Fara í efni

TÍMI ENDURMATS


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 28/29.03.20.
Allt er nú opið til endurskoðunar. Skyndilega er fjármálakerfi heimsins opnað upp á gátt. Gallharðir frjálshyggjumenn skrifa í hægri sinnuð málgögn sín að nú verði allir að gerast sósíalistar ef bjarga eigi hagkerfi kapítalismans. “Bara í bili”, flýta þeir sér að bæta við, “annars gætum við setið uppi með sósíalismann.” Ekki þykir þeim það góð tilhugsun.

Í hið hægri sinnaða breska stórblað, Telegraph, skrifar stækur hægri maður, að hið gamla húsráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um niðurskurð inn að beini í kreppu, dugi ekki, enda hafi slíkar ráðleggingar reynst “galdralækningar” sem laskað hafi samfélögin en ekki lagað neitt!

Öryrki grípur allt þetta á lofti og spyr á samfélagsmiðlum, undir mynd af manni frá Nasaret, hvort nú, - þegar í ljós komi að engar fjárveitingar úr ríkissjóðum séu taldar of háar, og mælast þær  þó í hundruðum og þúsundum milljarða, reiknað í hvaða gjaldmiðli sem er - megi þá ekki bæta kjör öryrkja og lágtekjuhópa svo um muni; hann kveðst ekki skilja hvað gerst hafi því fyrir aðeins fáeinum vikum hafi verið talið útilokað, og stefna efnahag samfélaganna í bráða hættu, að veita þessum hópum brota-brota-brotabrot af því sem nú rynni út úr fjárhirslunum á ábyrgð ríkissjóðanna.
Við þessu á enginn svar, enda það sem svart var í gær, nú orðið hvítt.

Og það á líka við um ímynd forneskjunnar, sjálfan Guðna Ágústsson, þann mann sem öðrum fremur hefur barið bumbur í fjölmiðlum landsins um mikilvægi matvælaöryggis og að lífsnauðsynlegt sé að tryggja íslenskum landbúnaði lífvænleg skilyrði; talað þar fyrir daufum eyrum í Stjórnarráði Íslands og setið undir háðsglósum álitsgjafa sem svo kalla sig, hann er nú á góðri leið með að verða maður framtíðarinnar!

Ekki er enn komið að því að Alþingi endurkalli heilmildir til að flytja inn hrámeti sem okkar bestu sérfræðingar hafa varað við að ógni velferð dýra og lýðheilsu í landinu. En að því mun koma. Því eftir þær hamfarir í heilabúi mannkynsins sem við verðum nú vitni að, gengur ekki lengur að segja okkur að vegna ákvæða einhvers staðar í regluverki einstakra ríkja eða ríkjasamstæða verði engu hnikað um alla framtíð. Við erum í þann veginn að setja slíka nauðhyggju á ís.

Sama mun gilda um sjávarútveginn. Þar mun vanahugsun ekki lengur verða liðin. Krafist verður róttækrar endurskoðunar á kerfinu öllu, hver áhrif það hefur á þróun samfélags og byggðar og einnig á lífríki sjávar. Eða er líklegt að talsmenn stórútgerðanna, sem eru í þann veginn að hreinsa upp allar þær smærri og þar með leggja heilu sjávarbyggðirnar í auðn í atvinnulegu tillliti, treysti sér til að horfast í augu við íslenskan almenning og segja, aðeins mitt kerfi er í boði?

Augljóst er að allt þetta mun koma til endurmats, einfaldlega vegna þess að það liggur í loftinu. Kröfurnar eru þegar farnar að rísa.

Svo er spurningin, hvað gerist þegar komið er út fyrir nærumhverfi okkar. Þar er ég ekki eins bjartsýnn. Þegar veira herjar á okkur þá skiljum við það. Þegar veirur herja á fjarlægar þjóðir þá skiljum við það síður. Og allra síst skiljum við þegar herjað er á fjarlægar þjóðir til að hafa af þeim auðlindir þeirra og það í okkar nafni, þá viljum við sem minnst af því vita og alls ekki til að taka á því ábyrgð.

Alla vega reyna fáir að setja slíkar hremmingar í sitt rétta samhengi. Sagðar eru fréttir af þrengingum almennings vegna skorts á lyfjum og nauðsynjum en látið undir höfuð leggjast að greina frá því að þetta sé til komið að verulegu leyti vegna viðkiptaþvingana af hálfu ríkja sem vilja svipta fólkið auðlindum sínum. Þetta er sjaldnast rætt eða hvenær voru Íslendingar spurðir hvort þeir væru samþykkir því að beita almenning í Írak, Sýrlandi eða Venesúela viðskiptaþvingunum, svo herfilegum að leitt hafa til hræðilegra hörmunga og mennfellis?

Það er góður samhljómur með Bandaríkjunum, flaggskipi heimsvaldastefnu 21. aldarinnar, NATÓ og Evrópusambandinu, um hvaða ríki skuli skilgreind sem hryðjuverkaríki, hvaða samtök skuli skoðast hryðjuverkasamtök og einstaklingar að sama skapi. Virk andstaða við heimsvaldastefnu þeirra er nánast skilgreiningin á hryðjuverki.   
Á vef utanríkisráðuneytisns segir að það geti verið “íþyngjandi” að vera látinn heyra undir slíka skilgreiningu en hægt sé að sækja um að vera tekinn af listanum með því að leggja inn umsókn sem stíluð væri:
Alþjóðlegar þvingunaraðgerðir
Utanríkisráðuneytið
Rauðarárstíg 25
105 Reykjavík
Ísland
… eða til Evrópusambandsins:
Council of the European Union
General Secretariat
DG C 1C
Rue de la Loi/Wetstraat 175
1048 Bruxelles/Brussel

Póstfang er hvorki gefið upp hjá Trump né NATÓ og vita þó allir að þar eru ákvarðanirnar teknar.
Gæti verið að okkar þrengingar nú muni opna augu almennings fyrir því að ekki aðeins veirur geti valdið eyðileggingu og þjáningum; að líka séu til hamfarir af mannavöldum og að stundum séum við einmitt mennirnir sem þar eigi hlut að máli?