VEGUNUM

Rætt er um samgögufrumvap ríkisstjórnarinnar á Alþingi, iðulega kallað “samvinnufrumvarpið”. Þar er talað fyrir einkavæðingu í samgöngumálum.

Eftirfarandi er úr frumvarpinu:

“Samvinnuverkefni: Verkefni þar sem einkaaðili annast fjármögnun í heild eða að hluta … Heimilt er að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða öllu leyti með gjaldtöku af umferð um mannvirki sem samvinnuverkefnið nær til. Veggjöld geta í heild eða að hluta staðið straum af byggingarkostnaði, viðhaldi, rekstri, þróun og eðlilegum afrakstri af fjárfestingu mannvirkis.”

 Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hefur ályktað gegn frumvarpinu. Þar kemur m.a. fram:

“Samkvæmt útreikningum FÍB er 33% dýrara að fela fjárfestum að sjá um vegaframkvæmdir heldur en ríkinu. Munurinn felst í hærri fjármagnskostnaði einkafjárfesta og kostnaði við innheimtu vegtolla. Vegna þessa hærri kostnaðar hefur FÍB lýst sig andsnúið frumvarpi samgönguráðherra um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum.”

Stjórnmálaflokkarinr á Alþingi hafa tekið afstöðu til frumvarpsins í álitsgerðum eftir umfjöllun þingnefndar:
Sjálfstæðisflokkur styður frumvarpið eindregið og fyrirvaralaust
Vinstrihreyfingin grænt framboð styður frumvarpið eindregið og fyrirvaralaust
Framsóknarflokkurinn styður frumvarpið eindregið og fyrirvarlaust
Viðreisn styður frumvarpið en vill frekari einkavæðingu
Samfylkingin setur fram fyrirvara og að margt sé óljóst og óútfært
Píratar og Flokkur fólksins eiga ekki aðild að álitsgerðum nefndarinnar

Í meirihlutaáliti D,V,B og C er uppi hafður áróður fyrir einkavæðingu og réttlætingu á arðtöku fjárfesta upp úr vösum vegafarenda, þótt þessu sé pakkað inn í umbúðir hinna “málefnalegu”, sumir segja, aðrir segja… Niðurstaða er hins vegar ótvíræð: Samþykkt er að ráðast í “samvinnuverkefni” ríkis og sveitarfélaga við fjárfesta sem fái heimild til arðtöku.
Málsvarar þessarar stefnu segja að kalla þurfi fjárfesta til, ella væri ekki hægt að ráðast í stórfelldar samgönguframkvæmdir sem nauðsynlegar séu. Svo er að skilja að fjárfestarnir muni borga brúsann. Þeir muni fá því áorkað sem við í sameiningu ráðum ekki við.
Auðvitað eru þetta blekkingar því það erum við, vegfarendur sem munum borga hverja einustu krónu plús gróðann, hinn “eðlilega afrakstur”.
Þetta hefur ekkert með það að gera hvort ríki eða verktakar framkvæmi því það gera verktakar nær alfarið núorðið. Það nýja er að boða stefnu þar sem fjárestar mega taka út arð á okkar kostnað.

Einhvern tímann hefði VG barist af alefli, jafnvel lagst í málþóf, gegn svona áformum og svona málflutningi. Nú boðar flokkurinn einkavæðingu og mærir hana hástöfum.

Hér er slóð á frumvarpið og greinargerð meirhlutans:
https://www.althingi.is/altext/150/s/1122.html

 https://www.althingi.is/altext/150/s/1739.html

Um frumvarpið hef ég áður skrifað hér á síðunni, m.a. hér:

https://www.ogmundur.is/is/greinar/samvinnufrumvarpid-i-kastjosi
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hefdu-bb-og-sij-nad-profi-i-husmaedraskolanum
https://www.ogmundur.is/is/greinar/fib-leggst-gegn-ny-samvinnustefnunni