Fara í efni

ÍSLAND ÞRÝSTI Á TYRKLAND


Birtist í Morgunblaðinu 12.03.20.
kúrdarafp.JPG
Nýlega tók undirritaður þátt í svokallaðri Imrali sendiför til Tyrklands. Hún er kennd við Imrali því á eyju með því nafni í Marmarahafinu, skammt undan Istanbúl,  hefur Abdullah Öcalan, óskoruðum leiðtoga Kúrda í Tyrklandi og Norður- Sýrlandi verið haldið í einangrunarfangelsi síðan honum var rænt í Nairobi í Kenía í febrúar árið 1999 þegar hann var á leið til Suður-Afríku í boði Nelsons Mandela. Áður hafði hann haft vist í Sýrlandi en sýrlensk stjórnvöld sætt miklum þrýstingi til að vísa honum úr landi. Talið er sannað að vestrænar leyniþjónustur í samstarfi við ísraleska leyniþjónustu hafi staðið að handtöku Öcalans fyrir rúmum tveimur áratugum.

Vopnuð barátta Kúrda ekki lengur skilgreind sem hryðjuverk

Öcalan hafði ásamt félögum sínum stofnað PKK, Verkamannaflokk Kúrda árið 1978. Sá flokkur skipulagði hernað Kúrda í Tyrklandi, leit á það sem varnarstríð en Tykir skilgreindu þá baráttu hins vegar sem hryðjuverk. Undir þá skilgreiningu hefur Bandaríkjastjórn og Evrópusambandið síðan tekið. Þess vegna þóttu það mikil tímamót nú upp úr áramótum þegar Hæstiréttur Belgíu úrskurðaði í dómi að ekki væri rétt að skilgreina PKK lengur sem hryðjuverkasamtök heldur sem samtök sem ættu aðild að borgarastríði. Þetta er lykilatriði því skilgreiningin hryðjuverkasamtök hefur verið skæðasta vopnið gegn Kúrdum og gert kleift að einangra þá í Tyrkland og utan Tyrklands. Þannig er leitað lausnar í stríðsátökum, reynt að semja um frið, en hryðjuverkasamtök reyna menn að brjóta á bak aftur; við slík samtök semja menn trauðlega og það sem meira er, samneyti við alla þá sem hafa með slík samtök að gera, flokkast sem aðild að hryðjuverkastarfsemi. Þetta nefni ég til að árétta hve mikla þýðingu dómur hæstaréttar Belgíu hefur.

Í fangelsi vegna skoðana sinna

 Fréttir af mannréttindabrotum í Tyrklandi eru engin nýlunda. Imrali sendinefndin sannfærðist um að þar hefur ekki orðið breyting á nema þá heldur á verri veginn. Enn missir fólk vinnuna vegna skoðana sinna og er þá algengast að hafa sýnt stuðning við að friðarviðræður verði teknar upp að nýju við Kúrda. Það skoðast fangelsissök að sýna slíkum friðarviðræðum stuðning!
Að mati mannréttindasamtaka í Tyrklandi fer ástand í fangelsum landsins hrakandi; ætla megi að minnsta kosti fimmtíu þúsund manns séu í fangelsi vegna skoðana sinna, þótt nákvæmar tölur séu ekki um það. Við hittum fulltrúa verkalýðshreyfingar, hinnar almennu, svo og samataka heilbrigðisstarfsmanna. Okkur var tjáð að í heilbrigðisgeiranum hafi átt sér stað hreinsanir eins og í dómskerfinu, á meðal lögmanna, í menntakerfi og í stétt fjölmiðlafólks. Heilbrigðskerfið gjaldi nú fyrir þessar hreinsanir því þær bitni á þjónustunni þar.

 Borgi sig að liggja lágt og þegja

Ætlað er að um 130 þúsund einstaklingar hafi verið hraktir úr starfi hjá hinu opinbera. Markvisst sé unnið að því að hrekja fólk úr verkalýðshreyfingunni, var okkur sagt, til dæmis með ferðabanni. Margir helstu talsmenn hennar, sem á annað borð eru ekki á bak við lás og slá, þurfi að sæta ferðabanni, sviptir vegabréfi og komist þeir fyrir vikið ekki úr landi. Talsmaður samtaka starfsfólks í heilbrigðisþjónustu sagði okkur að í sínum samtökum hefði fækkað um fimmtíu prósent á undaförnum árum. Menn sjái það sem vænlegastan kost að liggja lágt, þegja og helst segja sig úr verkalýðsfélögum, vilji menn njóta ferðafrelsis og fá frið fyrir áreiti stjórnvalda.

 Mannshvörf færast í vöxt – mæðurnar ofsóttar!

 Margt bendir til að mannshvörf af völdum stjórnvalda séu að færast í vöxt að nýju. Þetta var alræmt í Tyrklandi um miðjan tíunda áratuginn, sérstaklega árin 1994 og 95. Við hittum að máli svokallaðar laugardagsmæður sem koma vikulega saman að krefjast rannóknar á hvarfi barna sinna, oftast ungra manna, sem sjaldnast hafi komið lifandi í leitirnar. Hafi þeir á annað borð fundist þá verið liðið lík og oftar en ekki hafi mátt sjá þess merki að þeir hafi sætt pyntingum. Laugardagsmæður njóta mikils skilnings og stuðnings á meðal almennings í Tyrklandi og sé engu líkara, var okkur sagt, en stjórrnvöld væru að kanna hvað þau komist upp með þegar þau nú ofsæki þessar mæður í meira mæli en nokkru sinni fyrr.

 Mannréttindi jaðarsett

 Mannréttindasamtök lýstu áhyggjum af hlutskipti Kúrda í landamærabyggðunum sunnan tyrknesku landamæranna Sýrlandsmegin, þar sem Tyrkir gerðu innrás síðastliðið haust. Fulltrúar stórvelda sitji að tafli, þ.e. Sýrlands, Rússlands, Írans og Tyrklands; Bandaríkjamenn hafi horfið frá því tafli sem kunnugt er. Fólkið sjálft, fórnarlömbin, komi hvergi nærri slíkri taflmennsku og sé það varasamt.
Hvað Kúrdana varðar þurfi að hleypa fulltrúum þeirra að samningaviðræðum. Þar sé hinn fangelsaði Abdullah Öcalan, lykilmaður. Í ferð okkar hittum við lögfræðilið hans, þar á meðal þá sem fengu að heimsækja hann á Imrali eyju í sumar. Þá höfðu lögfræðingar hans ekki fengið að tala við hann í sjö ár. Aftur er búið að loka á allar viðræður og þar með eru mannréttindin sett til hliðar.

Ekki sæmandi fyrir ríkisstjórn Íslands

Allt er þetta mikið áhyggjuefni. Ekki síður afstaða Íslands. Enn hefur NATÓ lýst stuðningi við ofbeldisaðgerðir Tyrkja. Getur það virkilega verið að ríkisstjórn Íslands þyki sæmandi að standa að slíkri yfirlýsingu og slíkum stuðningi? Ég leyfi mér að efast um að það sé í samræmi við íslenskan þjóðarvilja. Ég hef trú á að sá vilji gangi í þveröfuga átt og að Ísland ætti þvert á móti að þrýsta á Tyrki að virða mannréttindi og hefja friðarviðræður við Kúrda þegar í stað.
https://www.mbl.is/mogginn/bladid/grein/1747723/?t=191224053&_t=1584028116.3154397