Fara í efni

UNDIRGEFNI LEYSIR ENGAN VANDA - BURT MEÐ REFSIVÖNDINN !

Mér skilst Alþingi vera búið að samþykkja frumvarp dómsmálaráðherrans um að setji ríkislögreglustjóri neyðarlög þá öðlist yfirvaldið þar með lagalega heimild til að skáka starfsfólki innan almannaþjónustunnar til að eigin geðþótta; réttarstaða starfsfólksins þar með að engu gerð. Engin viðbrögð hafa komið við þessu frá samtökum launafólks innan almannaþjónustunnar svo ég viti - enn sem komið er.

Og skammt er stórra högga á milli. Út undan mér heyrði ég í fréttum talað um sektir og fangelsanir væri yfirvöldum ekki hlýtt varðandi sóttkví og sitthvað annað tengt kórónaveirunni. Hélt ég að verið væri að flytja okkur fréttir frá Kína eða einhverju ríki þar sem stjórnað er ofan frá.

Nei, það var ríkissaksóknarinn á Íslandi sem “hefur gefið fyrirmæli” varðandi “brot á fyrirmælum um sóttvarnarlög”: Geti sektir numið hálfri milljón króna og sex ára fangelsisvist.

Aftur eru engin viðbrögð. Þykja þetta ef til vill vera réttmæt viðbrögð við alvarlegu ástandi í samfélaginu; nú þegar öllum beri að sýna samstöðu og ganga í takt sé ekkert annað að gera við hina “taktlausu” en að stinga þeim inn eða láta þá borga sekt?

Getur verið að þetta sé að verða stemningin og að stjórnvöldin gangi á lagið eða að þetta sé þeirra framlag til samræmds göngulags?

Þetta gerðist líka eftir að tvíburtaturnarinr í New York voru jafnaðir við jörðu níunda september 2001. Þá þótti Bandaríkjamönnum sér ógnað, Þá voru sett lög sem þrengdu að frelsinu, lög sem enn eru fyrir hendi og hægt að grípa til. Við völd voru þá öfl sem vildu nýta sér tækifærin til að treysta völd sín yfir lýðnum. Þeir sem andæfðu voru úthrópaðir sem óvinir þjóðarinnar.

Ekkert slíkt er að gerast hér. Því fer víðs fjarri.
En verum meðvituð og vakandi.
Frelsi er ekki gefin stærð – um alla framtíð.

Svo er það hitt að þessi tegund stjórnunar, valdboð, hótanir og refsingar eru ekki leiðin út úr neinum vanda. Þess vegna á að nema fyrrgreind lög úr gildi þegar í stað og ríkissaksóknari að afturkalla fyrirmæli sín.

Samfélagið vill standa saman.
En varla vill það leggjast saman - undir valtara valdboðs.