Fara í efni

Á ENDANUM RJÚFUM VIÐ ÞAGNARMÚRINN

Í dag og í gær hefur mér hreinlega ekki verið sama um þagnarmúrinn sem umlukið hefur siðleysi rekenda spilakassa og spilavíta sem hafa algerlega leitt hjá sér áskoranir Samtaka áhugafólks um spilafíkn um að loka fyrir fjárhættuspil þó ekki væri nema til að hefta útbreiðslu kórónavírussins.

Fram hefur komið í blaðagreinum forsvarsmanna félagsins að ráðherrum hafi verið skrifað (án þess þó að þeir létu svo lítið að svara), heilbrigðisyfirvöldum og almnannavörnum gert viðvart um smithættu af völdum fjárhættuspila vegna nálægðar spilara hver við annan og síðan snertingar þeirra við kassana. En allt hefur komið fyrir ekki.

Rekendur spilavítanna hafa gert það eitt að bjóða spilafíklum spritbrúsa!

Nú vil ég hins vegar þakka netútgáfu Morgunblaðsins, mbl.is og netútgáfu DV, dv.is, fyrir að rjúfa þagnarmúrinn um þetta mál og visi.is vil ég þakka fyrir að birta grein mína um efnið fyrr í dag. Hver veit nema Ríkisútvarpið rumski og drepi á þessu hneyksli þegar á líður helgina. Hver veit. Bylgjan hefur í tímans rás hins vegar oft sýnt góðan vilja varðandi þetta málefni svo og Stundin, aldeilis prýðisvel og Hringbraut í seinni tíð.

En þrátt fyrir góða spretti á stundum hafa allir fjölmiðlar þagað um málaleitan Samtaka fólks um spilafíkn á þessum síðustu örlagaríku dögum. https://www.ogmundur.is/is/greinar/reynt-ad-thagga-framtak-samtaka-ahugafolks-um-spilafikn

Þar til nú að þögnin hefur verið rofinn. Það hlaut að gerast. Svo mikið þykist ég þekkja til baráttufólksins í Samtökum áhugafólks um spilafíkn að aldrei myndi það láta þegja sig í hel. Nú þurfa fjölmiðlar að stíga næstu skref og beina spurningum til dómsmálaráðherra, almannavarna og sóttvarnarlæknis.

Tenglar frá í dag sem hér er vísað í:

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/03/20/radherra_loki_spilakossum_vegna_koronuveiru/

https://www.dv.is/frettir/2020/3/20/ogmundur-spyr-hvort-thognin-se-saemandi-maelst-til-thess-ad-menn-spritti-sig-adur-en-ranid-hefst/

https://www.visir.is/g/202023105d/virdingarvert-framtak-i-spilasjuku-samfelagi

Ég hvet lesendur til að kynna sé þessi mál, hlusta á málflutning talsfólks Samtaka áhugafólks um spilafíkn, sem kynnt hefur sér þessi mál ofan í kjölinn.
Síðan þurfum við öll, landsmenn góðir, að sameinast í því að uppræta þennan ósóma. Þegar þagnarmúrinn um spilavítin og hvernig þau hafa lagt líf fjölda manns í rúst, hefur endanlega verið rofinn og síðan jafnaður við jörðu, þá mun það gerast; þá munum við henda þessu spiladrasli og loka spilavítunum, ekki bara vegna kórónaveirunnar heldur vegna samvisku þjóðarinnar. Hún mun ekki leyfa þetta áfram.