Fara í efni

ÞÖKK SÉ BYLGJUNNI, MBL.IS OG KVENNABLAÐINU

Fram hefur komið í fjölmiðlum að forsætisráðherra hafi verið afhentar yfir tíu þúsund undirskriftir með áskorun til Alþingis um að eignarhald á landi verði ekki afhent út fyrir landsteinana, að skilyrði fyrir að eiga íslenskt land sé að eiga lögheimili í landinu og blátt bann og skilyrðislaust verði sett við uppsöfnun auðkýfinga, íslenskra jafnt sem erlendra, á landi.

Fram hefur komið í fjölmiðlum segi ég. Sumum - og þökk sé þeim. Öllum fjölmiðlum landsins, er mér sagt, hafi verið send fréttatilkynning á fimmtudag um að til stæði að afhenda forsætisráðherra undirskriftalistann kl. 15 daginn eftir, þ.e. á föstudag. Sá tími hefði fengist úthlutaður að ráði fjölmiðlasérfræðinga Stjórnarráðsins.

Í Bítið á Bylgjunni var málið tekið upp á föstudagsmorgun, á mbl.is, netútgáfu Morgunblaðsins strax að aflokinni afhendingunni og síðan birti  Kvennablaðið umrædda áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar. Þökk sé þessum þremur fjölmiðlum! Annars hefði málið farið leynt eða þar til almenningur hefði farið að dreifa upplýsingum sín í milli.  

Hér að neðan er tengill á umfjöllun Kvennablaðsins. Málið á ég síðan eftir að reifa ítarlegar hér á síðunni en árum saman hef ég haft á því brennandi áhuga og furðað mig á sinnuleysi stjórnvalda hvað landakaupin áhrærir:
Umfjöllun Kvennablaðsins:
https://kvennabladid.is/2020/05/21/seljum-ekki-island/?fbclid=IwAR1MjaU_4AaP4wqYqvQLJCFaq3fiKUco8LrrUZDSkx1ueW31PvGAdduA-uw

Umfjöllun mbl.is: -  https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/05/22/afhenti_undirskriftalistann_seljum_ekki_island/